Allt sem er fljótlegt er besti vinur aðal. Því þegar þú kemur heim urlandi þreyttur eftir vinnu, búinn að berjast í seinnipartstraffík og skutla og sækja í tónmennt og íþróttir þá er nennan í núlli til að kokka upp hollustumáltíð frá grunni.
Heill sé þér makríll í dós…. fyrir örsnöggar máltíðir.
Þessi pizza tryllir bragðlaukana og tekur innan við 5 mínútur frá því þú hendir lyklunum frá þér þar til þú ert sestur með dýrindismáltíð fyrir framan þig.
Innihald
1 tortilla kaka (heilhveiti)
2 msk tómatpúrra
1 dós Stabbur makríll með tómat og basil
Handfylli af Medjool döðlum skornum til helminga
2 msk af steinlausum ólífum
2 msk sólþurrkaðir tómatar í strimlum (fæst í Nettó)
Handfylli af basil
oregano duft
Aðferð
Hita tortillakökuna á pönnu í 1-2 mín eða þar til hefur tekið smá lit eins og nepjuhvítur Íslendingur eftir viku á Tene
Löðra tómatpúrru á tortilluna.
Opna makríldósina og skúbba innihaldinu yfir tómatpúrruna.
Þrykkja döðlunum og ólífunum yfir og toppa gleðina með basil blöðum og smá oregano dufti.
Voilá… heilsusamlegur kvöldmatur á núlleinni sem er stútfullur af Omega 3 fitusýrum, prótíni fyrir vöðvalufsurnar og kolvetni í bensíntankinn.
Þú getur jarðað afsökunina “að hafa ekki tíma til að elda hollt” í Gufunesinu.. blóm og kransar afþakkaðir takk för.
____________________________________________________
Samstarf við John Lindsey á Íslandi sem flytur einnig inn Jordan tannkrem sem eru bestu tannkremin og tannburstar úr endurunnu plasti.