Þú þarft að kaupa þér sérhljóða eftir að borða þessa sykurlausu berjaböku.
Enginn sykur. Ekkert hvítt hveiti. Bara unaður. Hollusta og hamingja. Gleði og gúrmeti.
Tryllingsdansinn sem upphefst þegar heit berin og bananinn koma saman í haframjölskrönsi undir tönn er eins og unglingadrykkja á Þjóðhátíð.
Og Ó svo einfalt og yndislega fljótlegt.
Því hver nennir að snuddast í marga tíma hlekkjaður við eldhúsborðið?
Það er hægt að gera þessa dásemd veganvæna með að skipta út beljusmjörva fyrir vegansmjör. Það er líka hægt að gera þessa enn horaðri með að nota eplamús í staðinn.
Uppskrift
Haframulningur
1 dl Himnesk hollusta fínmalað haframjöl
1 dl NOW möndlumjöl
1 dl NOW erythritol eða xylitol
1 tsk kanill
klípa salt
4 msk Létt og Laggott eða vegansmjör eða ósætuð eplamús
Hnoða saman með höndunum í krönsjí krömbl. Gott að bleyta hendurnar áður. Ef þú ert að fá gesti geturðu búið í haginn með að búa til krömblið fyrirfram og geyma í kæli
Fylling
125 g fersk eða frosin jarðarber smátt skorin
125 g fersk eða frosin bláber
hálfur banani skorinn í sneiðar
2 msk Rain Forest kakónibbur (fæst í Nettó)
Raða berjunum í eldfast mót og raða banana ofan á berjablönduna. Sáldra kakónibbum yfir allt galleríið. Líka hægt að nota önnur ber.
*Líka hægt að nota frosin ber.
Sáldra krömblinu yfir berjablönduna.
Baka í 25 mín í 175° C
Bera fram með ís eða þeyttum rjóma eða horuðum sprauturjóma.
Og unaður í áttunda veldi að drissla heitri horaðri súkkulaðisósu yfir kaldan ísinn.
Svo bara njóta í núvitund.