Vissir þú að Tíramísú þýðir “lyftu mér upp” á ítölsku? Og ef þessi grautur lyftir þér ekki upp úr bælinu í morgunsárið alla leið upp í sjöunda himin þarftu að láta athuga starfsemi bragðlaukanna á næstu heilsugæslustöð.
Ein sneið af tíramísú inniheldur hátt í 500 karólínur og 30 grömm af fitu meðan þessi morgungleði er ekki nema rétt um 200 kvekendi og 2 grömm af fitu.
Þú vilt ekki að þessi máltíð taki nokkurn tímann enda.
Tíramísútriffli
1 skammtur
Grautur:
40g haframjöl
1-2 msk NOW psyllium Husk
2 msk NOW erythritol
1 msk ósætað kakó (Hershey’s)
1/2 tsk kanill
1 tappi rommdropar (Kötlu)
1 tappi vanilludropar (Kötlu)
1 dl lagað og kælt kaffi
3 -4 dl vatn
Vanillukrem
75 g kotasæla
75g kvark/hreint skyr/grísk jógúrt
1 msk NOW erythritol
Now Better Stevia French vanilla
rifinn appelsínubörkur
1 msk Isola möndlumjólk
Aðferð:
1. Blanda öllu saman í grautinn í grýtu og kokka á gamla móðinn á eldavél eða í Sistema örbylgjuskál (fæst í Nettó) í örranum í 2-3 mínútur.
2. Leyfa grautnum að kólna í pottinum meðan kremið er mallað.
3. Hræra öllu saman í kremið með töfrasprota þar til mjúkt eins og nýskeindur barnsrass.
4. Raða í lögum í gamla sultukrukku – grautur og krem þar til allt er uppurið. Enda á kremi og dusta smá kakói yfir kremið.
5. Kæla í a.m.k 2 tíma eða helst yfir nótt
Þessa gleði má toppa með allskonar ávöxtum eins og sneiddum banana, kirsuberjamauki (kirsuber örruð með nokkrum dropum af NOW Stevia) eða meira af rifnum appelsínuberki.
Eins og Ítalar myndu segja…..buon appetito
* Allt stöffið í gúmmulaðið fæst í Nettó
Pingback: Dagur í lífi Naglans – Ragga Nagli