Kvöldsnæðingar

Fastaðu alveg eftir kl. 19
Ekki borða neitt eftir kvöldmat
Alls ekki borða þremur tímum fyrir svefn.”
Margir fá gyllinæð af stressi yfir að borða rétt fyrir svefn því þeirri firru hefur verið troðið í sárasaklausan pöpulinn að allt sem þú borðar eftir kvöldmat breytist í fitu á núll einni yfir nóttina.

Þetta atriði sker í hjarta Naglans en má ítrekað sjá í ráðleggingum til þeirra sem vilja tálga smjörið

Að setja ekki örðu inn fyrir varirnar eftir kvöldmat er morkin bábilja sem á heima á Þjóðminjasafninu við hliðina á lágkolvetna kúrum, bumbubana og Jane Fonda vídjóspólum.

Það þarf að breyta þessu aldagamla bulli um að svelta burt fituna yfir í hugsunina að fóðra vöðvana. Þannig stuðlum við að miklu skilvirkara sýstemi, heilbrigðri grunnbrennslu, fallegri líkama og langtímaárangri.

Nokkrar máltíðir dagsins eru mikilvægari en aðrar, og snæðingur rétt fyrir svefn er þar fremstur meðal jafningja.

 

 

Meðan Óli Lokbrá sveimar um svefnherbergið er skrokkurinn í lengsta föstuástandi sólarhringsins en samt í bullandi vinnu, meðal annars að gera við niðurtætta vöðvana eftir átök dagsins og að sjálfsögðu þarf næringu til starfans.
Honum er skítsama hvaðan bensínið kemur og sé ekkert í skjóðunni kroppar hann amínósýrur úr fínu vöðvunum okkar til að fá orku.

Markmiðið með síðustu kvöldmáltíðinni er tvíþætt:
Í fyrsta lagi að hindra niðurbrot á vöðvunum sem við eyddum blóði, svita og tárum að byggja upp.

Í öðru lagi að halda líkamanum í uppbyggingarfasa yfir nóttina til að tryggja áframhaldandi vöðvavöxt. Þeir gera jú við sig í hvíldinni.

 

 

Við stílum neyslu á orkugjafanum, elskulegu kolvetnunum okkar, inn á þann tíma sem þau nýtast okkur mest: fyrri part dags og í kringum æfingar.
Eftir því sem hægir á okkur yfir daginn skiptum við yfir í prótíngjafa og góðu fituna, því hún fyllir okkur svo vel þegar kolvetnin eru minnkuð.

Og hvað er eiginlega í boði í kvöldkaffinu?
Eitthvað auðmeltanlegt og prótínríkt og svo góða fitu á kantinum.

Með að troða prótíngjafa í trýnið hækkum við amínósýrumagn í blóðrás sem veitir stöðugt flæði þeirra um musterið okkar meðan slefað er á koddann.

En það er ekki sama Jón eða sera Jón þegar kemur að prótíni. Hæglosandi prótín, casein, sem finnst til dæmis í mjólkurvörum og í prótíndufti losast hægar útí blóðrás en hið hraðlosandi mysuprótín og er því betri kandídat í náttfatapartýið.
En sé casein ekki í boði má bæta nokkrum slettum af skyri út í mysuprótínið.

Samhliða prótíngjafa gúllum við góðu fituna því hún seytir út hormóninu cholecystokinin (segðu það 10 sinnum hratt) sem hægir á meltingu.
Þar með tryggjum við að amínókvikindin synda eins og amma með sundhettu í Vesturbæjarlauginni um skrokkinn alla nóttina. Hægt og rólega og vöðvarnir fá næringu hele tiden.

 

 

“En ég er bara ekki svangur á þessum tíma.”

Hættu þessi væli og troddu  smotterí í grímuna og vendu þannig mallakút á snæðing á þessum tíma.
Eftir nokkur skipti fer hann að grenja á kvöldsnæðing með galandi garnagauli eftir tíu-fréttir.
Að sama skapi ferðu að finna fyrir aukinni svengd þegar þú reisir þig úr rekkju í morgunsárið. Það er merki um að grunnbrennslan er í blússandi sambasveiflu.

Nú klóra sér margir í skallanum… hvaða matvæli skal eiginlega smjatta á síðkvöldum?

Möguleikarnir eru mýmargir en hér eru nokkur dæmi.

Prótinsjeik (klaki og xanthan gum gerir sjeikinn hnausþykkan) og muldar hnetur
• Ommiletta með bræddum osti

Eggjahvítupannsa  með hnetusmjöri og sykurlausri sultu
Hollur súkkulaðiís með hökkuðum jarðhnetum
• Skyr og kotasæla hrært saman, vanilluduft, sykurlaust vanillusíróp og muldar ristaðar möndlur = Ris a la mande
Hollustusúkkulaðikaka með muldum pekanhnetum eða jarðhnetum
• Prótínsjeik með avocado (gerir sjeikinn kremaðan og jammí) eða kókosolíu eða hörfræjum
• Harðfiskur með möndlusmjöri (bragðast eins og marzipan)
Prótínbúðingur með hnetusmjöri
• Skyr hrært með sykurlausu karamellu eða kókos sírópi, kanil og hökkuðum cashew hnetum.
Grísk jógúrt (fitusnauð)/skyr, kakó og camembert

Svo er bara að leyfa ímyndunaraflinu að hlaupa með sig í gönur og kokka upp sínar eigins gúmmlaðiskombinasjónir.


Xanthan gum, ósykrað Hershey’s kakó, möndlusmjör fæst í Kosti
.
Sykurlaus síróp fást hjá Kaffitár og á www.iherb.com

2 thoughts on “Kvöldsnæðingar

  1. Pingback: Kotasælusæla | ragganagli

  2. Pingback: iHerb… ILoveyou | ragganagli

Comments are closed