Katrín og co.

Hvað dettur þér í hug þegar þú heyrir nafnið Katrín Jakobsdóttir?

Gáfuð. Málefnaleg.

 

En nafnið Vigdís Finnbogadóttir?

Virðuleg. Heiðarleg. Hugsunarsöm

 

Malala

Undrabarn. Ákveðin. Hugrökk

 

Michelle Obama

Gjafmild. Sterk.

 

Ingibjörg Sólrún

Fylgin sér. Staðföst.

 

Halla Tómasdóttir

Kjarnakona. Hlý.

 

Dettur þér ekki í hug c.a 58 kíló, 75 kíló, 20% fita, buxnastærð medium, brjóstahaldarastærð 34 A, mittisstærð  70 cm, læraummál 100 cm, slitför á maga, 350 kaloríu salat.

 

Nei?

 

Af hverju ekki?

 

Af því við skilgreinum ekki fólk útfrá númerískum viðmiðum.

Aðrir skilgreina okkur ekki heldur útfrá tölu á vigt eða númeri á brók.

Eða hvað við borðuðum í hádeginu

 

Það gerum við bara við okkur sjálf. Gegndarlaus samanburður við tölur og númer, staðla og norm. stútfull upp í kok af frústrasjón og vonleysi yfir að ná ekki númerískum viðmiðum sem miðlarnir troða í smettið á hverjum degi.  Hvað stendur innan í brók eða haldara ákvarðar virði okkar sem manneskja Tilviljanakenndar tölur sem hinar ýmsu græjur gubba útúr sér. Kaloríuteljari, fitumælir, vigt, skrefamælir og málband.

 

Hæfileikar felast ekki í lögun líkamans
Virðing er ekki mæld í númeri á brók
Dugnaður er ekki metinn í umfangi þjóhnappa
Metnaður er ekki tala á vigt
Afrek koma svæðinu í kringum naflann ekkert við

 

Fólkið í kringum þig metur þig útfrá gildum þínum. Framkomu. Karakter. Hæfileikum. Dugnaði. Metnaði. Verkum þínum.

Þú ert ekki númer.  Þú ert ekki umbúðirnar. Þú ert það sem þú gerir og það sem þú segir.

 

Leave a comment

Filed under Hugarfar, Naglinn, Sálfræði

Marbella kjúlli – Naglavæddur

chicken-marbella_10649

 

 

Klórarðu þér í skallanum hvað þú eigir að elda í kvöldmat? Eitthvað sem gleður ginið á sama tíma og nærir skrokk.

Hér er ein gómsæt og girnileg kjúllauppskrift með döðlum, ólífum og kapers sem tekur enga stund.

Galdurinn er að marinera bíbífuglinn yfir nótt til að hann drekki í sig allt djúsí stöffið.
Þá þarf ekkert að gera daginn eftir nema að skúbba öllu í eldfast mót og henda í ofninn. Málið er dautt.

Uppskrift
fyrir 4-5 manns

1kg læri og leggir af kjúlla
35 ml rauðvínsedik
35 ml ólífuolía
3 hvítlauksgeirar
1 tsk oregano
2 tsk sjávarsalt
8 stk steinlausar döðlur
2 msk kapers + safinn
8 grænar ólífur skornar í helming

Aðferð.
Dúndraðu ediki, olíu, hvítlauk, oregano og salti í blandara og maukaðu í drasl
Helltu í nestisbox eða poka með smellulás.
Bættu döðlum, kapers og ólífum við gumsið.
Síðan lærum og leggjum
Leyfðu öllu gumsinu að knúsast í 24 tíma svo kjötið drekki í sig allt þetta yndislega.
Þá er ekkert eftir þegar en að hella í ofnfast fat og baka í 45-60 mínútur þar til skinnið er gullbrúnt og stökkt.

Guðdómur með brúnum grjónum sem drekka í sig marineringuna.

Og salati.. alltaf nóóóg af salati fyrir matargatið.

Leave a comment

Filed under kjöt og fiskur, kvöldsnæðingar, Uppskriftir

Fimm tapas… og auka salat

Naglinn var stödd á Tapas veitingahúsi í Árósum um liðna helgi.

Þjónninn kemur og tekur pöntun

Naglinn: Já ég ætla að fá fimm tapas rétti. Og auka grænmeti. Já og auka salat

Er það þá komið fyrir ykkur?

