Gulrótakökumúffur

Naglinn myndi gjarnan vilja vera gulrótabóndi í Danaveldi því þessi appelsínugulu orkuhús eru eitt aðalnestismatur Baunabúans. Þeir skræla og skola og pakka þeim vandlega inn í álpappír. Svo má heyra “krönsj krönsj” úr hverju horni á skrifstofum, bókasöfnum, kennslustofum, strætóum.

Stór ástæða fyrir þessum vinsældum eru líklega að gulrætur eru hræbilligar, c.a hundrað kall íslenskar fyrir 2 kg sekk. Bóndann langaði í gulrætur í einni verslunarferðinni og maulaði nokkrar, en svo sat u.þ.b eitt og hálft kíló óétið í skápnum. Hvað gera bændur þá? Það er guðlast hjá Naglanum að henda mat, svo ræturnar gulu voru auðvitað nýttar í gómsætar og hollar gulrótakökumúffur.

Múffur eru frábærar til að henda í nestistöskuna fyrir vinnudaginn, og grípa í þegar sultarólin fer að herðast í kaffitímanum og halda þannig blóðsykri stöðugum og minnka líkur á epísku ofáti þegar heim er komið.

IMG_4751

Gulrótakökumúffur (low-carb)

12 stykki 

300g eggjahvítur
2 msk kókoshnetuhveiti
3 mæliskeiðar HUSK
2 tsk kanill
1/2 tsk negull
1/2 tsk lyftiduft
1 msk Stevia
klípa salt
2 rifnar gulrætur

1. Stilla ofn á 170°C

2. Hræra öllu nema gulrótunum saman með töfrasprota eða í blandara

3. Hræra gulrótunum saman við deigið með sleif

4. Hella í sílíkonform sem eru vel skorðuð í múffubakka.

5. Baka í 20 mínútur eða þar til hnífur sem er stungið í miðjuna kemur tandurhreinn upp.

IMG_4753

Vanillukrem

1/2 skófla vanillu prótín (Naglinn notar Trutein)
100g 1% grísk jógúrt eða kvark
vanilluduft
valfrjálst: nokkrir dropar sítrónusafi

Hræra saman og smyrja ofan á kaldar múffurnar.

Njóta eins og ljónið.