Það eru fáar stundir gleðilegri hjá Naglanum en þegar snæðingur er í gangi og nær allar máltíðir valda ofvirkni í munnvatnskirtlum og hamingju í hjarta. Það eru þó fáar máltíðirnar sem toppa hafragrautinn og Naglinn gæti auðveldlega sporðrennt því góðgæti í allar sex máltíðir dagsins. Stundum er framtíðarátsspennan svo mikil að svefninn bíður hnekki sökum tilhlökkunar.
Á morgnana er líkaminn eins og svampur eftir föstu næturinnar og vöðvarnir öskra á orku. Því er þetta besti tíminn til að fá sér hæglosandi kolvetni til að fylla á birgðirnar og halda brennslunni gangandi í 2-3 tíma fram að næstu máltíð.
Hafrar eru trefjaríkir, fitulitlir, og innihalda prótín, járn og ekkert kólesteról. Þeir eru meðal annars taldir lækka magn LDL kólesteróls (þetta Leiðinlega) í líkamanum. Þeir frásogast hægt í líkamanum og því ertu saddur vel og lengi með stöðuga orku fram að næstu máltíð.
Þeir sem fussa og sveia núna, og segja að hafragrautur sé óæti og horbjóður eru einfaldlega ekki nógu hugmyndaríkir í eldhúsinu. Berrassaður bragðlaus grár grautur tilheyrir áttunda áratugnum ásamt Sóda Strím tækinu.
Hafragrautur er nefnilega eins og auður strigi málarans – krydd, kanill, ávextir, sykurlaus sulta, bragðdropar, sykurlaust síróp, hnetur og fleira gúmmulaði eru pensillinn sem heilsumelir beita til að gera grautinn að úrvals gúrmeti.
Hér koma nokkrar hugmyndir að afbragðsgraut.
Hafið í huga að hitaeiningar aukast verulega við að bæta við fitugjafa (hnetur/hnetusmjör)
- Vanilludropar, kanill, múskat, niðurrifið epli
- Vanilludropar, kókosdropar, kanill, múskat, niðurrifin gulrót, hakkaðar valhnetur
- Súkkulaði prótínduft, kókosdropar
- Bláber eða jarðarber: hita í örra í 15-20 sek, hræra í mauk og hella yfir. Eða hræra frosnum berjum við graut við eldun.
- Niðurskorinn banani, heitt hnetusmjör
- Vanillu prótínduft, niðurskorin ferskja
- Súkkulaði prótínduft, piparmintudropar
- Hnetusmjör og hituð jarðarber í örbylgju
- Hreint ósykrað eplamauk, kanill, pekanhnetur
- Rommdropar, steiktur banani (helst eldri en sólin) með sykurlausu sírópi
- Rifin gulrót, rúsínur, pekanhnetur
- Vanilludropar, trönuber, valhnetur
- Vanillu prótínduft, rifsber, skvetta af sítrónu/lime safa
- Vanillu prótínduft, klementína í teningum (sett út í eftir eldun, rétt til að hitna)
- Kanill, múskat, vanilludropar, rommdropar, möndlumjólk
- Kirsuber, kókosmjöl, vanilluduft
- Möndludropar, rúsínur, blá sojamjólk
- Kanilbökuð epli, sykurlaust karamellu síróp
- Appelsínudropar, rifinn appelsínubörkur
- Hvítt súkkulaði prótínduft, bananar, rúsínur, sykurlaust karamellu síróp
Verði ykkur að góðu !!
Pingback: Flöffmeister 3000 – Jarðarberjagleði | ragganagli
Pingback: Dagur í lífi Naglans – Ragga Nagli