Crepsur Naglans

PhotoGrid_1417768310855

Ylvolgar þunnar pönnsur færa Naglann aftur í tíma í eldhúsið hjá ömmu í Safamýrinni með RÚV ómandi í bakgrunni, þar sem sú gamla hafði ekki undan að steikja ofan í velmegunarvömb barnabarnsins sem sporðrenndi hverri á fætur annarri upprúllaðum með sykri. Naglinn hefur jú alltaf verið yfirburðamanneskja þegar kemur að áti innanhúss án atrennu.

Þessar pönnsur eru með talsvert hollara næringargildi en slá þó forverum sínum ekkert eftir hvað varðar bragð og áferð. Og rúllað upp í vöndul með NOW erythritol sáldrað yfir til að fá knas undir tönn sendir nostalgíustrauma niður hrygginn og Gerður B. Bjarklind byrjar að hljóma í öftustu kimum heilans. Dánarfregnir og jarðarfarir.

Baunaprótín er guðsgjöf til okkar heilsugosanna því það veitir unaðslegt mjúkelsi í bakstur, og gefur þykka og skemmtilega áferð…. og Naglinn sver við handlóð og ketilbjöllur að þú finnur ekki baunabragð.

IMG_8853

Crépes Naglans
3 þunnar eða 6 þykkar

150g eggjahvítur
1/2 skófla NOW baunaprótín
1 msk NOW möndlumjöl (almond flour)
1 msk Isola möndlumjólk
Better Stevia vanilludropar
sykurlaust pönnukökusíróp eða mapledropar

PhotoGrid_1417768446299

Aðferð:

1. Öllu dömpað í bökunarskál og hrært saman með töfrasprota.
2. Hella 1/3 af deginu á sjóðandi heita pönnukökupönnu og dreifa vel úr. Steikja báðum megin.
3. Endurtaka leikinn fyrir restina af deiginu.

Toppa með horaðri súkkulaðisósu, jarðarberjum, sykurlausri sultu, sneiddum banana, þeyttum rjóma úr undanrennu, eða hverju sem hugurinn girnist. Nú eða bara sáldra erythritol og rúlla uppá gamla móðinn.

Í öðrum fréttum er það helst að heilsuvæðingin heldur áfram með fleiri matreiðslunámskeiðum Naglans í janúar 2015. Nákvæmar dagsetningar verða tilkynntar fljótlega en sendið tölvupóst á ragganagli79@gmail.com til að komast á biðlista.