Júggi Vinstri – pistill í Kjarnanum

Þessi pistill frá Naglanum birtist í Kjarnanum fyrir skömmu.

Júggi vinstri

Hugsanavillur sem ber að varast svo þú haldir markmiðum þínum í líkamsræktinni á nýju ári.

Venju samkvæmt í byrjun árs loga Fésbókin, Tístið og bloggheimar af yfirlýsingum um bót og betrun á sjálfi og skrokk. Út með rettur, minnka mjöð, missa mör, hlaupa hraðar, lyfta þyngra, kjöta skrokk, komast í þrengri föt. Það vantar ekki stóru orðin sem básúnað er í eyru náungans.

2014 skal verða árið sem þú hakar við markmiðin og hananú….

Hvert gígabæt netsins skannað í örvæntingarfullri leit að skotheldu æfingaplani og sjóðandi matarplani til að bræða slen og sættast við samviskuna. Með útprentað og plastað æfingaplan er arkað í musteri líkamans til að hefjast handa við hið nýja sjálf.

 

Nú skal það takast! Að verða þessi hressi og stælti með prótínsjeik innan seilingar og allt á hreinu í lífinu.

 

Heldur fer þó að halla undan fæti eftir því sem sól hækkar á lofti, nýjabrumið lekið af planinu og afsakanabókin stútfull samhliða færri ræktarmætingum. Nammikvöldum og flatbökuúttroðelsum fjölgar eins og gorkúlum. Áður en þú veist af eru aftur komin áramót og þú verið dyggur styrktaraðili líkamsræktarstöðvanna enn eitt árið. Plastaða “gullplanið” liggur rykfallið ofan í tösku innan um grjótmyglaðar strillur og svitamorkið pungbindi.

Af hverju er bara brotabrot af þeim sem leggja upp í sjálfsbreytingar sem þrauka framyfir Góumánuð, þrátt fyrir fögur fyrirheit og stóra drauma? “Ohhhh… ef ég hefði bara haldið mínu striki í fyrra…..”

 

Tvennt sem ber að varast

 

Í fyrsta lagi er ekki verið að festa nýja heilsuhegðun í sessi með þeim styrkingaraðferðum sem hún krefst, heldur er verið að þvinga fram nýja hegðun með tilheyrandi boðum og bönnum.

 

Í stað þess að taka litlar breytingar á venjum sem leiða til langtímabreytinga, er farið beint í að kúvenda hegðun á einni nóttu.  Ræktin sex sinnum í viku. Púla, púla, með glampa í augum og eld í æðum. Lyfta eins og Scania trukkur, hlaupa eins og gasella, slátra ketilbjöllum.

 

Út með kolvetni, sykur, hveiti, glútein, mjólkurvörur, inn með magnesium í lítratali, eggjahvítur, prótínsjeika, aminósýrur og spínat. “Allt-eða-ekkert” hugsunin er allsráðandi. Annaðhvort ertu í mæjónesinu eða á kálblaðinu og ekkert þar á milli. Ekkert grátt svæði. Enginn diplómatískur millivegur.

 

Slík nálgun á heilsulífið er eins og alvopnaður hryðjuverkamaður sem dælir úr hríðskotabyssum sínum þar sem þú krafsar í örvæntingu í heilsubakkann og fellir þig að lokum og leiðir til hrösunar.

 

Upp kemur vanþurft, frústrasjón, innri barátta því þú ert ekki tilraunarotta í búri, þú ert manneskja með langanir, þarfir og finnur þig í allskyns félagslegum aðstæðum tengdum mat og mætir hindrunum í að komast á æfingar.

 

Og hvað gerist?

 

Þú lætur í minni pokann fyrir gömlum venjum og hugsunum því þú átt engan mótleik, engin 5-0 vörn, enginn Júggi vinstri venjulegur. Gamlar venjur öskra inni í hausnum eins og hungruð hýena. “Ég á þetta skilið eftir erfiðan dag í vinnunni.” “Fyrst ég borðaði þessa smáköku er allt ónýtt, ég get alveg eins dýft mér til sunds í Homeblest pakkanum og byrja aftur í hollustunni á morgun.” “Ég missti úr æfingu, nú riðlast allt planið svo ég get alveg eins sleppt æfingu á morgun líka.”

