Ekki hata

Kona í búningsklefanum speglar sig eftir æfingu

“Feita belja” segir konan við hliðina sem er að setja á sig maskara.

“Þú ert ógeð í þessum kjól.“

 

Út af klósettingu labbar grannvaxin stúlka

Eldri kona að fylla á vatnsflöskuna segir “Horaða gerpi. Þú ert bara 30 kíló með skólatösku. Örugglega með átröskun. Í öllum bænum drekktu rjóma.”

 

Í lyftingasalnum er vaxtarræktakona að lyfta lóðum.
Maður við hlið hennar gólar: “Afstyrmi! Hvort ertu kall eða kona?? Konur eiga ekki að vera með svona mikla vöðva. Búin að sprauta þig fulla af sterum og ógeði.”

 

Á hlaupabrettinu er stúlka í magabol.

Tvær stúlkur koma aðvífandi “Hey þú mella. Ertu að biðja um að láta nauðga þér í þessum hóruklæðnaði? Almannagjá!!

 

Stúlka dökk á hörund er á teygjusvæðinu.

Konan fyrir aftan hana segir: “ Halanegri. Drullastu heim til Kongó litli svarti Sambó og hættu að mergsjúga kerfið á Íslandi.”

 

Í hvaða rækt æfir Naglinn eiginlega???

Svona talar fólk ekki hvert við annað. Ekki í kjötheimum.

Ekki andliti til andlitis allavega.  Bara í ummælakerfum á netinu.

Þegar fingurnir fá að stýra ferðinni. Þegar tölvuskjár aðskilur líkama okkar.

Ef athugasemdir sem við hömrum á lyklaborðið væru settar í munn okkar myndi tungan eflaust gera uppreisn og neita að mynda ljót orð og særandi setningar

 

Netníð gegn konum og stelpum er vaxandi samfélagsvandamál og hefur áhrif á fleiri konur en við gerum okkur grein fyrir.

Er það furða að ungar stúlkur sem nota samfélagsmiðla séu með aukinn kvíða?

Því orð meiða mest.

 

Þessu þarf að breyta hið snarasta með ábyrgara orðavali á netinu. Átakið #ekkihata á vegum UNwomen hvetur fólk til þess að skrá sig á heforshe.is og berjast gegn netníð og beita hvorki hatursfullri orðræðu né hóta ofbeldi á netinu.

 

Við fullorðna fólkið þurfum að ganga fyrir með góðu fordæmi

 

Tökum tíu sekúndna pásu. Stöndum upp og íhugum hvort við myndum láta ummælin myndu falla ‘maður á mann’ áður en við pikkum á lyklaborðið.

 

 

Leave a comment

Filed under Bölsót, Hugarfar, Naglinn, Sálfræði

Úr sjónlínu – úr sálinni.

Siggi kollegi kom frá útlöndum með fullan poka af Dumle karamellum sem mæna á þig í hvert skipti sem þú nærð þér í kaffibolla

Lóa í bókhaldinu átti afmæli í gær og nú dangla óétnar sneiðar af súkkulaðiköku við hliðina á skyrdollunni sem full af skynsemi bíður þín í ísskápnum.

Nonni forstjóri kom með kippu og Dórítós fyrir föstudagsbjór og heiðgular flögurnar hjúpaðar gerviosti garga á þig í hvert skipti sem þú vogar þér að ljósrita bréfsnepil.

Og þú að rembast eins og rolla á staur að stramma upp strenginn fyrir árshátíðina.

Átt þú erfitt með að standast freistingar sem leka af hverju strái í vinnunni?

Leitar höndin ósjálfrátt í skálarnar og leggja stein í götu árangursins?

Skemmtileg rannsókn á skrifstofu sýndi að þegar sælgætisskál var sett við hliðina á tölvunni hjá riturum þá rötuðu níu molar upp í túlann.

Þegar skálin var hinsvegar sett ofan í skúffu fækkaði molunum í sex kvekendi yfir daginn.

En þegar skálin var færð tvo metra í burtu voru ekki nema þrír ræflar tuggðir.

Þegar ritararnir voru spurðir eftirá, hvers vegna þær kjömsuðu mun minna af gúmmulaðinu. Var svona mikið maus að standa upp og labba þrjú skref?

Nei… allar svöruðu að þegar molarnir voru ekki lengur gargandi á sjónhimnunni þá gleymdu þær þeim bara.

