Ekki hata

Kona í búningsklefanum speglar sig eftir æfingu

“Feita belja” segir konan við hliðina sem er að setja á sig maskara.

“Þú ert ógeð í þessum kjól.“

 

Út af klósettingu labbar grannvaxin stúlka

Eldri kona að fylla á vatnsflöskuna segir “Horaða gerpi. Þú ert bara 30 kíló með skólatösku. Örugglega með átröskun. Í öllum bænum drekktu rjóma.”

 

Í lyftingasalnum er vaxtarræktakona að lyfta lóðum.
Maður við hlið hennar gólar: “Afstyrmi! Hvort ertu kall eða kona?? Konur eiga ekki að vera með svona mikla vöðva. Búin að sprauta þig fulla af sterum og ógeði.”

 

Á hlaupabrettinu er stúlka í magabol.

Tvær stúlkur koma aðvífandi “Hey þú mella. Ertu að biðja um að láta nauðga þér í þessum hóruklæðnaði? Almannagjá!!

 

Stúlka dökk á hörund er á teygjusvæðinu.

Konan fyrir aftan hana segir: “ Halanegri. Drullastu heim til Kongó litli svarti Sambó og hættu að mergsjúga kerfið á Íslandi.”

 

Í hvaða rækt æfir Naglinn eiginlega???

Svona talar fólk ekki hvert við annað. Ekki í kjötheimum.

Ekki andliti til andlitis allavega.  Bara í ummælakerfum á netinu.

Þegar fingurnir fá að stýra ferðinni. Þegar tölvuskjár aðskilur líkama okkar.

Ef athugasemdir sem við hömrum á lyklaborðið væru settar í munn okkar myndi tungan eflaust gera uppreisn og neita að mynda ljót orð og særandi setningar

 

Netníð gegn konum og stelpum er vaxandi samfélagsvandamál og hefur áhrif á fleiri konur en við gerum okkur grein fyrir.

Er það furða að ungar stúlkur sem nota samfélagsmiðla séu með aukinn kvíða?

Því orð meiða mest.

 

Þessu þarf að breyta hið snarasta með ábyrgara orðavali á netinu. Átakið #ekkihata á vegum UNwomen hvetur fólk til þess að skrá sig á heforshe.is og berjast gegn netníð og beita hvorki hatursfullri orðræðu né hóta ofbeldi á netinu.

 

Við fullorðna fólkið þurfum að ganga fyrir með góðu fordæmi

 

Tökum tíu sekúndna pásu. Stöndum upp og íhugum hvort við myndum láta ummælin myndu falla ‘maður á mann’ áður en við pikkum á lyklaborðið.