Nú er haustið komið hér í Köben og rigningin grenjar á rúðunni þar sem hver haustlægðin á fætur annarri herjar á Baunann. Þá er tími fyrir huggulegt haustmeti með kjeti eins og í eldhúsinu hennar mömmu í gamla daga.
Í þennan rétt prófuðum við hjónin svínakinnar. Danmörk eru mikið svínaræktunarland og hægt að fá allskonar framandi parta af svíni í matvörubúðunum. Hala, klaufir, hjörtu, lifur og kjálka eða kinnar.
Í þennan rétt má samt vel skipta kinnunum út fyrir lambaskanka eða annað kjöt sem hentar til hægeldunar.
Haustmeti með kjeti
500g svínakinnar eða lambaskankar
1 blaðlaukur
3 gulrætur, saxaðar
2 sellerístilkar, saxaðir
salt og pipar
1 msk ólífuolía
1 laukur, saxaður
1 hvítlauksrif, pressað
300 ml vatn + 1 teningur (kjúklinga, lamba)
1 tsk rósmarínkrydd
1 tsk oreganókrydd
- Kryddið kinnar (eða skanka) með salti og pipar.
Hita olíu og steikja kjötið á öllum hliðum þar til brúnt allan hringinn. - Steikja blaðlauk, gulrót og sellerí á pönnu í nokkrar mínútur. Bætið við hvítlauk, kjötinu og kryddum saman við og látið malla.
- Bætið krafti saman við og látið suðuna koma upp og dúllast í nokkrar mínútur. Setja allt gumsið í steypujárnspott sem þolir hita og látið í 150°c heitan ofn í 1½ klst, eða þar til kjötið er fulleldað.
- Berið fram með hrísgrjónum eða kartöflum eða kartöflumús og góðu salati.
Så lækkert!!