Bezta hrásalat á norðurhjaranum

 

Hef aldrei verið hrifin af hrásalati.   Þessu klassíska í plastbökkunum með mæjónesböðuðu hvítkáli og gulrótum og fundist það best geymt í ruslatunnunni. En nýlega smakkaði ég (með semingi þó) þetta guðdómlega hrásalat (coleslaw) á uppáhalds kjúllabúllunni minni, sem er Chicken Shop í Crouch End í London, og það trylltust öll skilningarvitin og nýjar víddir opnuðust í hrásalatsbransanum.

Miklar pælingar og vangaveltur fóru í gang með öll skynfæri virkjuð við smakkelsið, puttar sleiktir, tungan brúkuð og nefið rekið ofan í dolluna til að finna út hvað leyndist í blöndunni svo hægt væri að endurtaka leikinn í eldhúsinu heima.

Nokkuð örugg um samsetningu var uppskriftin Naglavædd hið snarasta með horuðu mæjó og sætuefni. Og húsbandið getur vottað að þessi varíasjón gefur orkuríkari frænda sínum á kjúllabúllunni ekkert eftir hvað varðar gómsæti, bragðgæði og lekkerheit.

Þetta hrásalat er unaður á kantinum í öllu grilleríinu og átgleðinni sem á sér stað 365 daga ársins í Casa de Nagli.

 

Uppskrift
1 rauðlaukur fínt skorinn
2 dl fínt skorið rauðkál
2 msk sýrður rjómi (5%)
2 msk Lighter than light mæjónes eða light mæjónes (Nettó)
börkur af 1/2 sítrónu
1 msk NOW erythritol eða xylitol

 

Hræra öllu gumsinu saman með skeið. Kæla í nokkrar klukkustundir eða bara fram samstundis. Þó betra ískalt.

Þetta er gúrmetis guðdómur með kjúklingi og öllu grillmeti…. nú eða bara beint með skeið í hvert skipti þegar ísskápurinn er opnaður… nei djók… eða ekki.

  • Færslan er unnin í samstarfi við Icepharma og Nettó