Ís í brauði

Það er gríðarlega mikilvægt að æfa alla vöðvahópa fyrir jafnvægi í virkni líkamans. Einnig til að koma í veg fyrir meiðsli og viðhalda ákjósanlegri virkni og hreyfiferli í öllum liðamótum og vöðvahópum. Margir átta sig ekki á að líkaminn er ein heild og allir líkamshlutar vinna saman. Þegar misræmi er í styrk og stærð milli líkamshluta leiðir það til óeðlilegrar líkamsstöðu og líkamsbeitingar.

Gott æfingaprógramm inniheldur æfingar sem fara í gegnum allar mögulegar hreyfingar líkamans. Nauðsynlegt er að gera bæði “push” æfingar (bekkpressa) og “pull” æfingar (róður). Það þarf að vera jafnvægi í styrk og stærð milli “flexor” vöðva sem kreppast (tvíhöfða) og “extensor” vöðva sem lengjast (þríhöfða).

Mjög margir, karlmenn sérstaklega, falla í þá gryfju að æfa bara það sem sést í speglinum: Brjóst, tvíhöfða, stundum þríhöfða og kvið.

Það er alltof algengt að fólk sleppi bara að æfa heilu líkamshlutana.

Til eru þeir sem kreppa kviðinn eins og enginn sé morgundagurinn í þeirri trú að bjórkippan láti nú sjá sig. Til þess að fá sterkan kvið þarf líka að styrkja mjóbakið sem styður á móti kviðvöðvunum. Þessir vöðvar vinna saman að því að styrkja miðjuna.

Þegar bekkpressan er tekin gegndarlaust en bakið fær sama og enga athygli fara axlirnar að síga fram því bakvöðvarnir eru ekki nógu sterkir til að toga á móti sterkum brjóstvöðvunum. Þá sést algengt vaxtarlag, hokinn með risastóran kassa og hendurnar hanga niður fyrir framan lærin.

Mjög algeng meiðsli meðal lyftingafólks og íþróttafólks er klemmdur rotator cuffí öxl. Rotator cuff er pínulítill vöðvi framan á axlarvöðva. Þessi meiðsli koma fram þegar mikið er unnið fyrir ofan höfuð (axlapressa, bekkpressa, tennis, badminton) en fáar sem engar æfingar gerðar á móti fyrir fremri öxl og rotator cuff.

Margir pumpa bíseppinn út í hið óendanlega til að fá stórar byssur, en eru ómeðvitaðir um þá staðreynd að það er í raun þríhöfðinn sem veitir þykktina á handleggjunum. Þríhöfðinn er stærri vöðvi en tvíhöfðinn (þrjú höfuð vs. tvö)og þolir meiri þyngd og verður stærri að ummáli en tvíhöfðinn og handleggirnir virðast stærri fyrir vikið.

Til er sérstakt prógramm sem Naglinn kallar blómvandar – prógrammið, eðaís í brauði – prógrammið. Þá er efri hluti líkamans æfður samviskusamlega en fæturnir nánast aldrei. Mörgum þykir erfitt og vont að æfa fætur, og sleppa þeim þá bara. Þetta prógramm er mjög algengt meðal karlmanna en þó má finna einstaka konu sem er haldin þeirri fásinnu að fótaæfingar geri fæturna stóra.
Afleiðingin hjá karlmönnum verður líkamsvöxtur sem minnir á blómvönd eða ís í brauði, þar sem efri hlutinn er stór og stæltur en neðan mittis eru tveir vesælir stilkar.

upper body day
Hjá konum má oft sjá stæltan efri búk, en fæturnir ennþá perulaga með pönnukökurass.
Með því að æfa aldrei fætur erum við að sleppa stærsta vöðvahóp líkamans.
Sterkir fætur hjálpa við að hlaupa og hjóla hraðar, auðveldar allan burð t.d á kössum og innkaupapokum og auðveldar hið daglega líf eins og bara að ganga upp stiga.

Svo má ekki gleyma þeim sem refsa járninu en stunda ekki þolæfingar nema í hlekkjum. Þeir eru að gleyma mikilvægasta vöðva líkamans sem er hjartað. Styrking hjarta- og æðakerfisins skilar sér ekki bara í betri heilsu heldur höfum við líka betra úthald í lyftingarnar, svo ekki sé minnst á hin daglegu verk.

Öfgarnar á móti er spandex klæddi hópurinn sem er samgróinn við þrekstigana og hlaupabrettin. Þar eru kynsystur Naglans í meirihluta. Hver kannast ekki við týpuna sem er skinn og bein og herðablöðin standa út því bakið er svo aumt að það ræður ekki við að halda þeim saman? Styrktarþjálfun með lóðum gefur ekki bara aukna grunnbrennslu, sterkir vöðvar styrkja líka við bein og liði og ekki veitir okkur kvensunum af þegar beinþynningin vofir yfir eins og hrægammur í eyðimörk.