Jólagleðin

Jólin eru í næstu viku góðir hálsar.  Hvað er það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar þú hugsar um jól? Hjá flestum er það ómannlegt magn af mat, jólasteik, smákökur, sósa, brúnaðar kartöflur und so weiter.  Það er oft gantast með þessi 2,5 -5 kg sem hleðst utan á mannskapinn yfir hátíðirnar.  Sumir hugsa á nótum Baggalúts um jólin “Fokk itt, skítt með það, fáum okkur ögn meiri rjóma. Ég plokka þetta af eftir áramótin”.

 

Lykillinn að langtímaárangri er að tileinka sér hugarfar að þetta sé lífsstíll en ekki “megrun” sem hefur endapunkt.
Þú ert að borða svona af því það er lífsstíll og það þýðir að þú getur fléttað hátíðarát inn í planið þitt.
Allur desember og jólin sjálf eru stór áskorun þar sem smjör drýpur af hverju húsþaki og bakkelsi á boðstólum í hverju koti.  Það eru eflaust mörg samviskubitin sem naga sálir landans um þessar mundir.  Ekki eingöngu sammari yfir að leyfa sér slíkt gúmmulaði heldur hræðslan við að hafa pissað í skóinn þinn eftir blóð svita og tár í ræktinni.  Ekki nema að þú hafir troðið andlitið út af heilum konfektkassa þarftu ekki að hafa gríðarlegar áhyggjur. Við erum að gera þetta að lífsstíl og það þýðir að njóta hátíðanna í mat og drykk.

 

Besta ráðið þegar kemur að fríum, hátíðaráti og öðrum viðburðum er að halda sig við planið í þeim máltíðum sem við höfum stjórn á.
Sem þýðir að þó smákökur flæði úr öllum skápum heima hjá þér þarftu ekki að éta spesíur og piparkökur í hvert mál.  Það er ekkert til sem heitir að “læðast”upp í mann. Þó að veisluborðin svigni undan hamborgarahrygg með pöru og alles þarftu ekki að vera allan daginn í sukkinu bara af því það eru jólamatur í kvöldmat.

 

 

Næsta ráð er að stjórna skammtastærðunum í þeim máltíðum sem við höfum ekki stjórn á.
Ef þú ert að taka hliðarspor eru það fjöldi hitaeininga sem ræður hvaða áhrif þetta hliðarspor hefur á rass og mjaðmir.  Fáðu þér eðlilegan skammt, og þú ert í góðum málum.  Borðaðu yfir þig á aðfangadag, jóladag, annan í jólum, gamlárskvöld, nýársdag, með konfekt og smákökur á kantinum hina dagana þá geturðu tryggt að þú takir ansi mörg skref afturábak.  Þú getur gulltryggt tárvotan kodda í janúar.

 

 

Farðu inn í jólin með aðgerðaráætlun, þú ætlar að halda þig á beinu brautinni í meirihluta máltíða.Hinsvegar skaltu gera ráð fyrir sveigjanleika og fyrirgefningu fyrir syndir á sama tíma og þú horfir raunsætt á hlutina og þær væntingar sem þú gerir til þín. Alveg sama hvað þú ert búin(n) að plana niður í öreindir þá mun alltaf koma upp aðstæður sem setja planið úr skorðum. Yfir hátíðirnar þarftu að hafa plan, ef það þýðir að plana aðeins fleiri frjálsar máltíðir þá “fokk itt, skítt með það”.  Hvað með árangurinn? Nokkrar máltíðir hér og þar munu ekki drepa niður það sem þú hefur djöflast í að skafa af/byggja upp í allt haust.
Sérstaklega ekki ef þú passar skammtastærðirnar og hve mikið þú borðar eins og áður hefur komið fram.
Það sem rústar öllu er stöðugt sukk í fleiri daga þar sem hver einasta máltíð er algjört rugl. Þegar þú lokar augunum fyrir þeim ákvörðunum sem þú tekur og þeim afleiðingum sem þær hafa á sálartetrið og skrokkinn.

 

 

Leyfðu þér að njóta þín.  Þegar þú ert meðvituð/aður og raunsæ(r) eru minni líkur á að þú borðir yfir þig, eins og gerist þegar við lítum á matinn sem svindl og eitthvað bannað.
Haltu áfram að æfa yfir hátíðirnar, borðaðu að mestu leyti hollar máltíðir og skildu eftir smá pláss fyrir hliðarspor.  Ekki reyna að vera fullkomin(n) því það er óraunhæft og passar ekki inn þá hugsun að þetta sé lífsstíll. Ekki hugsa heldur “fokk itt, skítt með það, konfekt í morgunmat á jóladag”, það passar heldur ekki inn í lífsstílshugsun.

 

 

Farðu inn í jólin sem skáti “Ávallt viðbúin(n)” með plan og jafnvel loforð sem þú gefur þér sjálfum/sjálfri.
Taktu ábyrgð á eigin hegðun: “If you fail to plan, you plan to fail”.  Ef þú ert ekki með plan, stjórnar ekki máltíðum sem þú getur stjórnað, laumar upp í þig bakkelsi milli mála í óhófi og bætir þar af leiðandi á þig mör yfir jólin, þá er það engum að kenna nema þér og þú getur ekki agnúast út í neinn nema þig.  Só sorrý!!