Því mannskepnan virkar þannig að viljastyrkur er þverrandi auðlind.
Ef þú segir “NEI!” við púkann mörgum sinnum á dag þá mun koma að setningunni:

“æi bara einu sinni”….

og henni fylgir oftar en ekki:

“æi ég er hvort sem er byrjaður” ..

Nýttu þér þessar niðurstöður ef þú vilt minnka sælgætisát og stýrðu umhverfinu þínu þannig að slikkeríið sé ekki lengur í sjónlínu eða í seilingarfjarlægð.

Sex molum færra á dag þýðir 30 molum færra yfir vinnuvikuna sem þýðir 120 molum færra yfir mánuðinn.

Þú ert samt að njóta með núvitund en ekki neita þér um neitt.

Í augnhæð, í hausnum
Úr augnhæð, úr hausnum.

Leave a comment

Filed under Fitutap, Hugarfar, Mataræði, Naglinn, Sálfræði, Uppbygging

Nærumst í núvitund

Það er september. Grillveislur sumarsins veltast enn um í meltingakerfinu.

Bjórþambið liggur á bumbunni.

Mánuður af mánudögum er framundan.

Mataræðið jafn spennandi og Eldhúsdagsumræður

Skammtastærðir í nanóeiningum

Bragðið jafn gómsætt og súrefni

 

HVAÐ við borðum mun nú taka stakkaskiptum.

Sykurlaus september. Enginn bjór fram að jólum. Ekkert gos. Út með brauð.

Þegar einhver annar stýrir skútunni um hvað fer upp í túlann á okkur upplifum við frelsisskerðingu.

Uppreisnarseggurinn byrjar að leika lausum hala.

 

Skítt með’ða… ég hætti bara á þessum kúr og fæ mér brauð… með smjöri.. og jólaköku í desert.

 

img_6572

Það skiptir þess vegna meira máli að breyta HVERNIG við borðum.

Að borða hægar.

Að virkja öll skynfærin þegar við borðum.

Að velta fyrir sér bragðinu. Áferðinni. Lyktinni.

 

 

Góð ráð til að nærast með núvitund.

Skiptu yfir í minni hnífapör. Jafnvel barnahnífapör. Þá tekur lengri tíma að raða matnum á gaffalinn.

Skiptu í minni diska. Það blekkir augað að við séum að fá meira.

Fylltu diskinn af grænmeti og salati. Það fyllir magann án þess að dúndra inn of mörgum hitaeiningum.

Ekki nota gaffal eins og skóflu til að moka upp í þig.

Notaðu gaffal eins og spjót til að stinga í matinn og raða fallega uppá hann.

Leggðu frá þér hnífapörin um leið og þú hefur stungið bitanum upp í þig.

Tyggðu allavega 15 sinnum. Prófaðu að tyggja aðeins hægar en þú ert vanur.

Virkjaðu öll skynfærin. Veltu fyrir þér bragðinu. Lyktinni. Áferðinni.

Taktu upp hnífapörin þegar þú hefur kyngt og munnurinn er tómur.

Ef þú ert með brauðsneið eða epli eða annan mat sem þú borðar með höndunum: leggðu hann frá þér milli bita og ekki taka upp aftur fyrr en þú hefur kyngt.

 

Þegar við hægjum á okkur við að borða og nærumst með núvitund getum við borðað það sem við elskum og elskað það sem við borðum.

Þegar við borðum til að næra bæði líkama og sál byrjum við ósjálfrátt að taka betri ákvarðanir í matarvali.

Það eru engin boð og bönn.

Engar reglur og refsingar. Pláss fyrir bæði kjúkling og súkkulaði. Grænmeti og lakkrís. Rauðvín og skyr.

 

Ragga Nagli verður með námskeið í að Nærast með núvitund í Gló, Fákafeni, þriðjudaginn 13. september.
Skráning og upplýsingar á www.glo.is

a39a6055

Leave a comment

Filed under Bölsót, Hugarfar, Mataræði, Matreiðslunámskeið, Sálfræði

Aspashummus

Aspashummus

 

Naglinn hangir utan í veganismanum eins og barn sem vill vera með í snú-snú leik en þorir ekki að taka skrefið.

Sleikir sig á rúðuna og mænir löngunaraugum á girnilega baunarétti.
Slefar yfir sætkartöflusúpum.
Hugsar klámfengið um hummus.
Með sleftaum út á kinn yfir Oumph kássu

En þú getur alveg verið hvoru tveggja. Kjetæta og veganperri.
Skepnuslafrari og grænmetisbóndi

Vegan festival laugardaginn 13. ágúst er frábær vettvangur til að eyða fordómum, skora á eigin ranghugmyndir og hætta að hanga fyrir utan eins og unglingur á Hallærisplani.

