Bjútifúl brúnterta – sykurlaus og glúteinfrí

 

Það er fátt jólalegra en brúntertusneið með hvítu kremi sem lekur niður munnvikin á meðan lægðirnar berja rúðuna með skafrenningi og norðan átján.
Það sendir nostalgíustrauma niður hryggjarsúluna og ég fer aftur í eldhúsið hjá ömmu í Safamýrinni eftir skóla með nýbakaða brúntertusneið og ómþýðir tónar Rásar 1 streyma úr viðtækinu.
Hér er tekinn sykurlaus snúningur á gamla klassíkerinn sem allir elska með glasi af ískaldri mjólk hvort sem er úr beljujúgrum eða plöntuvökva.

 

Brúntertudeig

3 egg
100g Good Good sweet like sugar
50g möndlumjöl
1 1/2 msk kartöflumjöl
1/2 tsk lyftiduft
2 msk NOW kakó

Aðferð:

Stilla ofn á 200°
Þeyta vel saman egg og sweet like sugar, í ca. 10 mín. Þurrefnum blandað varlega saman við deigið með sleikju.
Smyrja deiginu á plötu klædda bökunarpappír og baka í 10-12 mín.

Smjörkrem

150g Philadelphia light (fæst í Nettó)
1 dl ósætuð Isola möndlumjólk
1 msk púðrað sweet like sugar (henda í blandara og púðra í flórsykuráferð)
1 tsk vanilludropar

Aðferð:
Hræra öllu saman í hrærivél á hægum hraða þar til vel blandað.
Smyrja hvíta gumsinu á brúntertubotninn þegar hann er orðinn kaldur og rúlla varlega upp.

 

Ég notaði NOW kakó í kökubotninn en það er algjört uppáhalds fyrir súkkulaðiperrann, því það er eins og Hershey’s súkkulaði á bragðið.

 


Isola mjólk ósætuð er frábær sem staðgengill rjóma í bakstur og matargerð, því henni svipar mjög gamla góða rjómanum í þykkt og áferð. Ég nota hana mikið í súpur og sósur.

________________________________________________________

Samstarf við Nettó og NOW á Íslandi

www.nowfoods.is
Afsláttarkóði: ragganagli20