Stundum langar mann bara í smá….. bara ogguponsu smá …. bara nokkra bita til að friðþægja litla púkann sem byrjar að ólmast og hamast þegar líður á vikuna.
“Smá biti af köku og ég skal halda K.J það sem eftir er vikunnar…ég lofa”
En þú nennir ekki að skella í heila köku og sitja uppi með sjö óétnar sneiðar bara vegna skyndilöngunar…. Þá er fjandinn laus og líklegt að restin renni niður vélindað.
Þú vilt heldur ekki eyðileggja árangur liðinna vikna með sykurleðju og óþarfa kaloríum.
Hvað gera bændasamtökin í svona stöðu?
Inn kemur “Einstæðingskakan” á hvítum hesti til bjargar.
Það fá væntanlega allir kaldan svita á ennið við tilhugsunina um meira súkkulaði eftir Ólympíuleika í páskaeggjaáti um liðna helgi.
Þó súkkulaðikaka tróni á toppnum í kökustigveldinu þá nartar gulrótakaka fast í hælana.
Gulrótakaka fyrir einstæðing á undir fimm mínútum…. og ekki nema skitnar 140 karólínur í kvikindinu. Svo það má vel slátra alle sammen með góðri samvisku og frábær kostur eftir átökin við járnið.
▪ ¼ bolli spelt/heilhveiti/möndlumjöl
▪ ½-1 tsk kanill (sumir eru með kanilblæti og þurfa meira * roðn*)
▪ 1/2 tsk negull
▪ 1/4 tsk lyftiduft
▪ 1/8 tsk matarsódi
▪ 1/8 tsk salt
▪ 1 eggjahvíta
▪ 1.5-2 msk (eftir sætustigi bragðlaukanna) sætuefni (stevia, xylitol, sukrin)
▪ 1/3 bolli rifin gulrót (c.a ein stór)
▪ 2 msk fjörmjólk/sojamjólk/möndlumjólk (sumir eru með óþol eða annað vesen)
▪ 1/4 tsk vanilludropar eða vanilluduft
Blanda þurrefnum saman í skál. Blanda eggjahvítu, mjólk og gulrótum saman í blandara og hella yfir þurrefnin. Hræra og hræra eins og vindurinn svo að allt verði voða kósý saman.
Hella í lítil form, t.d ramekin eða bara kaffibolla.
Hægt að setja smotterí í tvö form og gera tveggja hæða brjálæðing…úúúú….með kremi á milli hæða….*sleftaumarályklaborð*
Pingback: Flöffmeister 3000 – Jarðarberjagleði | ragganagli