Súkkóhnetusmjörsgleði

Naglinn étur flest sem tönn á festir, en það sem kætir úfinn meira en nokkuð annað er súkkulaði og hnetusmjör. Þegar annaðhvort þessara, eða sameining þeirra, gutlast ofan í svartholið verður hamingjusprenging í svartholinu.

Þessi bakaði grautur verður yrkisefni komandi kynslóða, og mun eflaust fá sinn eigin ljóðabálk þegar fram líða stundir. Harmónísering súkkulaðibragðsins við bráðnaðan bananann er fullkomnuð þegar hnetusmjörseffektinn mætir í partýið og hækkar í græjunum.
Naglinn uppgötvaði PB2 eða fitusnautt hnetuhveiti fyrir nokkrum árum, og englakór með hörpur birtust af himnum ofan. Hér er hnetan strípuð af fitunni sinni með ókemísku ferli.

PB2

Þessi afurð gerir hnetusmjörs sjúklingum kleift að borða meira af þessu unaðslega bragði án þess að bæta við of mörgum karólínum. Blandar smá af duftinu í vatn og voilá.. komið hnetusmjörslíki. Eins er hægt að drýgja hnetusmjörsskammtinn sinn með að hræra því útí.
Nú eða hræra út í allskonar uppskriftir til að fá hnetubragðið, eins og þessa hér.

 

Bakaður súkkó-hnetusmjörs-bananagrautur (vá þetta er tungubrjótur)

1 skammtur

 

Chocolate-peanutbutter-oatmeal

 

40g haframjöl
2 mæliskeiðar HUSK
1/2 tsk lyftiduft
klípa salt
2 tsk ósætað kakó (t.d Hershey’s)
1 tsk PB2
banani skorinn í bita eða stappaður (Naglinn vill bitana til að fá undir tönn)

1 dl möndlumjólk + 3-4 dl vatn (eftir þykktarsmekk)

Gumsa öllu saman í eldfast mót. Hræra aðeins saman með gaffli.

Baka á 170°C í 35-40 mínútur.

2 thoughts on “Súkkóhnetusmjörsgleði

  1. Pingback: Vanillujarðarberja grautartriffli | ragganagli

  2. Pingback: Skinhoruð súkkulaðimússa | ragganagli

Comments are closed