Úr sjónlínu – úr sálinni.

Siggi kollegi kom frá útlöndum með fullan poka af Dumle karamellum sem mæna á þig í hvert skipti sem þú nærð þér í kaffibolla

Lóa í bókhaldinu átti afmæli í gær og nú dangla óétnar sneiðar af súkkulaðiköku við hliðina á skyrdollunni sem full af skynsemi bíður þín í ísskápnum.

Nonni forstjóri kom með kippu og Dórítós fyrir föstudagsbjór og heiðgular flögurnar hjúpaðar gerviosti garga á þig í hvert skipti sem þú vogar þér að ljósrita bréfsnepil.

Og þú að rembast eins og rolla á staur að stramma upp strenginn fyrir árshátíðina.

Átt þú erfitt með að standast freistingar sem leka af hverju strái í vinnunni?

Leitar höndin ósjálfrátt í skálarnar og leggja stein í götu árangursins?

Skemmtileg rannsókn á skrifstofu sýndi að þegar sælgætisskál var sett við hliðina á tölvunni hjá riturum þá rötuðu níu molar upp í túlann.

Þegar skálin var hinsvegar sett ofan í skúffu fækkaði molunum í sex kvekendi yfir daginn.

En þegar skálin var færð tvo metra í burtu voru ekki nema þrír ræflar tuggðir.

Þegar ritararnir voru spurðir eftirá, hvers vegna þær kjömsuðu mun minna af gúmmulaðinu. Var svona mikið maus að standa upp og labba þrjú skref?

Nei… allar svöruðu að þegar molarnir voru ekki lengur gargandi á sjónhimnunni þá gleymdu þær þeim bara.

Því mannskepnan virkar þannig að viljastyrkur er þverrandi auðlind.
Ef þú segir “NEI!” við púkann mörgum sinnum á dag þá mun koma að setningunni:

“æi bara einu sinni”….

og henni fylgir oftar en ekki:

“æi ég er hvort sem er byrjaður” ..

Nýttu þér þessar niðurstöður ef þú vilt minnka sælgætisát og stýrðu umhverfinu þínu þannig að slikkeríið sé ekki lengur í sjónlínu eða í seilingarfjarlægð.

Sex molum færra á dag þýðir 30 molum færra yfir vinnuvikuna sem þýðir 120 molum færra yfir mánuðinn.

Þú ert samt að njóta með núvitund en ekki neita þér um neitt.

Í augnhæð, í hausnum
Úr augnhæð, úr hausnum.