Sjúllaðar súkkulaðikaffimöndlur

Ef þú hendir í þessar súkkulaði kaffimöndlur beint eftir vinnu í dag þá muntu fyllast svo miklu þakklæti í garð Naglans að þú sendir blóm og kransa express með DHL til Danmerkur.

Ef þessar dúllur leynast í kælinum þegar Siggi sæti bankar á öxlina eftir kvöldmat þá er engin ástæða til að fara á bólakaf í sykursósaðan blandípokann.

Innihald

2 bollar ristaðar möndlur
2 msk skyndikaffi
2 msk GOOD GOOD sweet like sugar erythritol
120g ósætað NOW hrákakó
250g brætt sykurlaust súkkulaði (ég notaði Nicks dökkt)

Aðferð

Rista möndlur í 180° heitum ofni í 25 mínútur
Bræða súkkulaðið í örbylgju eða yfir vatnsbaði
Blanda skyndikaffi, kakó og erythritol saman í skál
Löðra möndlunum uppúr bræddu súkkulaði
Velta þeim síðan uppúr kaffikakóblöndunni
Sáldra sjávarsalti yfir
Þrykkja möndlunum í kæli þar til súkkulaðið hefur harðnað.