Guðdómlegur grillkjúlli með dásamlegu meðlæti

Eftir að hafa spænt malbik Reykjavíkur í maraþoninu er mikilvægt að eldamennskan sé einföld og fljótleg því yfirleitt eftir slík átök er nennan í núlli til að snuddast mikið í eldhúsinu.

 

Því er upplagt að henda á grillið prótíngjafa beint í hungraða vöðvana.

Hrísgrjón í pott til að fá góð kolvetni sem hefja prótínmyndun og viðgerðarferli.

Og á kantinum ertu með góðu fituna úr hummus og yndislega ferskt hrásalat sem hefur fengið þann hógværa dóm að vera hið gómsætasta á norðurhjara veraldar.

 

 

 

Guðdómlegur grillkjúlli.

1 kg kjúklingabringur skornar í bita.

Marínering

5 msk Himnesk hollusta extra virgin ólífuolía

½ msk grófkorna sinnep

2 marin hvítlauksrif

2 msk Sukrin gold

fullt af sítrónupipar

 

 

Setja allt hráefnið í plastpoka ásamt kjúklingabitunum og láta marinerast í 2-4 klst í ísskáp.

Þræða kjúklinginn upp á grillspjót sem hafa legið í bleyti í c.a 20-30 mín

Grilla þar til kjúllinn er eldaður í gegn.

 

Bezta hrásalat á norðurhjara veraldar

 

1 bolli smátt skorið rauðkál

½ smátt skorinn rauðlaukur

3 msk light mæjónes

2 msk 5% sýrður rjómi

1 msk NOW erythritol

rifinn börkur af ½ sítrónu

 

Hræra saman í skál og kæla í 1-2 klst.

 

 

 

Rauðrófuhummus sem sprengir alla hamingjuskala

1 dós kjúklingabaunir t.d Himnesk hollusta

½ soðin afhýdd rauðrófa

3 msk ólífuolía, t.d Himnesk hollusta jómfrúarolía

2 msk safinn af baununum

safi úr 1 kreistri sítrónu

1 msk Monki sesamsmjör (tahini)

1 hvítlauksrif

1 tsk kúmínduft (ekki kúmen)

sjávarsalt og pipar

 

Hræra öllu saman með töfrasprota, í blandara eða matvinnsluvél þar til mjúkt og blandað

 

Bera kjúklinginn fram með gómsæta hummusinu, hrásalatinu dásamlega, ásamt villtri hrísgrjónablöndu frá Himnesk hollusta, maísstönglum og góðu salati.

 

Þá ertu að hlaða góðri næringu í maskínuna eftir átök dagsins.

Þá fer viðgerðarferlið og endurheimtin í líkamanum á yfirsnúning.

Svo þú verður klár í að reima á þig hlaupaskæðin fyrir næsta skokk áður en þú veist af.