Jólin lúra handan við hornið og þeim fylgir allskonar gleði í áti. Í raun er vambarkýling það eina sem Naglinn sér skemmtilegt við jólin enda rammheiðinn Skröggur með meiru, og dauðleiðist allt þetta vesen, prjál, glingur og gaul. Boðskapur jólanna er löngu týndur undir kreditkortakvittunum og gleymdur og grafinn í háþrýstingsspenningi í Kringlunni.
Eitt uppáhalds átið yfir hátíð ljóss og friðar er rísalamand, í æsku var hann alveg berrassaður en í síðari tíð eftir fjögurra ára búsetu í Baunalandi er kirsuberjasósan ómissandi púsluspil í þennan unað.
Þess vegna er snarhollur vanillukotasælubúðingur gumsaður ofan í ginið óspart um þessar mundir til að hita bragðlaukana upp fyrir “the real thing” á aðfangadag.
Vanillukotasælubúðingur
150g Kotasæla (1%)
1/2 dl vatn
1/4 tsk xanthan gum (fæst í Kosti)
1/2 tsk vanilluduft
Now Vanilla Stevia dropar
Allt sett í lítinn blandara/ Magic Bullet/kryddhakkara. Hræra þar til allar lumpurnar eru farnar úr sælunni og hún orðin mjúk eins og barnsrass.
Og auðvitað snætt með heitri sykurlausri kirsuberjasósu sem er einn mesti gleðigjafi í lífi Naglans.
Gleðilegt jólaát allan desember!