“Nei hann ætlar að panta fyrir sig” segir Naglinn og bendir á bóndann.

Bíddu, var allur þessi matur bara fyrir þig?

Uuuu…já

Þjónninn lyftir brúnum. Brosir í kampinn og segir: “Stattu upp. Leyfðu mér að sjá hvað þú ert stór?

Naglinn varð hvumsa. Hló taugaveiklunarhlátri.

En eftirá fóru heilabrotin af stað.

Þetta er ekki í fyrsta, ekki annað og ekki fimmta skipti sem þjónar verða sjálfskipaðar matarlöggur og telja hversu margar örður renna ofan í gestina.

 

img_0996

En það sem stuðaði í þessu tilfelli er hvaða rullu lögun líkamans spilaði í hversu mikill matur kæmi á borðið?

Að það getur ekki verið að þessi stærð af skrokki geti innbyrt megnið af kaloríum Mið-Jótlands.

Eða að það þurfi að passa línurnar og ekki borða svona mikið magn.

Sjálfskipuð megrunarlögga líka.

Er skammturinn sem kona á að borða metinn út frá stærð skrokksins.

Líkami kvenna er alltof oft almenningseign opinn fyrir athugasemdum, leiðbeiningum og stefnuyfirlýsingum.

Ef Naglinn væri karlkyns hefði örugglega ekki verið beðið um að dilla rassinum til að samþykkja slíka pöntun. Þá hefði það verið karlmennskutákn að panta sem mest af mat.

“hann er svo duglegur að borða”

Óskrifaðar reglur gilda um hvað sé félagslega samþykkt magn fyrir ákveðna þjóðfélagshópa.

Kona af þessari stærðargráðu ætti að panta nokkur kálblöð á diski og einn penan tapas.

 

Ef Naglinn hefði verið í miklum holdum hefði slík athugasemd verið merki um líkamssmánun.

Ef grönn kona borðar meira en vörubílstjóri í Miðríkjunum þá fjúka athugasemdirnar eins og lauf að hausti.

Í heimi þar sem skilaboð dynja á konum daglega um hvernig líkami eigi að líta út og “ekki-nógan” fær að grassera getur það aukið enn frekar á sjálfseyðingarbálið þegar holdarfar er orðinn aðalleikarinn í því hvort matarpöntun skili sér á borðið.

Borða ég of mikið. Er ég gráðugt svín. Er ég óeðlileg? Er ég afstyrmi í heimi þar sem konur borða bara salat?

Slíkar efasemdarraddir geta stuðlað að óheilbrigðu sambandi við mat og sjálfsmynd og í sumum tilfellum triggerað átraskanir.

Að vera dæmdur og undir eftirliti á meðan þú borðar getur valdið kvíða og hugarangri.

 

Stundum er kona bara hungruð. Stundum er kona bara með góða matarlyst. Stundum finnst konu gott að borða mikið.

 

Sjokkerandi staðreyndir… ég veit.

Góð matarlyst er víst ekki kvenlægt gildi.

Á tímum forfeðra okkar þegar kjöt var af skornum skammti þá kýldu karlmenn tennurnar úr konum svo þeir þyrftu ekki að deila skepnunni með kellingunni.

Kannski var frumstæður kvíði að gera vart við sig hjá félaganum. Að Naglinn myndi éta lagerinn útá gaddinn og þyrfti að loka sjoppunni.

Eða kannski var félaginn hræddur við matarsóun. Að helmingurinn yrði eftir ósnertur.

En þar veðjaði hann á rangan hest.

Því það þurfti ekki að þvo diskana. Hvert einasta atóm var sópað upp í túlann.

 

 

Leave a comment

Filed under Uncategorized

Arkitekt að eigin árangri

Þessi grein eftir Röggu Nagla birtist í Heilsublaði Morgunblaðsins 2. janúar 2017.

 

 

Vertu arkitekt að eigin árangri

 

Nýársheit. Enn eitt árið. Nú skal það takast. Fyrri ár hefurðu strengt ýmis konar fögur fyrirheit um bjartari framtíð og ræktaðri skrokk.

Sjálfsagi og súrkál. Lyftingar og lýsi.

 

Þú hefur verið með einkaþjálfara, farið á jóganámskeið og Pílates. Þú hefur rifið í galvaníserað járn í krossfit, og barið í boxpúða í Mjölni.

