Úr baðherbergjum á landinu Ísa má heyra grátstaf og gnístran tanna þegar talan á vigtinni er komin út fyrir eigin velsæmisstaðal.
Nei, nei, nei fru Stella, det går ikke!!
Þú ert þreytt(ur) á að vera úr formi. Nú skal heldur betur gera eitthvað í málunum.
Þurrkar grátstafinn úr kverkunum og girðir nærbuxurnar yfir útkýlda ístruna.
Ferð á stúfana í bransanum og talar við gúrúna, skannar alheimsvefinn, tímaritin, bækurnar í leit að lausninni.
Með skothelt plan í höndunum hvernig skal vippa kvekendinu í sjóðandi form.
En hvað gerist svo ? Fylgirðu því? Hhhmmm… þegar stórt er spurt…
Það eru alltof margir sem vilja fá allt fyrir ekki neitt. Eigið framlag til árangurs á að vera í frostmarki en á sama tíma er kvartað og kveinað yfir lélegu formi og suðlægum rassi. Að uppskera eins og til er sáð virðist ekki hringja neinum bjöllum í núðlunni.
Það er nefnilega ekki nóg að eiga fallega skrifað blað í töskunni með leiðbeiningum um hvernig eigi að komast í form. Það þarf aðgerðir af þinni hálfu.
VARÚÐ! Sjokkerandi staðreynd: Þú þarft að fylgja planinu svo það virki – þú þarft að mæta á æfingar, taka á því og borða rétt. Þar liggur hundurinn grafinn í kúnni með hnífinn á bólakafi í bakinu.
Planið virkar ekki nema að því sé fylgt og því betur sem það er gert, því meiri verður árangurinn.
Það eru ekki kjarneðlisvísindi að ekki er vænlegt til árangurs í fitutapi að maula kex á kantinum alla daga, popp í bíó, rauðvín með mánudagsýsunni, kók yfir Kastljósi og ís eftir sund.
Lítið + lítið + lítið er ekki lengur lítið heldur safnast saman og fyllir aftur í fitutapsholuna sem við reynum að búa til með stífu mataræði og æfingum.
Ef þú talar við afreksíþróttamenn þá munu þeir ekki þakka árangurinn síðdegisglápi á Omega eða allri kókdrykkjunni.
Samviskusöm mæting á æfingar, topp mataræði og vinna, vinna, vinna er það eina sem blífar.
Af hverju er svona erfitt að fylgja plani? Það eru nefnilega ansi margir haldnir athyglisbresti þegar kemur að því að halda sig við efnið. Er það vegna þess að þægindahringurinn með rjómasósum og sjónvarpsglápi er bara svo ansi kósý og erfitt að stíga útúr honum?
Ertu svangur/svöng í fitutapinu?
Sjokkerandi!! Þú ert að borða undir viðhaldhitaeiningum líkamans og hann kallar á meiri orku með svengdartilfinningu. Stundum þarf maður bara að drekka stórt glas af “Hættuþessuvæli”.
Er erfitt að lyfta þungt og spretta hratt?
Detti af mér allar dauðar…. við hin lyftum litlum bleikum gúmmílóðum íklædd vatteruðum bómullargalla.
HALLÓ! Hækkaðu sársaukaþröskuldinn og snýttu þér. Þú ÁTT að finna fyrir þessu til að ná árangri.
Er erfitt að finna tíma til að æfa?
Jæja já!! Segðu mér Feisbúkk statusa dagsins og hvað er að gerast í Gray’s, Despó, Dexter, CSI og ég skal segja þér hvort þú sért aflögu fær um 45 mínútur á dag í að hreyfa skottið.
Önnur röskun hrjáir nútímamanninum: Í gær syndrómið.
Líkamlegar breytingar eiga að gerast en, to, tre. Helst í fyrradag takk. Annars nenni ég þessu ekki.
Fína æfingaplanið úr vöðvablaðinu klippt út, skokkað í Hagkaup eftir haframjöli, grænmeti og kjúklingabringum. En eftir viku tekur ólympísk óþolinmæði öll völd í gráa efninu og í pirringskasti og frústreringu er síðasti aurinn úr sparibauknum brúkaður í safadítox-hvítlauks safann, Hörbósjeika, fitubrennslutöflur eða nýjustu bókina um franska, danska, spænska, lágkolvetna, lágfitu, föstu, súpu, greip kúrinn.
Hér kemur önnur köld gólftuska í grátbólgið smettið… það þarf að gefa líkamanum tíma til að bregðast við æfingaáreiti og breyttu mataræði.
Það gerist engar sýnilegar breytingar á einni til tveimur vikum. En það er samt haugur gerast inni í maskínunni.
Staðfesta og harka í 4-6 vikur og þú ferð að upplifa og sjá breytingarnar.
Það er rúmlega einn vesæll mánuður af lífi þínu – þú hlýtur að geta gefið þér allavega þann tíma í verkefnið.
Reyndu í þetta skiptið að gera hollustulífið að lífsstíl, þá sleppurðu við grátköstin inni á baðherbergi og deprímeringuna yfir þrengri streng.
Hver vill vera alltaf á byrjunarreit?