Klámfengnar Kofta bollur

Naglinn býr í stærsta innflytjenda og múslima hverfi Kaupmannahafnar og því óhjákvæmilegt að borða ekki reglulega á tyrkneskum veitingastöðum.

Eldamennskan og matreiðslan hefur ratað inn í eldhúsið og Naglinn því orðin vel sjóuð í öllum þessum uppskriftum með skrýtnu nöfnin.

Þessar Kofta bollur eru ólöglega gómsætar. Kofta bollur eru hakkbollur með allskonar kryddum í deiginu. Þær nefnast stundum shish Kofte.
Þær eru yndislega einfaldar, fljótlegar og gómsætar.

Þær slógu rækilega í gegn í nýlegu matarboði Naglans með þjálfara sínum Birgi Konráðssyni þjálfara með meiru og fjölskyldu hans.

Þar voru þær bornar fram með dásamlegu salati, hrísgrjónum, heimagerðu hummus og tzatziki.

 

 

Kofta bollur

500g 4% Nautahakk (fæst í Kjöthöllinni)

2 msk fínt söxuð Steinselja

2 msk fersk söxuð minta eða 1 tsk þurrkuð minta

1 hvítlauksrif marið

1 x fínt saxaður Rauðlaukur

1 ½ tsk allrahanda

Salt + pipar

1 ½ tsk Kanill

½ tsk Múskat

 

Aðferð:

Kreista mesta vökvann úr söxuðum rauðlauknum.

Blanda hakki, lauk og kryddum vel saman í skál.

Móta bollur með blautum höndum.

Steikja á pönnu í 1 tsk hitaþolinni olíu t.d ólífuolía frá Himnesk hollusta.

Bera fram stofuheitar eða sjóðandi heitar með dýfum, villtri hrísgrjónablöndu frá Himnesk hollustu og góðu salati.

  • Ef möguleiki og nægur tími, þá er gott að setja deigið í kæli í 1-12 klst til að leyfa kjötinu að sjúga í sig bragðið af kryddunum.

Ef þú vilt læra meira af hollri miðausturlenskri matargerð þá er matreiðslunámskeið Naglans eitthvað fyrir þig