Kex og kruðerí … afsprengi áttunda áratugarins

Á áttunda áratugnum varð sprenging í matvælaiðnaði og úr fabrikkum á Vesturlöndum streymdu matvæli í álpappírsumbúðum, pappapakka og plast sem áttu að flýta fyrir snæðingi og eldamennsku.

 

Það sem kallast í daglegu tali “unninn matur.”

 

Seríós.

Böggles.

Örbylgjudinner.

Skinkubréf.

Dósamatur.

Pakkasúpur.

Djúsþykkni.

Kartöfluflögur.

Samsölubrauð.

Kex.

 

Við sem ólumst upp á þessum tíma byrjuðum langflest daginn á Seríósi og heilu matskeiðunum af sykri.

Grilluð samloka með skinku og osti í skólanum skolað niður með Svala

Horfðum á Nágranna eftir skóla yfir Hómblest pakka og Trópí.

Mamma að vinna langt frameftir svo 1944 kjötbollur eða frosin pizza var skítaredding kvöldsins.

Ef þér er umhugað um heilsuna þá er ekki ráðlegt að borða mikið af unnum mat.

 

Í fyrsta lagi er þessi matur stútfullur af sykri, aukaefnum, salti og fitu.

 

Ef þú ert að tálga lýsi af skottinu en mörin haggast ekki þá gæti hnífurinn í kúnni verið mataræði sem samanstendur að miklu leyti af unnum mat.

 

Því fitutap snýst að mestu leyti um innbyrtar hitaeiningar.

 

Matvælaeftirlit Bandaríkjanna leyfir 20% svigrúm norður eða suður í hitaeiningum. Og oftar en ekki nýta fyrirtæki sér það til hins ítrasta og þrýsta niður á við eins og þeir mögulega geta því það hljómar mun betur í eyrum á grunlausum pöpulnum.

 

Sem þýðir að prótínbar sem segir 250 kcal á miðanum getur verið að þú sért í raun að slurka 300 kaloríur.

 

Kannski ekki svo mikið ef þú slátrar bara einum pökkuðu matvæli á dag.
Hinsvegar, ef stór hluti daglegra snæðinga koma úr álpappír, pappakassa eða plastbakka gætirðu misreiknað um fleiri hundruð hitaeiningar á dag sem gæti skýrt af hverju þú spólar í sömu hjólförunum án árangurs

 

Það er mun nákvæmara að vigta kjúklingabringu og hrísgrjón og innbyrða réttar hitaeiningar fyrir fitutap.

 

Mjög vönduð rannsókn sem var gerð á mataræði fólks þar sem því var veitt ótakmarkaðan aðgang í tvær vikur að óunnum mat eins og kjúklingi, fiski, grænmeti, ávöxtum, hnetum eða unnum vörum eins og morgunkorni, brauði, kexi, kruðerí, djúsum og pakkasúpum.

 

Meira að segja var stjórnað fyrir magni af kolvetnum, prótínum, og fitu svo báðir hópar fengu jafn mikið af hverju orkuefni og jafn margar hiteiningar.

 

Það sem var enn betra var að þátttakendurnir skiptu um hópa eftir 2 vikur til að koma í veg fyrir að innri eiginleikar þeirra stuðluðu að því að þeir borðuðu meira eða minna.

 

Hópurinn sem borðaði unnar vörur innbyrti 500 hitaeiningum meira en hópurinn sem borðaði heilar óunnar afurðir.

Það eru 3500 hitaeiningar aukalega á viku. Sem jafngildir hálfu kílói af líkamsfitu.

 

Þeir borðuðu hraðar en hinir sem gaf líkamanum ekki tíma til að losa út leptín og gefa merki um að hætta að borða.

Unnin matvara er oft hönnuð þannig að við þurfum að tyggja minna svo það er hægt að gúffa niður á núlleinni.

Það þarf að tyggja kjúkling og brokkolí svo þú standir ekki á öndinni og nágranninn þarf að gúggla Heimlich aðferðina.

 

Svengd og seddu er ekki bara stjórnað með hversu mikið við borðum eða hversu mikið matur fyllir upp í magann.

Seddu er stjórnað af leptín sem tekur 20-25 mínútur inn í máltíðina að losast út.

Seddu er líka stjórnað af bragðlaukunum, hvenær þeir vilja hætta að borða og þeir eru nýjungagjarnir dúddar sem vilja sambland af mismunandi áferð, hitastigi og bragði, heitu, volgu, köldu, stökku, krönsí, salti, súru, bitru, sterku, sætu.

 

Unninn matur er hannaður með það í huga að við viljum borða meira. Það eru heilu rannsóknarstofurnar sem skoða sérstaklega hvernig megi pimpa innihaldið þannig að það taki bragðlaukana í gíslingu og höndin færist frá poka að munni á hraða örbylgjunnar… í bókstaflegri merkingu.

 

Af hverju að hamra á að borða heilar óunna fæðu framyfir unnar vörur?

 

Hvort sem þú ert grænkeri eða kjötæta, þá er óunnin heil fæða alltaf betri fyrir þig.

Matur sem hefur engan miða.

 

Ef þú vilt tálga af þér þá ertu alltaf best settur með að 80-90% komi úr mat sem hefur engan miða. Mat sem líkaminn kann að ferla og melta. Innihald sem kom forfeðrum okkar á legg og stuðlaði að þróun mannkyns.

Restin af hýrunni í buddunni getur þá styrkt kapítalisma í fabrikkumat.

 

Það vill enginn djöflagera nein matvæli. Það er matur sem er heilsusamlegur, nærir okkur vel og mettar lengi og þess vegna borðum við oft og mikið af slíkum mat.

Síðan er matur sem hefur einungis það hlutverk að vera skemmtanagildi fyrir bragðlaukana, gleði fyrir geðið og fóður fyrir sálina en sáralítið næringargildi eða hollustustuðul.

Þá borðum við slíkan mat sjaldan og minna af honum.

 

Þannig náum við árangri, stuðlum að góðri heilsu án þess að hyllast öfgakennt bókstafsmataræði þar sem allt sem kemur í radíus við munnvik þarf að vera hreint og pússað með Ajaxbrúsa.

 

Jafnvægi er langtímalausn.

Öfgar eru eins og hland í skó þegar þér er kalt….. algjör skammtímalausn