Nærumst í núvitund

Það er september. Grillveislur sumarsins veltast enn um í meltingakerfinu.

Bjórþambið liggur á bumbunni.

Mánuður af mánudögum er framundan.

Mataræðið jafn spennandi og Eldhúsdagsumræður

Skammtastærðir í nanóeiningum

Bragðið jafn gómsætt og súrefni

 

HVAÐ við borðum mun nú taka stakkaskiptum.

Sykurlaus september. Enginn bjór fram að jólum. Ekkert gos. Út með brauð.

Þegar einhver annar stýrir skútunni um hvað fer upp í túlann á okkur upplifum við frelsisskerðingu.

Uppreisnarseggurinn byrjar að leika lausum hala.

 

Skítt með’ða… ég hætti bara á þessum kúr og fæ mér brauð… með smjöri.. og jólaköku í desert.

 

img_6572

Það skiptir þess vegna meira máli að breyta HVERNIG við borðum.

Að borða hægar.

Að virkja öll skynfærin þegar við borðum.

Að velta fyrir sér bragðinu. Áferðinni. Lyktinni.

 

 

Góð ráð til að nærast með núvitund.

Skiptu yfir í minni hnífapör. Jafnvel barnahnífapör. Þá tekur lengri tíma að raða matnum á gaffalinn.

Skiptu í minni diska. Það blekkir augað að við séum að fá meira.

Fylltu diskinn af grænmeti og salati. Það fyllir magann án þess að dúndra inn of mörgum hitaeiningum.

Ekki nota gaffal eins og skóflu til að moka upp í þig.

Notaðu gaffal eins og spjót til að stinga í matinn og raða fallega uppá hann.

Leggðu frá þér hnífapörin um leið og þú hefur stungið bitanum upp í þig.

Tyggðu allavega 15 sinnum. Prófaðu að tyggja aðeins hægar en þú ert vanur.

Virkjaðu öll skynfærin. Veltu fyrir þér bragðinu. Lyktinni. Áferðinni.

Taktu upp hnífapörin þegar þú hefur kyngt og munnurinn er tómur.

Ef þú ert með brauðsneið eða epli eða annan mat sem þú borðar með höndunum: leggðu hann frá þér milli bita og ekki taka upp aftur fyrr en þú hefur kyngt.

 

Þegar við hægjum á okkur við að borða og nærumst með núvitund getum við borðað það sem við elskum og elskað það sem við borðum.

Þegar við borðum til að næra bæði líkama og sál byrjum við ósjálfrátt að taka betri ákvarðanir í matarvali.

Það eru engin boð og bönn.

Engar reglur og refsingar. Pláss fyrir bæði kjúkling og súkkulaði. Grænmeti og lakkrís. Rauðvín og skyr.

 

Ragga Nagli verður með námskeið í að Nærast með núvitund í Gló, Fákafeni, þriðjudaginn 13. september.
Skráning og upplýsingar á www.glo.is

a39a6055

One thought on “Nærumst í núvitund

  1. Pingback: Hinn frægi prótínís Naglans – Ragga Nagli

Comments are closed