Keypt dýrasta og léttasta hjólfákinn á markaðnum. Dressaður frá toppi til táar í neongulu spandex og pedalaskóm.

Síðasta ár dánlódaðirðu appi sem skipar hve oft í viku skal hlaupa. Hversu langt og hversu hratt. Nýársheitið var jú að spranga Reykjavíkurmaraþon innan um alla og ömmu þeirra í Lækjargötunni í ágúst.

 

 

Mataræðið hefur sömuleiðs verið tekið í allsherjar klössun í gegnum tíðina. Sleppt hveiti, sykri, smjöri. Þú hefur forðast kolvetni eins og pláguna, en slafrað bernes, beikon og rjóma. Hvítt brauð og léttmjólk sem hélt lífinu í velmegunarbörnum níunda áratugarins hafa vikið fyrir möndlumjólk og súrdeigi.

Þú hefur borðað á tveggja tíma fresti, á sautján tíma fresti, einu sinni á dag, eða bara annan hvern dag.

Svo kemur febrúar og þú sættir stríðandi fylkingar í hausnum með þeim rökum að þetta hafi verið óraunhæft plan. Allt of tímafrekt. Of mikið vesen. Of mikil fyrirhöfn.

 

Hlaupaappið varð atvinnulaust eftir Valentínusardag.

Hjólfákurinn sinnir nú hlutverki fatastands í bílskúrnum.

Möndlumjólkin orðin kekkjuð og kexpakkinn hefur leyst súrdeigið af hólmi.

 

Sjálfsagi er þverrandi auðlind

 

Þú segir við sjálfan þig “Ég er bara ekki með nægan sjálfsaga og viljastyrk. Mig vantar einfaldlega bara módjóið.”

 

En kjarni málsins er að að mislukkaðar tilraunir fyrri ára til að verða ræktaður, fitt og flottur er ekki endilega skrifaðar á skort á viljastyrk. Stærsta ástæðan er að við breytum ekki umhverfi okkar svo það styðji við góðar venjur.

 

Því við áttum okkur ekki á mætti umhverfisins í að móta og stýra hegðun okkar.

En þetta vita rannsakendur sem skoðuðu vatnsdrykkju eftir breytta uppsetningu í mötuneyti. Þeir bættu vatnsflöskum í augnhæð í þrjá goskæla, og settu körfur af vatni við afgreiðslukassana. Sala á vatni jókst um 25% á þremur mánuðum. Ekkert var sagt við fólkið. Umhverfinu einfaldlega breytt, og hegðunin fylgdi í kjölfarið.

 

Gamla tuggan er að þú þurfir bara meiri viljastyrk, mótivasjón og sjálfsaga til að halda þig við nýjar venjur. En rannsókn eins og þessi sýnir hversu mikið hegðun stjórnast af umhverfinu.

Við höldum að við stjórnum hegðun okkar, en raunin er að við bregðumst bara við aðstæðum. Við borðum konfektið úr skál fyrir framan okkur, kaupum popp í bíó, og byrjum að dilla okkur þegar við heyrum uppáhalds lagið í útvarpinu.

 

 

 

Hannaðu umhverfið þitt fyrir árangur.

 

Getur verið að umhverfið þitt geri slæmar venjur auðveldar. Getur verið að umhverfið þitt geri nýjar góðar venjur tímafrekar, of mikla fyrirhöfn og vesen? Ef þú snýrð þessu við, er líklegra að nýársheitið mygli ekki þetta árið ásamt strigaskónum í Under Armour töskunni.

 

 

Byrjaðu á að fækka skrefunum í átt að góðum venjum.  Því þegar við erum stressuð, pirruð og þreytt er viljinn til að fara í gegnum mörg skref til að útbúa hollan snæðing, eða troða æfingu inn í prógrammið langt niðri í tojlettinu. Þú gerir það sem er auðveldast.

 

Hannaðu því umhverfið þitt þannig að heilsuhegðun verði þér aðgengileg og fljótleg.

 

Byrjaðu bara smátt og byrjaðu heima hjá þér.

