Mokað í túlann eða notið í núvitund? Heilbrigt samband unglinga við mat.

“Sástu Kompás þáttinn???” er sagt á innsoginu yfir Frónkexi og Bragakaffi.

Offita barna á Íslandi er aðalumræðuefnið á kaffistofum landsmanna.

Og rík ástæða til að vekja athygli á þessu vandamáli og horfa á hvað getum við gert til að sporna við þessari þróun svo börnunum okkar líði betur í eigin skinni og eignist heilbrigt samband við mat, sjálfsmyndina og hreyfingu.

Hvað börnin borða skiptir máli. Þau velji frekar hollar óunnar afurðir framyfir bakarísmat og Pringles stauka.
Að þau drekki vatn frekar en súkralósaða orkudrykki.
Að velja oftar kjúkling og kjöt framyfir sveitta hammara og pizzaslæsur.

Þetta vita allir sem ekki hafa búið í gjótu í Ódáðahrauni síðustu fjörutíu ár.

En það gleymist í umræðunni að það skiptir miklu máli HVERNIG börnin borða.
Og þar má draga skólayfirvöld og foreldra til ábyrgðar.

Skólinn þarf að gefa þeim tækifæri að taka lengri tíma í máltíðina og borða hægar með að lengja hádegishléið.

Ef börn eiga að skófla niður matnum á kortéri þá velja þau mat sem uppfyllir þau skilyrði eins og samlokur, snúða, skinkuhorn og ostaslaufur.
Mat sem þau geta mokað upp í túlann með höndunum á innan við fimm og málið er dautt.

Að þurfa að gúffa í kapphlaupi við klukkuna standandi eða labbandi er streituvaldandi og í streituástandi er líkaminn ekki klár í að melta fæðu því blóðið er í útlimunum sem þýðir minna blóðflæði í magann. Endurteknar máltíðir í slíku ástandi getur líka valdið meltingartruflunum til lengri tíma.

Hámað í sófanum í kaffistofunni yfir símanum og hausinn er ekki með í partýinu í munninum því hann er á fullu að skoða myndir á instagram eða
Það verður engin upplifun af matnum. Engin nautn. Engin tenging.
Engin skráning á máltíðinni í minninu.

Við það skapast tómarúm í sálinni sem þarf að fylla upp í með sælgæti, snakki og gosi. Oftar en ekki yfir tölvuleik þar sem athyglin er öll á að klára næsta borð eða drepa næsta bófa.

Foreldrar geta síðan kennt börnunum að borða hægar virkilega gefa gaum hvað þau eru að upplifa.

🔹Fyrsta skrefið er að útrýma óvelkomnum matargestum eins og sjónvarpi, útvarpi og farsímum sem taka athyglina í gíslingu og hún lekur útúr munninum yfir á augu og eyru á það sem er að gerast á skjánum.
Við viljum að heilinn sé í partýinu sem er í munninum en ekki límdur á hvað er að gerast á skjánum á Jútjúb eða Instagramm.

🔹Spjallaðu við unglinginn um hvaða bragð eru þau að finna. Hvaða lykt finna þau af matnum. Hvað sjá þau á disknum.
Finnst þeim maturinn góður? Minnir maturinn þau á annan mat? Hvað myndu þau gera öðruvísi ef þau væru að elda matinn?

🔹Leyfðu barninu að taka þátt í matargerðinni svo þau átti sig á ferlinu á bakvið máltíðina. Farið saman út í búð, leyfðu barninu að velja grænmeti eða hráefni til að elda kvöldmatinn. Gúgglið uppskriftir, reimið svuntuna og brettið upp ermar í eldhúsinu saman.

🔹Kenndu unglingnum að leggja frá sér hnífapörin, tyggja oft og hægt. Anda frá sér og finna bragðið aukast á útönduninni. Taka síðan upp hnífapörin þegar munnurinn er tómur og skera næsta bita.

🔹Spurðu um seddutilfinninguna eftir matinn. “Þarftu að leggjast í læsta hliðarlegu og hneppa frá buxunum. Þá borðaðirðu of mikið. Eða að þú borðaðir of hratt.”
Útskýrðu fyrir unglingnum að vera alltof saddur þýðir að við séum ekki að hugsa sem best um okkur sjálf. Þannig tengja þau passlegt seddustig við líkamlega vellíðan. Vektu þau til umhugsunar um hvernig mismunandi matur veitir mismikla seddu.

🔹Fræddu unglinginn um mikilvægi þess að gefa sér 20-25 mínútur að borða svo líkaminn losi út sedduhormónið leptín á meðan máltíð stendur til að finna hvenær sé gott að hætta.
Sem undirstrikar mikilvægi þess að hafa lengra hádegishlé í skólum.

🔹Kenndu unglingnum að fá sem fjölbreyttast á gaffalinn og búa til hinn fullkomna bita þar sem allskyns bragð og áferð dansar á bragðlaukunum í stað þess að klára eitt matvæli af disknum og byrja svo á því næsta.

🔹Fyrstu 2-3 bitarnir eru alltaf bestir en síðan fer bragðlaukunum að leiðast. Þess vegna er mikilvægt að þeir fái sem mesta fjölbreytni í hverjum bita.

🔹Gerum kvöldmatinn að sameiginlegri stund fjölskyldunnar líkt og í denn þegar eina áreitið var ómþýð rödd Gerðar B Bjarklind úr viðtækinu að lesa dánarfregnir og jarðarfarir.

Rannsóknir sýna að fjölskyldur sem sitja saman þar til allir hafa lokið við að borða eru grennri en fjölskyldur sem tínast ein og ein frá borðinu.
Einnig hefur verið sýnt fram á að unglingar sem fengu inngrip við að nærast í núvitund grenntust og fóru að velja hollari kosti eftir að rannsókn lauk.

Allir elska að borða. Allir elska mat. Enn fæstir borða eins og þeir elski mat.

Því ást er að veita óskipta athygli og ef við kennum unglingum að borða hægar, í fullkominni ró og með öll skilningarvit galopin verða þau sáttari í sálinni eftir hverja máltíð sem minnkar líkur á árás á nammibarinn í Hagkaup í næstu frímínútum.