Naglinn hefur gert margar brúnkurnar (brownies) í gegnum tíðina en þessar slógu öll fyrri met.
Þær eru óður til ástarinnar. Lífsins elixír. Uppspretta frygðarhljóða. Mjúkelsi undir tönn. Bitarnir krefjast vart tyggingar og rúlla niður kokið.
Heslihnetubragðið dansar trylltan dans á tungubroddinum meðan súkkulaðibragðið lekur niður kinnholurnar.
Átið verður líka mun gleðilegra móment þegar diskurinn og skeiðin kalla fram barnið í manni en þessi krúttsprengja, sveppastrákurinn Bubbles, er frá hinu flotta framsækna fyrirtæki Tulipop sem skapa og selja ævintýravörur fyrir börn á öllum aldri.
Það sem gerir gæfumuninn í þessum brúnkun er að nota baunaprótínduft í stað svartbauna og passa vel uppá bökunartímann. Þær mega alls ekki vera of lengi því þá breytast þær í þurrkuntulegri frænku sína, skúffuköku. Eiginleiki þeirra sem sjúklega mjúkar, passlega blautar og mjúkar undir tönn hverfur, og þær missa samfélagsstöðu sína sem súkkulaðikaka með sjálfstraust.
Nutella brúnkur
Uppskrift
2 skóflur NOW baunaprótín (pea protein)
1 dl graskersmauk (eða elduð sæt kartafla eða soðnar maukaðar gulrætur)
2 msk ósætað kakó (100% NOW eða Hershey’s)
1 msk Sukrin gold
2 msk heslihnetusmjör (The Protein Works, fæst í Hreysti, Skeifunni)
1 tsk lyftiduft
1.5 dl ósætuð möndlumjólk (Isola græn)
1.5 dl eggjahvítur
klípa salt
Aðferð:
1. Dömpa öllu stöffinu í skál
2. Töfrasprota gumsið þar til allt blandað saman í eina orgíu. Deigið á að vera vel þykkt.
3. Hella í lítið eldfast mót eða sílíkonform (
4. Baka á 160°C í 30-35 mínútur. Hníf sem stungið er í miðjuna á að koma upp aðeins skítugur.
Toppa með horuðu sykurlausu dökku súkkulaðikremi.
Dökkt súkkulaðikrem
2 msk dökkt kakó (t.d Naturata)
2 msk Now hot cocoa
1 msk Erythritol
ósætuð möndlumjólk (magn fer eftir þykktarsmekk fyrir áferð krems. Byrja smátt og bæta við eftir þörfum)
Hræra saman þar til æskilegri þykkt er náð. Drissla yfir heita kökuna og bera fram með þeyttum rjóma úr undanrennu (gert með Bamix) eða horuðum sprauturjóma eða hrærðu skyri með Better Stevia vanilludropum.
* Allt stöffið í þessa dásemd fæst í Nettó fyrir utan graskersmauk sem fæst í Kosti og Hagkaupum