 

 

Gerðu auðveldara fyrir þig að mæta á æfingar:

 • Settu æfingafötin fram kvöldið áður. Það fækkar ákvörðunum, skrefum og veitir sjónræna áminningu um hvaða hegðun þú ætlaðir að framkvæma.
 • Pakkaðu sömuleiðis í æfingatöskuna kvöldið áður svo hún sé klár til að kippa með í morgunsárið. Settu töskuna jafnvel í bílinn.
 • Vertu undirbúinn fyrir óvæntar hindranir eins og að redda pössun, redda bíl, finna annan tíma dags til að æfa.
 • Vertu ábyrgur gagnvart öðrum en sjálfum þér með að mæta. Fáðu þér æfingafélaga eða einkaþjálfara. Skráðu þig í hópþjálfun, fjarþjálfun, eða á námskeið.

 

 • Búðu til sjónræna áminningu um að mæta á æfingu. Slíkt kostar ekki nema 100 kall. Þú kaupir einfaldlega bréfaklemmur og tvö tóm glös. Byrjaðu vikuna á að setja eina bréfaklemmu fyrir hverja æfingu vikunnar í tómt glas. Síðan færirðu bréfaklemmu yfir í annað tómt glas.
  Það er hvetjandi og styrkjandi fyrir sjálfstraustið að sjá þær færast úr einu glasi í annað.

 

 • Skráðu þig í hreyfingu þegar þú ert mótiveraður. Til dæmis ef þú ert í stuði í dag, skráðu þig í jógatíma í næstu viku. Rannsóknir sýna að hlutfall líffæragjafa er margfalt hærra í löndum þar sem þú ert þarf að skrá sig úr líffæragjöf, en í þeim löndum þar sem þarf að skrá sig inn.. Þá þarftu að réttlæta fyrir þér að afskrá og mæta ekki, frekar en að réttlæta fyrir þér að mæta. Það er meira vesen að skrá sig úr einhverju, en að skrá sig í það.

 

 

 

 

Gerðu auðveldara fyrir þig að borða hollt.

 

Skipuleggðu eldhúsið til að stuðla að hollari matarvenjum án þess að þú áttir þig á því.

 

 • Hafðu hollustu í augnhæð í skápunum. Niðurskorið grænmeti í miðju hillunni í ísskápnum. Hrökkbrauð, maískökur, í eldhússkápnum. Pakkaðu óhollum afgöngum í álpappír sem ekki sést í gegnum, og hollum afgöngum í glært nestisbox þannig að þú sjáir. Þannig ertu líklegri til að grípa í hollustu jafnvel þó mótivasjónin sé í núlli.

 

 • Ef það er úr sjónlínu, er það úr sálinni. Það er erfitt að borða hollt þegar óhollustan gargar á þig af eldhúsborðinu. Settu slikkmeti og sukki aftar í skápana, eða í neðstu hillu í ísskápnum. Best er að geyma alla óhollustu í einum skáp. Þá ertu meðvitaður þegar þú opnar þann skáp að það er í þeim tilgangi að gúffa í þig.

 

 • Taktu til á eldhúsborðinu. Rannsóknir sýna að fólk er líklegra til að elda hollt þegar vinnuaðstaðan er hrein og laus við óþarfa drasl . Þegar allt er í rúst nennirðu ekki að elda og sveitt ‘teikavei’ verður sexý valkostur.
 • Eina sem er á eldhúsborðinu er skál með ávöxtum. Þá er auðveldara að grípa í hollt
 • Minnkaðu diska og hnífapör. Notaðu diska sem eru 23 cm í þvermál. Þannig blekkirðu augað að þú sért að fá meiri mat. Lítil hnífapör hægja á þér í máltíðinni því þú getur ekki staflað eins miklu á gaffalinn. Svo þú nærist í meiri núvitund og gengur sáttari og saddari frá borði.
 • Undirbúðu hollar máltíðir fyrirfram fyrir nokkra daga og geymdu í kæli eða frysti. Eldaðu til dæmis mikið magn á sunnudögum og aftur miðvikudögum. Þannig fækkarðu skrefunum að hollri máltíð þegar þú ert í hungur örvæntingu eftir langan vinnudag því það þarf ekki að byrja frá grunni

 

 

Umhverfið mótar venjur okkar og hegðun. Þú getur hinsvegar endurhannað umhverfið þitt til að stuðla að árangri.

Ekki rembast eins og rolla á girðingu í að breyta hegðun enn eitt árið, frústreraður af skorti á sjálfsstjórn. Láttu umhverfið vinna fyrir þig, frekar en að mótivera þig daglega. Vertu arkitekt að eigin umhverfi og leyfðu heilsuhegðun að fljóta sem eðlilegt viðbragð við því.

