Hafragrautur er fæða guðanna

Það eru fáar máltíðir sem toppa hafragrautinn og Naglinn gæti auðveldlega sporðrennt því góðgæti í allar sex máltíðir dagsins. Stundum er fyrirátsspennan svo mikil að svefninn raskast allverulega af tilhlökkun.  Þátíðarátskvíðinn gerir síðan óbærilega vart við sig að loknum snæðingi og heilir 24 tímar í næsta graut *grenj*.

Á morgnana er líkaminn eins og svampur eftir föstu næturinnar og vöðvarnir öskra á orku. Því er þetta besti tíminn til að fá sér hæglosandi kolvetni til að fylla á birgðirnar og halda brennslunni gangandi í 2-3 tíma fram að næstu máltíð.

Hafrar eru trefjaríkir, fitulitlir, og innihalda prótín, járn og ekkert kólesteról. Þeir eru meðal annars taldir lækka magn LDL kólesteróls (þetta Leiðinlega) í líkamanum. Þeir frásogast hægt í líkamanum og því ertu saddur vel og lengi með stöðuga orku fram að næstu máltíð.

 

Þeir sem fussa og sveia núna, og segja að hafragrautur sé óæti og horbjóður eru einfaldlega ekki nógu hugmyndaríkir í eldhúsinu.  Berrassaður bragðlaus grár grautur tilheyrir áttunda áratugnum ásamt fagurbláu fótanuddtækinu og Naglinn myndi ekki leggja sér slíkt til munns þó hlaðinn byssukjaftur þrýstist að gagnauganu.

Hafragrautur er nefnilega eins og auður strigi málarans – krydd, kanill, ávextir, sykurlaus sulta, bragðdropar, sykurlaust síróp, hnetur og fleira gúmmulaði eru pensillinn sem heilsumelir beita til að gera grautinn að úrvals gúrmeti.

Fyrir Naglann sem gúllar hafragraut 365 daga ársins er fjölbreytni mikilvægari en gossjálfssali í Sahara og uppáhalds iðjan er að skanna alheimsvefinn í leit að gúmmulaðiskombinasjónum í grautargerð.

 


Hér koma nokkrar hugmyndir að gúrmetisgraut.
Hafið í huga að hitaeiningar aukast verulega við að bæta við fitugjafa (hnetur/hnetusmjör)  

 • Vanilludropar, kanill, múskat, rifið epli
 • Vanilludropar, kókosdropar, kanill, rifin gulrót, hakkaðar valhnetur
 • Súkkulaði prótínduft, kókosdropar
 • Sykurlaust kakó, Berry Stevia dropar, kirsuber
 • Steikt epli, kanill, vanilludropar
 • Bláber eða jarðarber: hita í örra í 15-20 sek,  hræra í mauk og hella yfir. Eða hræra frosnum berjum við graut við eldun.
 • Niðurskorinn banani, heitt hnetusmjör
 • Bökuð ferskja, apríkósu Stevia dropar

 • Vanillu prótínduft, niðurskorin ferskja
 • Súkkulaði prótínduft eða ósætað kakó, piparmintudropar
 • Hnetusmjör og hituð jarðarber í örbylgju
 • Hreint ósykrað eplamauk, kanill, pekanhnetur
 • Rommdropar, steiktur banani (helst eldri en sólin) með sykurlausu sírópi
 • Rifin gulrót, rúsínur, kanill, negull, pekanhnetur
 • Vanilludropar, þurrkuð trönuber, valhnetur
 • Vanillu prótínduft, rifsber, skvetta af sítrónu/lime safa
 • Vanillu prótínduft, klementína í teningum (sett út í eftir eldun, rétt til að hitna)
 • Kanill, múskat, vanilludropar, rommdropar, möndlumjólk
 • Kirsuber, kókosmjöl, vanilluduft

 • Möndludropar, rúsínur, kanill
 • Döðlur, Stevia karamelludropar, ristuð sólblómafræ
 • Hindber, balsamedik, vanilludropar eða Berry Stevia dropar
 • Bakaður rabbarbari, jarðarber, vanilludropar, vanilluduft
 • Kanilbökuð epli, sykurlaust karamellu síróp
 • Appelsínudropar, rifinn appelsínubörkur
 • Hvítt súkkulaði prótínduft, bananar, rúsínur, sykurlaust karamellu síróp

Verði ykkur að góðu !!