Hvítt-súkkulaði-kókos-unaður – prótínsjeik

Naglanum finnst prótínsjeikar mjög skemmtilegt át en þeir þurfa að vera þykkari en trélím og snæddir með skeið til að vekja hamingju í hjartanu. Bóndinn er með meira lattelepjandi tungu og vill hafa sínar kombinasjónir drekkanlegar úr glasi. Þar sem hann er stríðalinn og ofdekraður af spúsu sinni í matarmálum er að sjálfsögðu orðið við slíkum óskum.

Um þessar mundir er eftirfarandi kvöldsnæðingur því teygaður af betri helmingnum og vekur gleði hjá bæði þiggjanda og gefanda.

 

 

 

 

Innihald:

Scitec hvítt súkkulaði 100% whey

 

1-2 tsk kókossmjör… Naglinn er viss um að á himnum borða þeir kókossmjör í öll mál.

 

 

1/4 tsk xanthan gum (fæst í Kosti, frá Bob’s Red Mill)
5-6 dropar Stevia vanilla dropar frá Now (fæst hér) eða Stevia Sweet Leaf (fást í Blómaval)
klaki
150 ml vatn

Aðferðin er gríðarlega flókin. Öllu hent í blandara, blandað á hægum hraða í 1 mínútu. Auka þá hraðann í 30 sekúndur.

Hella í glas og njóta fyrir svefninn eða í millimál.

 

 

 

Markmiðið með kvöldsnæðingi er tvíþætt:
Í fyrsta lagi að hindra niðurbrot á vöðvunum sem við eyddum blóði, svita og tárum að byggja upp.

Í öðru lagi að halda líkamanum í uppbyggingarfasa yfir nóttina til að tryggja áframhaldandi vöðvavöxt. Þeir gera jú við sig í hvíldinni.

Með að troða prótíngjafa í trýnið hækkum við amínósýrumagn í blóðrás sem veitir stöðugt flæði þeirra um musterið okkar meðan slefað er á koddann.

Samhliða prótíngjafa er góða fitan slöfrðu því hún seytir út hormóninu cholecystokinin  sem hægir á meltingu.
Þar með tryggjum við að amínósýrur svamla hægt og rólega um skrokkinn alla nóttina og vöðvarnir fá stöðuga næringu.