Naglinn svolgrarí sig eggjahvítur samhliða grautargleði í morgunsárið. Egg eru besti prótíngjafinn, meira að segja svo góður að þau eru notuð sem viðmið fyrir gæði annarra prótíngjafa. Þau innihalda allar átta nauðsynlegar amínósýrurnar fyrir byggingu og viðgerð vöðvanna og mikilvæg vítamín og steinefni: B12, ríbóflavín, zink og járn. Eggjahvítur eru nær algjörlega fitusnauðar, en rauðan inniheldur 5 g af fitu en aðeins 1.6 g þar af er mettuð fita.
Naglinn fjárfesti í graskeri algjörlega útúr allri rökhugsun, því þegar heim var komið voru góð ráð dýr…. hvernig átti nú að elda þetta appelsínugula flykki sem starði á Naglann á eldhúsborðinu? Eftir yfirlegu á alheimsvefnum og ráðleggingar frá sér vitrara fólki var bráðin sneidd í fjögur stykki, snarað í ofn í 45 mínútur. Kjötið skafið úr hýðinu og skúbbað í blandara með smá vatni og hrært í mauk. Þetta hefur svo nýst svona ansi skemmtilega í pönnsurnar, gerir þær þykkar og „flöffí“.
Naglinn gerir alltaf alltaf alltaf morgunverðarpönnsu kvöldið áður, sá verknaður tekur ekki nema 15 mínútur samhliða öðrum eldhúsverkum. Við fótferðartíma er hungrið gjörsamlega tryllt innan í galtómu svartholinu að hvatinn til að malla saman í pönnsu er álíka mikill og að mæta nakin í fermingarveislu.
Því minni fyrirhöfn, því líklegri erum við til að borða hollt, ekki satt?
Hrekkjavökupannsa
4-6 eggjahvítur + 1 heilt egg (valkvæmt)
1 msk graskersmauk (ath! má nota tilbúið í niðursuðudós)
1 tsk kotasæla
1 tsk lyftiduft
1/4 tsk xanthan gum
1 mæliskeið HUSK
Naglinn notar Capella Pumpkin Pie dropa en fyrir þá sem luma ekki á slíkri gersemi þá blífa gömlu góðu vanilludroparnir fínt hér líka.
Hrært í blandara í góðar nokkrar mínútur á meðan pönnukökupannan hitnar í hamsi.
Hella 2 matskeiðum af gumsi á vel heita PAM spreyjaða pönnuna
Lækka strax undir í millihita þegar hræran er komin á pönnuna.
Þegar lumman er orðin vel þurr á mallanum er henni snúið á bakið og leyft að ylja sér í 1-2 mín.
Úr þessum skammti koma um 4-5 stykki.