 

__________________________________________________________________

 

Ragnhildur Þórðardóttir ‘Ragga Nagli’ er klínískur heilsusálfræðingur með eigin sálfræðistofu í Kaupmannahöfn, en býður einnig upp á fjarsálfræðimeðferð í gegnum Skype.

Ragnhildur heldur reglulega fyrirlestra og námskeið “Nærumst og njótum í núvitund” sem kennir okkur að njóta máltíða betur, og dýpkar skilning á hegðun og ákvörðunum okkar í tengslum við mat.

 

Ragnhildur heldur sömuleiðis matreiðslunámskeið “Frá morgni til kvölds” þar sem þátttakendur fá innblástur, og kennslu að útbúa gómsætar og spennandi máltíðir fyrir heilan dag af hollustu.

 

www.ragganagli.com

www.facebook.com/RaggaNagli

ragganagli79@gmail.com

 

Leave a comment

Filed under Uncategorized

Gordjöss chili con carne með sítrónuhummus

20161230_115328

 

Þetta chili con carne yljar þér um hjartaræturnar í vetrarhörkum og lægðabyljum. Það er líka leynigestur í gumsinu, ekki Herbert Guðmundsson, heldur kakó. Það gefur unaðslegt sætubragð og hleður í klámfengna matarupplifun sem lifir langt framyfir tíufréttir.

 

Chili con carne
500g nautahakk (5-10%)
1 kraminn hvítlaukur
1 laukur
1 paprika
1 lítil dós tómatpúrra
2-3 msk vatn
1 tsk ósætað kakó (t.d NOW)
Krydd: season all, pizzakrydd, rósmarín, oregano, salt og pipar

Aðferð:

Steikja hvítlauk, lauk, papriku þar til fallega gullinbrúnt
Bæta nautahakki við á pönnuna og steikja þar til brúnt í gegn. Krydda eins og vindurinn.
Bæta baunum, tómatpúrru, vatni við gumsið.
Láta malla saman í nokkrar mínútur.

Bera fram með hrísgrjónum, salati og sítrónuhummus.

 

20161230_115328

 

Sítrónuhummus

1 dós kjúklingabaunir
2 msk vökvi af baununum (aquafaba)
2 msk Himnesk hollusta ólífuolía
1 msk sítrónusafi
1 msk Monki tahini
1 tsk kúmín
rifinn börkur af hálfri sítrónu
salt og pipar

Aðferð:
Dúndra öllu saman í skál og töfrasprota í mauk, eða vinna allt saman í matvinnsluvél.

Leave a comment

Filed under Fitutap, kjöt og fiskur, Mataræði, Matreiðslunámskeið, sykurlaust, Uppskriftir

Kalkúnn og með’ðí – jól og áramót í núvitund

Fyrir marga eru jólin ekki bara hátíð gleði og kærleiks.
Gjafir og græjur. Skraut og sörur. Kökur og kransar

Það er líka tími kvíða. Allskonar kvíða.

Fyrir jólin heltekur angistin að vera ekki “búinn að öllu”.
Áhyggjur af ókeyptum gjöfum. Óeldaðri sósu. Óþrifnum skápum.

En eftir því sem nær dregur byrjar matarkvíðinn hjá mörgum að taka við keflinu.

Kvíðinn yfir að borða of mikið þessi jólin eins og siðustu ár.
Að fylla vélindað af mat sem fer ekki vel í mallakútinn. Salt, sykur, smjör og hveiti þar til vömbin biðst vægðar.

Hneppa frá brók. Hnakkasviti niður bakið. Hjartað eins og túrbína.

Matur sem þú allajafna reynir að stýra þér í kringum fær núna frjálsan aðgang að túlanum.
Og þá kemur hræðslan við að missa tökin. Að geta ekki stjórnað hönd að munni.

En ef þú nýtur jólakræsinganna í núvitund þessi jólin þá upplifirðu frelsi frá þessari hræðslu.
Þessari innri styrjöld samviskubits og togstreitu sem herjar á heilann.

“Jú fáðu þér Makkintossj… það eru jú jólin.”
“Ohh hefði ekki átt að borða svona marga brúna mola.”
“Ég er gráðugt svín”

Hér eru nokkur góð ráð til að nærast í núvitund þessi jólin.

