Döðlupestó sem kallar fram gleðitár

Þetta döðlupestó kallaði fram tár á hvarmi Naglans þegar fyrsta teskeiðin snerti tungubroddinn. Gleðitár.

Döðlur eru guðsgjöf til mannkyns. Sérstaklega Medjool döðlur, þessar í kössunum með steininum. Þær eru mýkri og auðveldari að vinna með en gamlar frænkur þeirra sem eru oft þurrar á manninn og þrjóskar til samvinnu. Pokadöðlurnar frá Himnesk hollustu eru langbestar.

Þessi litli ávöxtur gefur yndislega náttúrulega sætu hvort sem er í sætindi eða saltmeti. Passar þannig bæði í sunnudagsbröns eða í laugardagslæri. Kjöt eða kruðerí. Bakkelsi eða baunir. Allt sem inniheldur döðlur færir þannig matargerðina á æðra stig í goggunarröð hamingjunnar.

 

do%cc%88dlupesto-3

 

 

Þetta döðlupestó er svo einfalt og fljótlegt. Tekur ekki nema 5 mínútur að mauka saman en útkoman færir þig í Nirvana ástand þar sem tíminn stöðvast meðan gúmmulaðið veltist um í munnholinu.
Þú valhoppar í matarvímu og ofskynjar ekkert nema regnboga og hvolpa í kringum þig.
Þetta er líka horaðri kaloríusnauðari varíasjón sem fyrir okkur matargötin þýðir að þú getir borðað meira.. *hnegg hnegg*

 

Uppskrift

Hálf lítil krukka rautt pestó (tómat)
10 Medjool döðlur eða frá Himneskri Hollustu
lúka af horuðum fetaosti (5%)
1 msk kotasæla
50-70 ml vatn

do%cc%88dlupesto-1

do%cc%88dlupesto-4

Aðferð:

  1. dömpa öllu stöffinu í mjótt glas eða skál
  2. töfrasprota gumsinu saman í einn hrærigraut þar til döðlurnar eru maukaðar í spað
  3. Skúbba öllu yfir í fallega gamla sultukrukku og geyma í kæli.Hreinræktuð hamingja með fiski, kjúklingi, kjöti, grænmetisréttum.
    Gómsæti ofan á brauð, kex og hrökkbrauð.
    Slefandi sæla bara beint uppúr dollunni með skeið… eða puttanum.

do%cc%88dlupesto-2