Vigtin hefur áhrif á okkur öll, og þá sérstaklega okkur konur. Annaðhvort erum við syngjandi af gleði allan daginn yfir þeirri tölu sem kemur upp á skjánum borið saman við síðasta skipti sem við athuguðum, eða undir þrumuskýi allan daginn og jafnvel alla vikuna.
Þyngd líkamans er upplýsingar. Það er allt og sumt. Hvað segir hún þér? Hún segir til um hvað við erum þung á þeirri stundu sem við stígum á hana. Ekkert annað. Hún segir okkur ekkert um samsetningu þyngdar okkar. Hún segir ekki hvort við höfum misst fitu, bætt á okkur vöðvum eða um daglegar breytingar á vatnsbúskap líkamans. Vigtin gefur okkur bara upplýsingar, og það sem er mikilvægast er að upplýsingar án nokkurs samhengis eru gagnslausar.
Margir sem passa mataræðið og æfa eru að sækjast eftir ákveðnu útliti frekar en þyngd. Vandamálið er að við eigum það til að tengja ákveðið útlit við ákveðna þyngd en það er ekki endilega málið. Fjölmargir finnast þeir vera minni um sig en áður (út frá fatastærð) en eru samt þyngri. Ef við einblínum eingöngu á vigtina væri þetta fólk í vondum málum. Hins vegar er það augljóst að ef föt passa betur, þú ert minni um þig og skornari þá hefurðu misst fitu. Og þú ert allt þetta en samt þyngri?? Þá ertu svo heppin(n) að vera með meiri vöðvamassa. Taktu því vælið og pakkaðu því ofan í skúffu!!
Það er staðreynd að vigtin gefur okkur engar upplýsingar um hvað er að gerast með fitu og vöðva í líkamanum en það eru hægar breytingar. Enn mikilvægara er hins vegar að vigtin gefur okkur engar upplýsingar um daglegar sveiflur í vatnsbúskap líkamans.
Það gæti verið að dagurinn sem þú vigtaðir þig sé „hár“ dagur þegar kemur að vatni í líkamanum. Þú getur prófað þetta með einfaldri tilraun. Ef þetta getur ekki staðist þá værirðu jafn þung(ur) á hverjum degi og einu breytingarnar væru hægfara þyngdartap. Það væru aldrei neinir toppar upp á við. Prófaðu að vigta þig daglega í 2 vikur og þú munt sjá hvernig vigtin sveiflast upp og niður um 1-2 kg yfir þessar tvær vikur. Auðvitað yfir lengri tíma ætti hún að fara hægfara niður á við eða upp á við (eftir því hvert markmiðið er).
Það er ekki ráðlegt að vigta sig oft því fólk er haldið þráhyggju og sú athöfn að stíga á þetta blessaða tól getur haft gríðarleg áhrif á skapið, sérstaklega hjá kvenpeningnum. Einu sinni á 2-4 vikna fresti er ágæt regla. Vigtin eru bara upplýsingar og upplýsingar án samhengis eru gagnslausar.
Daglegar sveiflur í þyngd eru eðlilegar. Þær eru ekki vísbending um árangur eða mistök. Breytingar á saltmagni í líkamanum, hversu mikið vatn þú ert að drekka (lítið vatn stuðlar að vatnssöfnun í líkamanum), hormóna breytingar tengdar tíðahring, staðan á glýkógeni o.s.frv hafa öll áhrif á líkamsþyngd.
Ekki einblína of mikið á hvað vigtin segir Í DAG. Hún sagði örugglega eitthvað annað í gær og mun segja eitthvað annað á morgun. Eyddu frekar púðrinu í að einblína á það sem þú ert að gera. Gott næringarplan, lyftingar og brennsluæfingar. Með þetta allt skothelt þá mun líkamsþyngdin sjá um sig sjálf.