 

En vandinn er að á morgun vill oft teygjast fram í næstu viku, næsta mánuð, jafnvel næsta ár. Þá er byrjað að megra aftur með sultarólina í innsta gati en oftar en ekki eru öll kílóin komin til baka og jafnvel meira til. Að vera alltaf á núllpunkti dregur enn meira úr hvatanum til að halda áfram. “Ég missi ekki 5kg á viku eins og þeir í sjónvarpinu. Til hvers að vera þá að þessu brölti?”

 

Þar komum við að punkti númer tvö. Það er ekki unnið í varnarstrategíu gegn þessum gömlu eyðileggjandi hugsunum sem hingað til hafa hrint okkur útaf brautinni, heldur er byrjað á að taka U-beygju í hegðun.

 

En hugarfarsbreyting er kjarninn í lífsstílsbreytingu, því hugur stjórnar hegðun sem stjórnar heilsu.

 

Við sálfræðingar sem vinnum með fólki í þyngdartapi hjálpum því við að koma auga á eigin hryðjuverkahugsanir sem gefa leyfi til að kasta inn handklæðinu, finna mótrök við þeim og fara þannig í Morfís keppni í hausnum og jarða andstæðinginn.

“Ég á þetta skilið eftir erfiðan dag í vinnunni.”

 

Sem dæmi um mótrök við slíkri hugsun er: Ef ég verðlauna mig með mat enda ég með að borða of mikið og þá líður mér illa bæði líkamlega og andlega sem er akkúrat hið gagnstæða við verðlaun. Að vera við stjórnvölinn gefur betri líðan. Matur sem verðlaun hættir að virka um leið og maturinn er farinn. Að verðlauna sig með mat eftir erfiðan dag, eða af því maður á börn er eitt form af tilfinningaáti og það er hættuleg braut að troða. Berðu saman hvernig þér líður eftir handsnyrtingu/fótsnyrtingu/nudd sem verðlaun versus að borða sukk sem verðlaun. Að gera vel við sig á að snúast um að næra sálina, en ekki munninn.

 

Hrösun er ekki aumingjaskapur

 

Þar er jafnframt mikilvægt að breyta hugsun sinni gagnvart hrösun af brautinni. Þú ert ekki rukkari, róni eða þaðan af verra alinn upp í Gaggó Vest þó þú stingir upp í þig lúku af óplönuðum Góa rúsínum.

Frávik frá mataræði og æfingum er ekki uppspretta sektarkenndar, samviskubits eða tækifæri til að rífa fram refsivöndinn og blJafnframt pi hjálpum þeim jarðarnru þeir sem nr lærd r, hlaupa eins og gasella, ketilbjöllur g recipes i gative emotionsict ruleóðga bakið.

 

Hrösun er lærdómsferli og jafn mikilvæg og árangur til að læra inná okkur sjálf og hvernig við fúnkerum í ákveðnum aðstæðum. Þeir sem ná árangri eru ekki þeir sem hrasa aldrei, því það gera allar mannlegar verur. Þeir sem standa upp, hysja upp brækurnar og halda áfram eins fljótt og þeir geta eru þeir sem ná árangri. Við höldum nefnilega ekki áfram að hrasa þegar kemur að annarri hegðun. Ef við brjótum einn disk úr mávastellinu við uppvaskið grýtum við ekki hinum diskunum í gólfið.

Að bæta upp fyrir niðurtætta sjálfsmynd, þjakaða samvisku og útþaninn kvið með þvingaðri rækt og horuðum snæðingum býr til vítahring hlaðinn neikvæðum tilfinningum við hollustulífið. Slíkur hugsunarháttur tengir heilsusamlega hegðun neikvæðum tilfinningum – þú æfir af illri nauðsyn til að bæta upp fyrir aðra “óæskilega” hegðun en ekki af ánægju né löngun.

Slíkt neikvætt tilfinningasamband getur aldrei orðið að heilsusamlegum lífsstíl.