Rauðrófuhummus sem fær þig til að gleyma stað og stund

20161019_153907

Haustið er tími rótargrænmetis og hér í Danaveldi svigna hillur undan rauðrófum, hvítum rófum, næpum, gulrótum, kartöflum, sætum kartöflum.

Og þegar haustlægðirnar herja á gluggarúðuna er fátt meira kósý en að reima á sig svuntuna og skella í eitt gómsætasta hummusið á byggðu bóli. Bara með ferskum og flúnkunýjum hráefnum. Glúteinlaus. Sykurlaus. Mjólkurlaus. Vegan… you name it… hummusið hefur það.

Þú gætir þurft að tvöfalda eða þrefalda uppskriftina því heitar lummur eiga ekki roð í þetta hummus. Það rýkur bókstaflega út.

Hummus er undursamlegt með allskonar mat. Sem álegg á brauð, pítabrauð eða hrökkbrauð. Sem meðlæti með kjúklingi, laxi, kjöti. Sem sósa út í grænmetisrétti. Sem ídýfa fyrir niðurskorið grænmeti. Eða bara borða með skeið… djók.. eða ekki.

Möguleikarnir eru endalausir. Ímyndunaraflið er eina hindrunin.

20161019_101701

Uppskrift

2-3 meðalstórar rauðrófur
1 dós kjúklingabaunir (*safanum hellt af)
börkur af 1/2 sítrónu
3 msk sítrónusafi
2 msk ólífuolía
1-2 msk vatn
marið bakað hvítlauksrif **
1 msk tahini
1 tsk sjávarsalt
1/2 tsk kúmín

20161019_131144

Aðferð.

  1. Pakkaðu rauðrófunum í álpappír og bakaðu í 200°C heitum ofni í c.a 45-60 mínútur eða þar til mjúkar í gegn.Þetta er tímafrekasti parturinn í uppskriftinni.
  2. Þegar rauðrófurnar eru bakaðar er best að láta kalt vatn renna á þær, þá rennur skinnið af þeim nó próblemó. Það er þó ráðlegt að vera íklæddur gúmmíhönskum til starfans því annars líta hendurnar út eins og á fjöldamorðingja.
  3. Hentu núna öllum innihaldsefnunum í blandara eða matvinnsluvél og blandaðu allt saman þar til mjúkt eins og barnsrass. Bættu við meira vatni ef þörf þykir.
  4. 20161019_132012

** Hentu hvítlauk inn í heitan ofninn í 10 mínútur áður en þú skellir honum í pressuna

*það er sniðugt að geyma safann af kjúklingabaunum því hann má stífþeyta eins og marengs.