Google er ekki vinur þinn í fitutapi

Samkvæmt veraldarvefnum eru margar leiðir til að bræða lýsi af maga, rassi og mjöðmum.

➡️Gera haug af “brennsluæfingum”
➡️Drekka kaffi með slummu af smjörva 
➡️Gera átta mínútna kviðæfingarútínu 👀
➡️Ekki borða í 16 tíma á sólarhring.. nei 15 tíma… sorrý 17 tíma… 🍽️
➡️ Hanga á horriminni tvo daga í viku og stunda svo átorgíu hina fimm dagana 🍩🎂🍰🍫
➡️Vefja magann í korsilettu og svitna spikinu út eins og grís á teini 🐷
➡️Drekka magískt dítoxandi teblöndu sem eykur brennslu með óútskýrðum mekanisma. 🙈

➡️Dúndra kælielementi á mallakút og rassaling og frysta fitufrumur til dauða 🤦‍♀️

Þú hefur eflaust gúgglað þig ofan í svarthol og prófað eitthvað af ofantöldu… bara til að gefast upp og í staðinn fyrir að verða fátækari af fitufrumum fækkaði krónum í buddunni og frumum af sjálfstrausti.

En samkvæmt vísindum eru einnig margar leiðir til að plokka smjör af skotti 🤓

 

➡️Snæða í hitaeiningaþurrð (oftar lengur en maður heldur) 🍉🍊🍍

➡️Rífa í járnið 3-5 x í viku

➡️Stunda þolæfingar í hófi til að brenna hitaeiningum og rífa upp þolið fyrir lyftingar

➡️Fá nægan svefn (7-9 tíma á nóttu) 😴

➡️Einblína á nýja heilsuhegðun og mastera eina í einu. 😎

➡️Hafa þolinmæði í bílförmum

➡️Drekka nóg af vatni

 


Regla númer 1, 2 og 3…. Google er ekki vinur þinn þegar kemur að leitarorðinu fitutap.

Sannleikurinn er að tálgun smjörs er ekki kynæsandi söluvara þvert á það sem markaðurinn vill telja þér trú um.

Þetta er hundleiðinleg gömul margtuggin vísa sem byggir á almennri þekkingu.

Borða minna. Stunda styrktarþjálfun. Sofa vel. Borða meira grænmeti.

 


Og vera þolinmóðari en pandabjörn í makaleit.

Það vill enginn heyra það.
Svoleiðis nöldur selur engin 12 vikna prógrömm.

Mundu bara að fitubrennslubransinn græðir á tá og fingri á að þú missir sjálfstraustið og trúna á sjálfan þig af endurteknum tilraunum af því sem virkar ekki.

Þeir hlæja alla leið í bankann með hýruna sem þú eyðir í sexý duftblöndur, plastfilmur og sjálfshjálparskræður.

Ekki gera þeim það til geðs.

 

__________________________________________

Under Armour
Afsláttarkóði: ragganagli
http://www.nowfoods.is
Afsláttarkóði: ragganagli20