Það er pláss fyrir alla í allskonar

Af því tilefni hristir Naglinn fram úr erminni nýtt tvist á hummus… nefnilega aspashummus.
Prófaðu að segja aspashummus tíu sinnum hratt í röð.
Þá er ekki gott að vera smámæltur eins og Naglinn.

Innihald:
1 búnt aspas
1 dós kjúklingabaunir
1 tsk Monki tahini (sesamsmjör)
safi og börkur af einni sítrónu
1 msk Himnesk Hollusta sítrónuólífuolía
1 hvítlauksrif
salt og pipar

Aðferð:
Baka aspas í 200°C heitum ofni
Blanda síðan öllu draslinu saman í matvinnsluvél eða blandara eða bara með töfrasprota.

Gumsa í skál og bera fram með ristuðu rúgbrauði.

Bon appetit!

Leave a comment

Filed under bakstur, Fitutap, grænmetisréttir, grænmetisréttir, kvöldsnæðingar, Low-carb, Mataræði, Matreiðslunámskeið, morgunverður, Naglinn, prótín, Sjoppur, sykurlaust, Uppbygging, Uppskriftir

Sætkartöflubrauð

Sætkartöflubrauð

 

 

Brauðin slá alltaf í gegn á matreiðslunámskeiðum Naglans, Now og Nettó.

Brauðin er hægt að gera glúteinlaus og sykurlaus og grunnuppskriftin er eins og auður strigi málarans. Það er hægt að gera sæt brauð og nota dásemdir náttúrunnar eins og döðlur, banana, kanil, engifer, rúsínur, negul, eplamús.

Síðan er hægt að gera matarbrauð og nota kryddjurtir/ krydd frá Himneskri Hollustu. Hvítlauksduft, rósmarín, pizzakrydd, oregano. Og bæta við grænmeti eins og hvítlauk, sæta kartöflu, rifið zucchini, rifna gulrót.

 

Þetta brauð fellur undir kategoríuna matarbrauð og er elduð sæt kartafla notuð í gleðina, en hún gefur dásamlegt mjúkelsi í bakkelsið svo sneiðarnar renna eins og bráðið smjör undir tönn. Kartöfluna er hægt að elda á ýmsa vegu.  Í álpappír í ofni í 90 mínútur á 200°, EÐA sjóða í potti í 30-40 mínútur EÐA pikka með gaffli og í 10-15 mínútur örbylgjuofni

 

 

 

Sweet-potato-bread-3

 

Uppskrift

1 skófla NOW pea protein

3 msk kókoshnetuhveiti

2.5 dl eggjahvítur

2 dl Himnesk hollusta haframjöl (eða glúteinfrítt ef þú vilt hafa brauðið glúteinlaust)

c.a 50g elduð sæt kartafla (án hýðis)

1 tsk lyftiduft

salt

pea-protein

sweet-potato

Aðferð:

Hella öllu saman í djúpa skál. Blanda saman með töfrasprota sleif.

Hella deiginu í silikonbrauðform

Baka á 170 ° í 30 mín eða þar til hnífur kemur út hreinn.

 

Leave a comment

Filed under bakstur, Fitutap, grænmetisréttir, Mataræði, Matreiðslunámskeið, morgunverður, Naglinn, prótín, sykurlaust, Uppbygging, Uppskriftir

Vertu smitberi

Hversu oft fitja börnin upp á nefið þegar brokkolí kemur í radíus við eldhúsborðið.

Unglingurinn sökkvir sér ofan í æfóninn þegar honum er boðið spínatsalat.

Makinn hnussar “Er þetta eitthvað hollustukjaftæði?” þegar þú býður upp á nýjan heilsurétt.

Systirin hneykslast á öllu þessu hlaupaveseni í þér. “Er þetta ekki slæmt fyrir hnén.”

Vinirnir hlægja í föstudagsbjór. “Nei hann er ekkert að drekka í kvöld. Orðinn svo heilagur í þessu heilsuveseni.”

Að breyta lífsstíl sínum getur oft verið eins og að synda á móti straumnum í Öxará.

Þú upplifir einmanaleika.
Skilningsleysi og skort á stuðningi.
Vonleysi og frústrasjón.

