“Ég fór í frí og datt alveg úr rútínunni og átti erfitt með að koma mér aftur í gírinn”
Ef Naglinn ætti tíkall fyrir hverja slíka frásögn af falli af beinu brautinni mætti mæla þykkt bankabókarinnar í hekturum.
Það er staðreynd að rútínurask er einn stærsti áhættuþáttur í að hendast útaf brautinni og oft þarf dráttarvél til að komast aftur inn á hana.
Ég ætla sko EKKI að fara að mæta í ræktina og nú skal aldeilis éta allt gúrmeti undir sólinni.
En er það að vera góður við sig að eina líkamlega áreynslan er þramm á verslunargötum og efri skrokkurinn þjálfaður með burði á H&M pokum?
Er það að vera góður við sig að kýla vömbina dag eftir dag svo augun standa útúr höfðinu og kjötsvitataumar leka niður bakið?
Það þarf ekki að þýða skipulagningu á G8 fundi að ætla að hreyfa sig í fríinu.
Þú þarft heldur ekki að eyða lunganu úr deginum í að djöflast, tuttugu mínútna hringþjálfun á hárri ákefð blífar súper og eftirbruninn heldur áfram allan daginn meðan þú mundar Canon-inn á markverðar minjar.
Mörg hótel hafa líkamsræktaraðstöðu innan veggja eða það má gúggla næsta musteri líkamans og sjoppa vikupassa.
Að sama skapi urðu hinir innfæddu í Tyrklandi kindarlegir þegar rymjur og grettur heyrðust úr ljóshærða kvendinu.
Að finna æti sem nálgast að hafa eitthvað hollustugildi og er á sama tíma girnilegt og aðlaðandi á túristaráfi um nýlendur er eins og að leita að títuprjóni í nálapúða.
Þú þarft ekki að fylla öll vélindu af mettuðum fitusýrum í tólf tíma á dag bara af því þú fórst í flugvél. Veldu eina máltíð dagsins til að hylla sukkguðinn en troddu íturvöxnum ávöxtum og öðru dásamlegu hollmeti í trýnið þess á milli.
En það er hinsvegar nauðsynlegt að kitla pinnann í útlandinu og þú eignast aldeilis inneign fyrir sukkinu með hamagangi á Hóli.