Þessi kjúllaréttur er svo mikið uppáhalds.
Það er eitthvað við tætt og tægjað kjöt sem fær áferðarperrann í gininu til að skríkja af gleði.
Og kakói blandað saman við ásamt heitum kryddum, reyktu bragði og nettu chili mætir súkkulaðiperrinn á kantinn, og standandi eftirpartý upphefst í munninum.
Það besta við þennan tjásaða kjúllarétt er að hann þarf enga barnapössun. Það þarf ekkert að svitna yfir pottunum, og hræra, steikja og sjóða eins og galeiðuþræll.
Bara þrykkja saman í pott og leyfa kjötinu og sósunni að dansa saman í ofninum og málið er dautt. Þegar kjötið er klárt þarf ekkert að gera nema tæta það í sundur í tægjur.
Tjásaður kakókjúlli
700g kjúklingabringur skornar í tvennt
1 dós hakkaðir tómatar
1 msk balsamedik
2 msk ósætað kakó, t.d Himnesk hollusta
1 msk kúmín (ath ekki kúmen)
1/2 msk reykt paprika
1/2 tsk cayennepipar eða chiliflögur
1 tsk sjávarsalt
1 tsk svartur pipar
Aðferð:
1) hita ofninn í 225°
2) Blanda saman öllum innihaldsefnunum og henda í pott sem þolir hita. T.d steypujárnsbrjálæðing.
3) Leyfa að malla í ofninum í 90 mínútur.
4) Tæta kjötið í sundur með tveimur göfflumm og leyfa að liggja í sósugumsinu í allavega 10 mínútur áður en borið fram.
Gordjöss með góðu salati og hrísgrjónum eða kartöflum, eða sem fylling í tortillu.
Gott hummus og tzatziki á kantinn
Ef þú vilt fá frekari innblástur í hollustuna þá er matreiðslunámskeið Naglans eitthvað fyrir þig.
- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Icepharma og Nettó.