Naglinn er algjört kökusvín og sykurpúki og gæti auðveldlega slátrað heilli köku án þess að blikka auga, enda matarlystin og magamálið eitthvað sem mun fara í sögubækurnar.
Þess vegna á Naglinn heilt vopnabúr af hollustugúmmulaði og finnur því aldrei til vanþurftar.
Þegar gúmmulaði og gleði í hollustukökum er troðið í smettið á hverjum degi þarf enginn að líða skort og slátra sykruðum kaloríuríkum hnallþórum sem skila engri næringu, bara sykursvita og samviskubiti.
Naglinn átti afmæli nýlega og gúllaði einni hollustuköku í morgunsárið, af því kaka vekur gleði og hamingju, og þegar við erum hamingjusöm í munnholi og sinni eru minni líkur á að við verðum fórnarlömb sykurpúkans sem vill ekkert heitara en að draga okkur niður í svaðið til sín.
Afmælissúkkulaðikaka Naglans (low-carb)
1.5 msk kókoshnetuhveiti (t.d Dr. Goerg)
1.5 msk hreint skyr/kvark/grísk jógúrt (1%)
1 tsk lyftiduft
1 msk kakó
1 msk NOW möndlumjöl
1 eggjahvíta
1 msk súkkulaði prótínduft (má sleppa)
1 msk sætuefni t.d NOW erythriol eða Sukrin
2-3 msk vatn eða mjólk
1. Blanda öllu saman með töfrasprota þar til það verður að þykku deigi. Hella deiginu í smurðan kaffibolla eða djúpa skál og láta Örvar (örbylgjuofn) vinna fyrir kaupinu sínu í c.a 2-3 mínútur (fer eftir hversu öflugur þinn Örri er), þar til hníf sem er stungið í miðjuna kemur tandurhreinn upp.
Leyfa henni að kólna í nokkrar mínútur áður en þú hvolfir úr skálinni á disk.
Toppa með horuðu súkkulaðikremi og horuðum þeyttum rjóma
Kaka sem ekki er íklædd kápu úr þeyttum rjóma er sóun á áti. Uppgötvunin á horuðum þeyttum rjóma úr undanrennu bjargaði lífi Naglans enda átsvín par exelans. Sjá hér
Ég bara spyr… hver þarf að finna til vanþurftar þegar svona dýrðir eru á boðstólum daglega??
Það gerist bara hjá þeim sem eru fangar eigin ímyndunarafls í þurrum og einhæfum snæðingum.
Naglinn notar yfirleitt ekki hefðbundið hveiti í bakstur, heldur kókoshnetuhveiti, möndlumjöl eða malað haframjöl.
Möndlumjöl frá NOW er frábær kostur í low-carb bakstur. Fæst í flestum matvöruverslunum á Fróni