Beinagrindin í skápnum

Maðurinn er ekkert nema vaninn sagði Earl Nightingale..eða var það Stanley vinur hans… skiptir ekki máli.

Það getur verið auðveldara að draga blóð úr grjóthnullungi með ryðgaðri saumnál en að breyta venjum sínum.

Vani er eitthvað sem við gerum á ómeðvitaðri sjálfsstjórn – líka fæðuval – líka óhollt fæðuval.

Naglinn þekkir vel það átak sem breyting á matarvenjum krefst, því túttan sú arna fæddist sannarlega ekki með kálblað í munnvikinu…öðru nær.
Á hinum ýmsu skeiðum á níunda og tíunda áratugnum voru átvenjurnar hrein hryggðarmynd.
Engin furða að einbeitningin yfir námsbókunum hafi verið úti í móa með spóa, slenið einræðisherra sem rak í bólið eftir skóla og nokkuð sem hét þol eða styrkur var í latínubókunum innan um herklædda Galla og rómverskar lauslætisdrósir.

Í æsku og langt fram á unglingsár var morgunverðurinn iðulega Cheerios með Nýmjólk og hálfu kílói af skjannahvítum strausykri.
Alls ekki mátti kaupa Cocoa Puffs eða annað „óhollt“ morgunkorn á æskuheimili Naglans en þess í stað var sturtað væri úr heilu sykurkörunum yfir Seríósið.
Besti bitinn var að skófla upp mjólkursósaðri sykurleðjunni úr botninum þegar hringirnir voru komnir ofan í mallann.
Á fortáningsaldri var daglegt brauð að setjast fyrir framan imbann seinnipart dags með Homeblest pakka og hálfan lítra af Trópí. Heilum til hálfum kexpakka var iðulega slátrað yfir Nágrönnum, Beverlí Hills níunúlltveireitthvað…. eða öðru eðal-sjónvarspefni.
Aðkeyptar samlokur úr skrjáfandi sellófani skipuðu stóran sess í lífi Naglans frá blautu barnsbeini þar sem amman vann í sjoppu og kom færandi hendi í hverju hádegi með uppáhaldsbitann: snjakahvítar sneiðar með Roast beef, steiktan lauk og remúlaði lekandi til beggja hliða. Snúður og kókómjólk í desa. Hollt og staðgott fæði fyrir blóðsykurinn….eða….
Á unglingsárunum vann túttan sjálf í sjoppu á sumrin og þá var mataræðið afar fjölbreytt. Máltíðir dagsins samanstóðu af mismunandi tegundum af Júmbó, skolað niður með súperdós af kók. Millibitar voru tilraunastarfsemi með allskyns útgáfum af ís með kurli, sósu, nammi, hhmmm prófum tómatsósu.
Á veturna í lærða skólanum var það hinsvegar langloka með majónesbaseraðrisinnepssósu, sígó og kók í hádeginu. Og svo beint yfir bækurnar, full af eldmóði…eða sykurmóki….

Þegar teinið var komið í veskið voru keyrðir reglulegir rúntar um borg óttans á kvöldin með vinkonunum, já í þá gömlu góðu daga þegar bensínverð krafðist ekki veðsetningar á frumburðinum. Eftir öll þessi átök að sitja á rassinum í reykmettaðri bifreið þurfti auðvitað að fylla á galtómt kviðarholið með Litlum Snæðingi á BSÍ… hamborgari, franskar, kokteilsósa og kók…..ekki fer maður að sofa á tóman maga!!

Sem starfsmaður kvikmyndahúss hreppti Naglinn ólympískt gull í sælgætisáti, og bronsverðlaun í popp – og nachos slafri. Ekki var óalgengt að slátra einum kúlusúkkpoka án þess að blikka auga í byrjun vaktar, því fylgt eftir með pizzu í kvöldmat, Djæf með möndlum í desa og nachos með ostasósu bara svona fyrir svefninn.

Ekki þarf að fjölyrða um magn áfengis sem rann ljúflega niður kverkarnar á menntaskólaárunum að minnsta kosti tvisvar til þrisvar í viku.
Daginn eftir gjálífið var ómissandi partur af prógrammet að skella sér á Stælarann og troða einum hammara, frönskum, kokteil í smettið. Til að halda mataræðinu fjölbreyttu og forðast leiða voru alternatífurnar sextán tomma með pepp og hakki, píta með alt tilbehör eða eina af bæjarins bestu. Kóla með rauðum miða notað til að skola herlegheitunum niður í magaholið.

Batnandi fólki…..allt er hægt….vilji er allt ….og fleiri dásamlegir frasar koma upp í hugann núna.
Til að búa til nýja og betri vana þarftu að vekja meðvitundina af dvala, bíta á jaxlinn í fyrstu skiptin því þau eru skrýtin og óþægileg og sætta þig við að hrasa reglulega.

Gerðist þessi breyting á matarvenjum yfir nótt? Heldur betur ekki!! tók mörg mörg ár.

En með því að breyta aðeins fáum atriðum í einu tóku betri matarvenjur yfir nachosið og Hómblestið. Lykilatriði var að gramsa, prófa, leita og finna hollustukombó og heilsusamleg gúrmeti sem glöddu tunguna og sinnið.

Hefur Naglinn hrasað í átt að betri lífsstíl? Ótal, milljón sinnum. En alltaf staðið upp aftur, horinu snýtt, tárin þerruð, brækur girtar, og ekkert annað í boði en aftur af stað.

Þegar þú lærðir að hjóla dastu ekki einhvern tíma í götuna?

Hrösun er lærdómsferli, og styrkir okkur með vopnabúri af trixum, tólum, tækni fyrir svipaðar aðstæður í framtíðinni.
Hvert skipti sem þú stendur upp, dustar rykið af brókunum og sest aftur á hnakkinn er sigur og þessir litlu sigrar safnast saman í áttina að lífsstílsbreytingu.

Heimsyfirráð eða dauði er ekki verkfæri til að festa nýjar venjur í sessi.