Dagur í lífi Naglans

Þessi pistill birtist í Heilsublaði Nettó í september 2017

Dagur í lífi Röggu Nagla

Hvernig er dæmigerður dagur í mínu lífi?

Ég er algjör morgunhani og er yfirleitt komin á fætur milli 6 og 6:30.

Stundum fyrr ef það er mjög annasamur vinnu dagur framundan en ég vinn sem sálfræðingur í Kaupmannahöfn þar sem ég er með mína eigin stofu, sem og fjarsálfræðiviðtöl í gegnum netið.

Morgunmatur.

Morgunmaturinn minn er alltaf eins.

Obama var eitt sinn spurður af hverju hann var alltaf í bláum jakkafötum. Hann svaraði að þá er einni ákvörðun færra yfir daginn. Það er sama með mig og morgunmatinn. Það er alltaf haframjöl og egg. En í allskonar varíasjónum enda er haframjöl eins og auður strigi málarans sem getur breyst í allra kvikinda líki.

Bakaður grautur. Kaldur grautur. Grautartriffli. Næturgrautur með chia fræjum. Heitur grautur á gamla móðinn.

Svo toppa ég grautinn alltaf með ávöxtum og hnetu, kókoshnetu eða möndlusmjöri.

Himnesk hollusta hnetusmjörið er í miklu uppáhaldi, bæði gróft og fínt.
Monki kasjúhnetusmjörið er algjör dýrð en það sem tryllir bragðlaukana er hvíta möndlusmjörið. Það er eins og fljótandi marsipan og ég gæti alveg klárað heila dollu í einu vetfangi, ef matargatið fengi að leika lausum hala.

Svo hef ég mig til fyrir æfingu og c.a 20 mínútum fyrir æfingu fæ ég mér NOW Pre-workout Amino Power.

Hvernig æfi ég?

Biggi þjálfarinn minn er guðsgjöf til mannkyns og sendir mér æfingar. Alltaf ótrúlega skemmtilegar, krefjandi en yfirstíganlegar. Við hlustum líka mikið á líkamann og förum eftir orkunni.
Suma daga er ég eins og Duracell kanínan og til í blóðuga lófa, súrefniskút og kalk uppá bak.
Í fósturstellinguna á eftir að sjúga puttann.
En suma daga er ég þreytt, stressuð og orkulítil og þá verð ég lítil í mér og vil bara rólegri æfingar sem eru samt alltaf krefjandi.

Mínar æfingar eru sambland af Crossfit, ólympískum lyftingum í bland við hefðbundnar styrktaræfingar.

Svo finnst mér rosa gaman að taka stutta en snarpa hlaupaspretti þar sem ég keyri mig alveg út í stuttan tíma og hleyp eða labba á rólegra tempói inni á milli. Athyglisbresturinn minn hreinlega leyfir ekki langar vegalengdir því ég verð svo pirruð að vera föst í einu verkefni í langan tíma. Ég hef til dæmis aldrei á ævinni hlaupið lengra en 10 kílómetra.

Eftir æfingu fæ ég mér alltaf bæði kolvetni og prótín til að hefja prótínmyndun í vöðvunum sem fyrst og koma af stað viðgerðarferlinu. Nýbakað brauð eða bolla með osti og sultu verður oftast fyrir valinu. Og auðvitað minn heimsfræga hnausþykka prótínsjeik 

 

En útí sjeikinn fer 1 skófla NOW Casein, 1 tsk Xanthan gum (þykkingarefni). French vanilla eða English Toffee dropar. Og haugur af spínati, sellerístilkum og toppkáli (fæst í Nettó).

Hádegis og Kvöldmatur er alltaf samsettur úr prótíni, kolvetnum, fitu og haug af grænmeti og salati. Það er alltaf eitthvað kjöt/fiskur/kjúklingur eða baunir þegar ég reyni að minnka kjötneyslu sem mætti ganga betur.

Flókin kolvetni úr kartöflum, sætum kartöflum rótargrænmeti, hrísgrjónum, cous cous, byggi.

Ég elska hrísgrjónablönduna frá Himneskri hollustu með brúnum og villtum grjónum.

 

Út í hrísgrjónin hræri ég oft ristaðar baunir frá Food doctor.

Fita getur verið olía út á salatið, gvakamólí úr avocado, eða satay sósu úr Monki hnetusmjöri, muldar hnetum/fræjum yfir salat eða hrísgrjón. Fræblandan frá Himnesk hollustu er dásamleg.

Bætiefnin sem ég nota eru EVE multivitamin. Járn. B12. Góðgerlar. C-vítamín. Liquid multi. Góðgerlar. Dairy digestive. D3 dropar.

 

B12.  er algjör lífsnauðsyn fyrir mig og ég upplifði mikla ofþjálfun og streitueinkenni fyrir tveimur árum og skildi ekki hvað var að gerast. Æfingar á hárri ákefð spæna nefnilega upp birgðirnar af B12 í líkamanum en um leið og ég fór að dúndra því í mig í stórum skömmtum þá kom orkan til baka af fullum krafti.

B12 er ekki búið til í líkamanum og við þurfum að fá það úr dýraafurðum eða bætiefnum. Líkaminn geymir það ekki svo við þurfum að taka það reglulega.
Ég nota Ultra B12 í vökvaformi frá NOW og læt það liggja undir tungunni í 30-60 sekúndur.

Ég hef tilhneigingu til að vera járnlítil, og tek því járntöflur eða járnmixtúru daglega.

C-vítamín er mikilvægt að taka samhliða járni til að hámarka upptöku þess.

Dairy digestive tek ég alltaf með máltíð sem inniheldur mjólkurvörur því ég er smá viðkvæm fyrir sumum mjólkurvörum. En ef ég dúndra einni svona lufsu í mig er mallinn til friðs.

Góðgerlar byggja upp öfluga og heilbrigða þarmaflóru sem skiptir miklu máli, bæta meltingu, draga úr fæðuofnæmi og efla ónæmiskerfið. Þeir ákvarða hvernig líkaminn nýtir fæðuna sem við snæðum

 

NOW Eve fjölvítamín eða Liquid multi sem minnir mig á Sana Sól í gamla daga og fortíðarþráin hríslast niður hryggjarsúluna þegar það rennur niður vélindað.

D3 vítamín. fyrir ónæmiskerfið og styrk og heilsu beina. Sem betur fer slatti af sól í Danmörku yfir sumartímann svo þá tek ég töflurnar, en yfir grámyglaðan veturinn dúndra ég í mig NOW D-vítamín dropum.

 

Fyrir svefn hendi ég síðan í mig 2-3 magnesíum til að fá dýpri svefn og hámarka endurheimt í vöðvum yfir nóttina. Ég nota Calcium og Magnesium frá NOW til að fá líka kalk sem er svo mikilvægt fyrir okkur kvensurnar.

Þegar farið er á fætur með blaðburðardrengjunum er ólympísk þreyta yfirleitt mætt á svæðið uppúr kl 21 og ég er mjög stolt af sjálfri mér að vera komin uppí bælið fyrir kl. 22 með bók að lesa.

 

__________________________

Þessi pistill birtist í Heilsu og Lífsstílsblaði Nettó og er unninn í samstarfi við Nettó, Under Armour og Icepharma.