Þegar lífið hendir í þig sítrónum (því það var tilboð á þeim í búðinni), þá býrðu ekki til sykursósað límonaði, ó næ næ frú Stella, ekki heilsumelir. Þeir skella í ljúffenga og horaða sítrónuköku. Þessi passar súper vel í kvöldsnæðing því þegar sykursnúðurinn vill láta á sér kræla yfir imbakassanum síðla kvölds er fátt dásamlegra en að eiga köku til góða sem má slafra samviskulaust í smettið.
Sítrónukaka Naglans
1 skammtur
Innihald:
2 egg
2 eggjahvítur
2/3 sítróna (+ rifinn börkur)
30g NOW vanilluprótín
20g kókoshnetuhveiti, t.d Dr. Goerg
1 msk Sukrin Gold
2-3 msk hrært hreint skyr/kvark/kesam
Aðferð:
1. Hræra saman egg og Sukrin Gold og pressa sítrónusafa yfir. Þetta er eggjahræran þín.
2. Stífþeyta 2 eggjahvítur og setja til hliðar
3. Blanda þurrefnunum saman og bæta út í eggjahræruna (Sukrin + egg) smám saman
4. slumma skyri útí þar til þú færð deig úr gumsinu.
5. hræra stífþeyttum eggjahvítum saman við með sleikju/sleif.
6. Setja í lítið brauðform og baka á 175°C í 25-30 mín
Glassúrinn er kesam/skyr hrært með NOW sítrónudropum (Nettó, Fjarðarkaup, Lifandi Markaður) og Sukrin flormelis. Slummað yfir kökuna og strá rifnum sítrónuberki yfir alle sammen.
Gleði, gleði í gininu ójá.