* Fáðu þér einu sinni diskinn og veldu allt sem þér þykir gott og girnilegt. Þá geturðu setið í rólegheitum og notið matarins án þess að vera eins og öryggismyndavél hvort Júlli frændi sé að klára Waldorf salatið.

* Þú ert búinn að eyða mörgum klukkutímum í að versla inn. Heilum degi að sjóða, steikja, hræra, baka. Það er sorglegt að máltíðin sjálf taki síðan bara 10 mínútur. Borðaðu hægt og rólega. Leggðu frá þér hnífapörin milli bita. Veltu fyrir þér áferðinni og hvernig bragðlaukarnir dansa tangó við matinn.

* Hugsaðu um matarlystina þína eins og bankareikning. Hvað ætlarðu að eyða miklu í forrétt. Hversu miklu skal spandera í aðalréttinn. Ætlarðu að brjóta sparibaukinn fyrir desa? Skipuleggðu fjármálin fyrirfram til að koma í veg fyrir meðvitundarlaust ofát.

* Minglaðu við Lóu frænku og Stulla systurson fjarri kræsingunum. Því það sem er ‘úr sjónlínu er úr sálinni’. Ef þú hímir eins og unglingur í sjoppu í kringum stöffing og frómas þá ertu líklegri til að borða meira en þú ætlaðir.

* Vertu kaloríusnobbaður. Eyddu kaloríunum þínum í gæðastöff sem þér þykir gúrmeti. Ekki þriðja flokks sælgæti. Skraufþurrt sætabrauð eða búðarkeyptar smákökur.
Hættu að borða ef maturinn er undir væntingum.

* Meðvitundarlaust jórtur úr skálum af borðum leiðir til líkamlegrar seddu en sálin er svekkt því þú manst bara eftir fyrsta molanum en óminnishegrinn tók öll völd á þeim þriðja upp í þrjátíu. Þú þarft ekki að stinga upp í þig bara af því það er skál á borðinu

* Ef þú borðar bara mat sem er gordjöss og gómsætur, hægt og rólega og átt rómantískt móment með matnum upplifirðu að þú þarft miklu minna magn.

Með því að nærast í núvitund þessi upplifirðu frelsi. Frá togstreitu og kvíða. Frá hræðslu og hjálparleysi.

Og kemur út hinum megin við jólin uppfullur af sjálfstrausti eftir að hafa staðið með sjálfum þér.
Tilbúinn í allar áskoranir nýja ársins.

Komdu bara með þær… “ég massa þetta”.

Gleðileg núvitundarjól !

Leave a comment

Filed under Hugarfar, Mataræði, Naglinn, Sálfræði

Silkimjúkur súkkulaði-granateplagrautur

 

Sítróna og granatepli bindast hér vináttuböndum enda slá þessir tveir félagar aldrei feilnótu þegar þeir eru spilaðir saman í bragðsinfóníunni. Það er viðeigandi að nota himneskar vörur í þessa gúrmetisgleði, því upplifunin færir þig sannarlega nær himnaríki.

 

20161220_064551

Silkimjúkur Súkkulaði-granatepla næturgrautur

50 g Himnesk hollusta haframjöl

2 dl Isola ósætuð möndlumjólk

2 dl vatn

2 msk NOW psyllium Husk

rifinn börkur af hálfri sítrónu + sítrónusafi

1 ½ tsk Ceylon kanill Himnesk hollusta

1 granatepli. Skera í tvennt og skafa fræin úr. Geyma 2 msk af fræjum til skreytingar

4 tsk Rain Forest Kakónibbur

4-6 dropar NOW Better Stevia French vanilla

20161219_194459

Aðferð:

Hrærðu öllu nema kakónibbum saman í skál helltu síðan yfir í Sistema nestisbox og lokaðu. Geymdu í kæli yfir nótt. Huskið drekkur í sig vökvann og verður stífur grautur. Þá þarftu ekki annað en að velta þér framúr um morguninn, opna ísskápinn með annarri hönd og skeiðina á lofti í hinni. Skreyta með kakónibbum og restinni af granateplinu. Setjast síðan og njóta með núvitund hverrar munnfylli. Því þú vilt aldrei að þessi máltíð taki enda.

 

20161219_192752

Allt stöffið í grautinn fæst auðvitað í verslunum Nettó

 

 

Leave a comment

Filed under bakstur, Mataræði, Matreiðslunámskeið, morgunverður, Naglinn, Sjoppur, sykurlaust, Uppskriftir