Auglýsingar, athugasemdir, yfirlýsingar og neikvæðni eru eins og árstraumurinn sem reyna að hrífa þig með sér til baka.

Því samfélagið vill að þú sért niðri í sollinum með sér innan um sveittar franskar, djamm og sjónvarpsgláp.

Þá er alltof auðvelt að henda inn handklæðinu, hætta þessu heilsuveseni og láta hrífast aftur niður ána með straumnum.

Rannsóknir sýna að við breytum venjum okkar til að þær passi við félagslega netið okkar.

Í hvora áttina sem er.

En haltu fast í trjágreinina og haltu áfram að berjast upp í móti.

Vertu fyrirmynd og sýndu hinum að heilbrigt líferni geri þig að betri manneskju og þar með betra foreldri, systkini og vini.
Því þegar okkur líður betur með okkur sjálf þá sýnum við meiri kærleika og hlýju.

Því venjur eru smitandi.
Hvort sem þær eru góðar eða slæmar.

Vertu smitberi.

Leave a comment

Filed under Bölsót, Fitutap, Hugarfar, Mataræði, Naglinn, Sálfræði, Uppbygging

Neanderthalsmaðurinn í spinning

Mannskepnan er gerð til að hreyfa sig.

En nútímasamfélag hefur gert okkur alltof auðvelt að forðast hreyfingu.

Við sitjum í bílum, sitjum svo við skrifborð þangað til við förum heim og setjumst fyrir framan imbann.

Að sitja eru nýju reykingarnar segja gúrúarnir.

En þegar hnén braka og bresta við að standa uppúr sófanum eftir fréttir og Útsvar. Þegar bakið grenjar eftir þriðja þáttinn í röð af O.J Simpson. Þá veit maður að gúrúarnir hafa eitthvað til síns máls.

 

En nútímasamfélag er líka búið að flækja hreyfinguna fyrir okkur.

Hjólreiðar, hlaup, Crossfit, þríþraut, spinning, Zumba, ketilbjöllur, maraþon.

 

Instagram og Snapchat sýna okkur æfingar á mælikvarða herþjálfunar.

Facebook og vefsíður sem vilja að þú tætir upp malbik eða rífir í járn.

 

Hvað í dauðanum á maður að gera til að skekja skankana og verða hraustari?

 

Hreyfing er ekki bara að fara í ræktina.

Æfingar eru í raun bara fabrikkuð leið til að láta skrokkinn gera sem hann hefur elskað og vitað í gegnum mannkynssöguna.

 

Forfeður okkar þurftu ekki spinning tíma kl 12:10

Þeir þurftu ekki CrossFit æfingu í kjallara

Þeir gerðu hnébeygjur án þess að eiga power skó og magnesium.

 

Þeir köstuðu, gripu, drógu, sveifluðu, beygðu, klifruðu, löbbuðu, mokuðu.

 

Þeir þurftu ekki Reykjavíkurmaraþon til að hlaupa milli staða eða Zumbatíma til að fagna með dansi.

 

En fæstir veiða sér til matar og nota lyftuna oftar en góðu hófi gegnir. Og taka selfies í lyftuspeglinum.

 

Að hreyfa sig ekki er er því risastórt tap. Sorrý Blackberry. Hreyfing snýst ekki bara um æfingu. Hreyfing eru samskipti líkamans við umhverfið. Hvernig við sitjum, stöndum og hlaupum til líkamstjáningar, líkamsstöðu og jafnvægi.

 

 

Það er ekki til nein rétt eða röng hreysti.

 

Það er hægt að gera allt frá bogfimi til spinning.

Snörun eða snú-snú

Keila eða ketilbjöllur.

 

Það er bara til þín eigin hreysti.

 

Finndu hvað kitlar pinnann þinn.

Finndu hvernig þín líkamsbygging fúnkerar best.

Finndu gleðina að geta gera nýjar hreyfingar.

Sjálfstraustið eflast við árangur

Hvernig daglegu hlutirnir verða auðveldari. Að bera innkaupapoka, að labba stiga og opna sultukrukkur.

 

Tilfinningin þegar þú ferð frá þungum og stífum yfir í sveigjanlegan og tignarlegan skrokk er

Þegar þú yfirstígur eigin hömlur og getur brúkað skrokkinn eins og þú vilt og þegar þú vilt.

Sú tilfinning verður ekki metin til fjár.

Sorrý Eurocard.

 

 

Leave a comment

Filed under Æfingar, Þolæfingar, Fjarþjálfun, Naglinn, Styrktarþjálfun