Sköpunargleðin á matreiðslunámskeiðum Naglans í liðinni viku reið ekki við einteyming.
Það hefði mátt opna bakarí fyrir öll girnilegu prótínbrauðin sem litu dagsins ljós.
Rósmarínbrauð, hvítlauksbrauð, appelsínu/trönuberjabrauð, epla/kanilbrauð, múslíbrauð og ég veit ekki hvað og hvað….
En þegar lærisveinarnir ætluðu að seðja hungrið eftir allan þrældóminn í bakstrinum voru góð ráð dýr, því ekkert álegg á brauðin var til í kotinu.
En Naglinn deyr ekki ráðalaus á þurru landi og skellti í hummus á núll einni úr því hráefni sem var í boði.
Þetta gums fékk nafngiftina ‘Neyðarhummus’, því neyðin kennir víst naktri konu og fullklæddum Nagla að redda sér.
Neyðarhummusið sló aldeilis í gegn og þurfti Naglinn að skella í annan enn stærri skammt til að anna eftirspurninni.
Neyðarhummus – Tómat-spínathummus
Uppskrift
Stór dós kotasæla (450g)
1 msk tómatpúrra
lúka spínat
dass af pizzakryddi (Himnesk hollusta)
salt og pipar
Töfrasprota gumsið í drasl þar til allt orðið mjúkt og samblandað.
Skúbba í skál og bera fram fyrir gesti og gangandi.