Sykurlaus og horaður vanilluís

Einfaldasti og fljótlegasti vanilluís í veröldinni takk fyrir tíkall.

Og hann er sykurlaus og horaður.
En líka veganvænn og laktósafrír. En líka glútenfrír og gómsætur.

 

Ísvélin sem þú keyptir í Sjónvarpsmarkaðnum getur haldið áfram að safna ryki í geymslunni fyrir aftan glósubækurnar úr gaggó.

Því þú þarft ekkert nema klakabox og blandara.

Uppskrift:
2 1/2 dl haframjólk, t.d Minor Figures
1 tsk sjávarsalt
1 msk NOW erythritol
5-8 NOW Better Stevia French vanilla dropar

 

Hella í klakabox og frysta.
T.d Sistema klakabox sem hægt er að loka.

Skella ísmolunum í blandara og mala mélinu smærra þar til áferðin líkist gómsætum Kjörís.

Toppa gleðina með horaðri kókossúkkulaðisósu

Horuð kókossúkkulaðisósa

2 msk ósætað kakó, t.d Himnesk hollusta
1 avocado
1 dl haframjólk/möndlumjólk/beljumjólk
5-7 dropar kókosdropar, t.d Good Good
2 msk Sykurlaust síróp

Hræra saman með töfrasprota og drizzla sósunni yfir.

Unaður að bera fram með hindberjum og hökkuðum möndlum.

Njóttu með lítilli skeið í algjörri ró og núvitund með öllum skynfærum.

 

Það má dressa þessa grunnuppskrift upp í allskonar búninga og bæta gúmmulaði útí fyrir aðrar varíasjónir.

  • Kakónibbur, sykurlausir súkkulaðibitar, hakkaðar hnetur eða möndlur, piparmintudropar, karamelludropar, sykurlaust kakó, jarðarber, hindber, bananar, hnetusmjör, skyndikaffi.

 

 

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Icepharma.