Súkkulaðikaka í bolla

Naglinn er í súkkulaðiham þessa dagana enda súkkulaðigrís mikill.

Fátt gleður sinnið meira en heit súkkulaðikaka. Og þeyttur rjómi á kantinum ætti að vera bundið í stjórnarskrána.

Það er löngu skjalfest að síðasta kvöldmáltíð Naglans verður þriggja rétta dinner af súkkulaðiköku með þeyttum rjóma í öll mál.

En það er víst ekki hægt að gúlla svoleiðis gúmmulaði alla daga án þess að negla of miklu á belginn.
Hvað gera bændur þegar löngunin ætlar holdið lifandi að éta?

Nú þá skellir maður í bráðholla og löglega súkkulaðiköku fyrir eina hræðu.

Tekur aðeins örfáar mínútur svo púkinn þarf ekki að berja lengi á hlustinni.

Púkakvikindinu er algjörlega haldið í skefjum með allskonar gleðilegheitum yfir vikuna og engin ástæða til að detta í sukkið uppúr þurrum þrettánda því sinnið er hamingjusamt.

Naglinn er með “Joey syndrómið” og deilir helst ekki mat. En oftast nær er Naglinn ein í áthamnum og því eru einstaklingsporsjónir af gúmmulaði eins og þessi bollakaka sérstaklega hentugar.

IMG_4068

Súkkulaðikaka í bolla

1.5 msk kókoshnetuhveiti

1.5 msk hreint skyr (t.d Örnu)

1 tsk lyftiduft

1 msk NOW kakó

1 msk NOW möndlumjöl

1 eggjahvíta

1 tsk Better Stevia eða NOW erythritol

2-3 msk vatn eða ósætuð Isola möndlumjólk (bæta við vökva ef of þurrt)

  1. blanda öllu gumsinu saman með töfrasprota í þykkt deig. Hella í smurðan bolla og henda í örrann í c.a 1 og hálfa mínútu.

IMG_3848

IMG_3949

IMG_3952

Með jarðarberjaflöffi….hólý Móses og konan hans.

En berrössuð kaka án krems er ekki gúdderað í veröld Naglans, og horað súkkulaðikrem sem tekur örfáar sekúndur er töfrað framúr erminni.

Horað súkkulaðikrem

1 msk ósætað kakó (t.d Hershey’s=

1 tsk Erythritol

3 tsk eggjahvítur

Hræra eins og vindurinn þar til verður að dásamlegu glassúr og smyrja ofan á kökuna.

IMG_3957

Næringargildi

160 kcal

16g prótín

6g kolvetni

7g fita