Flest okkar myndum gjarnan vilja borða dísæta súkkulaðiköku með þeyttum rjóma án þess að þær kaloríur þrengi brók og belti. Af þeim sökum eigum við mörg í flóknu ástar-haturs sambandi við sætuefni. Þessi mólekúl sem slá á pervertískar langanir í sætabrauð sem herja á okkur þegar litli vísir nálgast fjögur á klukkunni og frelsið framundan eftir langan vinnudag.
Við slurpum sykurlausa gosdrykki og kjömsum á hollari súkkulaðistykkjum til að halda samviskunni til friðs. En það er ekki sama Jón og séra Jón þegar kemur að sætuefnum en mörg þeirra hamast á heilsunni með hamri og sleggju.
Einn slíkur niðurrifsseggur er súkralósi.
Súkralósi er búið til úr klór og sykur mólekúlum og oft selt undir vöruheitinu Splenda.
Súkralósi er yfir og allt um kring eins og koltvísýringur og má finna í yfir fjögurþúsund vörum, allt frá ropvatni upp í tannkrem.
Þarmaflóran átti sitt stjörnumóment árið 2018 og vísindamenn hafa sjaldan kastað jafn mikilli vinnu og aurum í að skoða þetta langa líffæri sem hvílir fyrir miðjum skrokki.
Rannsóknir sýna að súkralósi hefur neikvæð áhrif á þarmaflóruna sem er líklega eitt okkar mikilvægasta líffæri en hún hefur mjög mikið að segja um heilsufar, bæði andlegt og líkamlegt.
Trilljónir af bakteríum eru eins og galeiðuþrælar í þörmunum að melta og frásoga orku, andoxunarefni, vítamín og steinefni úr matnum sem við gúllum í ginið.
Og þeirra verki er ekki lokið þar, því eins og skúringakellingar eftir rokktónleika skúra þær út óþarfa og ósóma og styðja þannig við heilbrigt ónæmiskerfi og halda pípulögninni reglulegri.
Mest af þeim súkralósa sem við þömbum eða kjömsum, brotnar ekki niður í meltingunni og mólekúlin ferðast frá munni í gegnum skrokkinn alveg niður í kjallara í heilu lagi.
Þegar bakteríurnar í þörmunum hitta síðan súkralósann á förnum vegi niðri í kjallara þá deyja þær drottni sínum.
Rannsóknir á dýrum hafa sýnt að súkralósi slátraði allt upp í 50% af góðu bakteríunum í þarmaflórunni. Ekki nóg með þessi fjöldamorð á góðu bakteríunum, heldur stuðlar súkralósi að örari vexti á hryðjuverkabakteríum en nýleg rannsókn sýndi ofvöxt á E.Coli bakteríum hjá músum sem drukku mikinn súkralósa.
Þegar bakteríurnar í þörmunum falla örendar eftir viðskiptin við súkralósa getur það ekki einungis haft áhrif á líkamlega heilsu eins og aukin bólgumyndun, heldur hefur það einnig áhrif á litla sálartetrið í okkur. Til dæmis sýna rannsóknir í auknum mæli að framá tengsl milli þunglyndis og kvíða og starfsemi þarmaflórunnar.
Jafnframt eru vísbendingar um áhrif þarmaflórunnar á hvernig líkaminn nýtir glúkósa úr blóðinu, en lægra glúkósaþol hefur orðið vart hjá músum sem drekka súkralósablandað vatn borið saman við þær sem drukku sykrað vatn. Lægra glúkósaþol getur stuðlað að þyngdaraukningu.
Nýleg rannsókn (Gingery, 2018) leiddi í ljós að að súkralósi eykur prótínið GLUT4 í fitufrumum en hlutverk þess er að taka upp glúkósa og ferja það inn í frumuna.
Þegar við borðum sykur taka frumur upp meiri glúkósa og það getur leitt til fitusöfnunar. Niðurstöðurnar benda þannig til að neysla á súkralósa getur aukið líkur á sykursýki og ofþyngd.
En það er ljós í myrkrinu því margir framleiðendur eru orðnir meðvitaðri um að nota heilsusamlegri og náttúruleg sætuefni í vörur sínar eins og erythritol og Stevia sem eru unnin úr jurtaríkinu. Annars vegar úr plöntunni Stevia og hinsvegar úr sveppum, maís og soja.
Verum meðvitaðir neytendur og skoðum utaná umbúðir hvað við erum að svolgra í okkur og löðra í innyflin og þarmana. Þegar við veljum betri kosti segir líkaminn TAKK.
Heimildir:
Abou-Donia, M.B., El-Masry, E. M., Abdel Rahman, A. A., McLendon, R. E., Schiffman, S. S. (2008) Splenda alters gut microflora and increases intestinal p-glycoprotein and cytochrome p-450 in male rats. Journal of Toxicology Environmental Health. 71(21):1415-29
Alexander Rodriguez-Palacios, et. al. The Artificial Sweetener Splenda Promotes Gut Proteobacteria, Dysbiosis, and Myeloperoxidase Reactivity in Crohn’s Disease–Like Ileitis, Inflammatory Bowel Diseases.
Bokulich, N. A., Blaser, M. J. (2014). A bitter aftertaste: unintended effects of artificial sweeteners on the gut microbiome. Cell metabolism. 20(5):701-703
Gingery, J (2018). Consuming low-calorie sweeteners may predispose overweight individuals to diabetes, The endocrine Society.
Jiang, H., Ling, Z., Zhang, Y., Mao, H., Ma. Z., Yin, Y., Wang, W., Tang, W., Tan, Z., Shi, J., Li., L., Ruan, B. (2015) Altered fecal microbiota composition in patients with major depressive disorder. Brain Behavioral Immunity, 48:186-94
Nettleton, J. E, Reimer, R. A, Shearer, J. (2016). Reshaping the gut microbiota: Impact of low calorie sweeteners and the link to insulin resistance? Physiology of Behavior. 164(Pt B):488-493
Rogers, G. Keatin, D. J, Young, R. L., Wont, M. L., Licinio, J. Wesselingh, S. (2016). From gut dysbiosis to altered brain function and mental illness: mechanisms and pathways. Molecular Psychiatry, (6): 738–748.
Suez, J., Korem, T., Zeevi, D., Zilberman-Schapira, G., Thais, C. A., Maza, O., Israeli, D., Zmora, N., Gilad, S., Weinberger, A., Kuperman, Y., Harmelin, A., Kolodking-Gal, I., Shapiro, H., Halpern, Z., Segal, E., Elinav, E. (2014). Artificial sweeteners induce glucose intolerance by altering the gut microbiota. Nature, 514 (7521):181-6
Suez, J., Korem, T., Zilberman-Schapira, G., Elinav, E. (2015). Non-caloric artificial sweeteners and the microbiome: findings and challenges. Gut Microbes, 6(2):149-55