Númerísk hengingaról

Sjálfshjálparbækur, átaksnámskeið, skyndikúrar og mataræðisstefnur spretta upp eins og gorkúlur í hverri viku en flestar eiga þær sameiginlegt að setja snöru utan um hálsinn á þér í formi númerískra viðmiða.

 

Viltu missa 10 kg fyrir sumarið?

Brenndu 1000 kaloríum á nýja æfingakerfinu frá Hollívúdd.

Búðu til splunkunýja hegðun á aðeins örfáum dögum

Misstu 1 kg á dag á nýja lágkolvetna háfitu, prótína kúrnum.

Hangtu á horrim tvo daga í viku og tálgaðu smjörið á ljóshraða.

Borðaðu á tveggja tíma fresti, annars visna vöðvarnir með óútskýrðum mekanisma

Þú verður að borða sex máltíðir á dag annars deyja tíu kettlingar

Misstu 5 kg á mánuði á nýja díetinu sem tröllríður öllu í Ammeríkunni.

Ekki borða meira en 50 grömm af kolvetnum á dag því þá spikastu eins og aligæs í foie gras verksmiðju.

Þú verður að þyngja lóðin um 5% á tveggja vikna fresti til að verða massaður í drasl

 

Markmiðin byggjast á tölustöfum. Númer á vigt, númer á grömmum, númer á fituprósentu, númer á lóðum, númer á málbandi, fjöldi daga, fjöldi vikna, fjöldi hitaeininga.

Við förum í gegnum daginn með stöðugan kvíðahnút í maga yfir hvaða tölu hinar ýmsu græjur gubba útúr sér því þær ákvarðar lífshamingjuna og sjálfsvirðinguna. Skrefamælir í vasa. Kaloríubrennslumælir á úlnlið. Vigt á baðherbergisgólfi. Fitumælingagræja í rækt. Kaloríu-app í síma.

 

Með væntingarnar hangandi uppi í ljósastaur, vaðandi skýjaborgir af óraunhæfum markmiðum um að missa 2 kg á viku er matseðill frá nýjasta netgúrúnum vandlega klipptur út, hengdur á ísskápshurðina og fylgt eins og Biflíu Bjarts í Sumarhúsum.

“Nú er ég búinn að fylgja þessu mataræði í fimm daga og vigtin ekki haggast. En gaurinn í auglýsingunni missti 2 kg á viku. Ég er greinilega með brengluð efnaskipti.”

 

“Ég hef ekki getað þyngt lóðin núna í heilan mánuð. Búhú…ég mun aldrei kjötast upp.”

 

“Ég komst ekki frá vinnu til að borða og komnir fjórir tímar frá síðustu máltíð. Nú rýrna ég í sundur og verð að hengilmænu.”

 

Hinar magísku tólfhundruð

 

Skyndilausnabisnissinn gengur nefnilega út frá að allir séu steyptir í sama kökuformið, og allir skrokkar bregðist við æfingum og mataræði á sama hátt. En við erum jafn misjöfn og við erum mörg og mikilvægustu breyturnar sem ákvarða hvernig þinn líkami bregst við eru líkamsþyngd, megrunarsaga, arfleifð og grunnbrennsluhraði. Heilbrigt fitutap eru 500 grömm á viku. En sumar vikur missirðu “bara” 200 grömm, og sumar vikur missirðu ekki eitt einasta atóm af smjeri. Líkamlegar breytingar eru nefnilega aldrei línulegt ferli. Það eru toppar og dalir, hæðir og lægðir, stökk og stöðnun. Svo þar rjúka X kíló per viku markmiðin út um galopinn stofugluggann.

Við þurfum mismargar hitaeiningar til líkamlegra fúnksjóna og einnig til að brenna fitu og að gefa út ríkisskammt af kaloríum er algjört hrossatað.

 

“Ég var innanétinn af hungri og gat ekki haldið mig bara við 1200 kaloríur í dag. Ég er aumingi með enga sjálfstjórn sem getur ekki haldið út megrun eins og allir aðrir.”

Hvaðan kemur eiginlega þessi magíska 1200 kaloríu tala? Það eru tár á hvörmum yfir að slíkt nokkurri vídd æskileg eða sniðug lausn til fitutaps. Það endist enginn sleiktur á horrimina með skrokkinn snuðaðan um mörg hundruð kaloríur. Það leiðir óhjákvæmilega til sprengingar á limmi og öllu hent fyrir róða. Hver eru lífsgæðin í að svelta heilu hungri bara til þess að komast í brók númer eitthvað? Hvers virði er heilsan þegar grunnbrennslu og heilbrigðum efnaskiptum er hent út í hafsauga til að fylgja nýjasta tröllríðandi trendinu í tálgun.
En það er rifið í hár, grátið í kodda, skælt í símtól og rifist við maka yfir öllum númerunum sem hringsóla yfir hausnum eins og hrægammar á sjálfdauðum zebrahesti.

 

 

 

Hlegið í bankanum

 

Gegndarlaus samanburður við tölur og númer, staðla og norm, veldur frústrasjón og vonleysi í sinninu þegar við náum ekki sama árangri og básúnaður er í gjallarhorn yfir lýðnum og letur okkur til að halda áfram á heilsubrautinni.

 

Í stað þess að styrkja okkur með jákvæðri reynslu erum við stöðugt minnt á að vera mislukkuð, stútfull upp í kok af neikvæðri upplifun yfir að ná ekki númerískum viðmiðum sem miðlarnir troða í smettið á hverjum degi. Þessar misheppnauðu tilraunir festa sig í minninu og draga úr sjálfstraustinu til að halda áfram í verkefninu. En skyndilausnabransinn vill einmitt að þú gefist ítrekað upp og stútfullur af vonleysi og hjálparleysi eyðir hýrunni í næsta sölutrix. Svo hlæja þeir alla leið í bankann með sparigrísinn þinn undir hendinni.

 

Margir sem hoppa á skyndilausnahraðlestina til Uppgjafarvogs með pissustoppi í Vonleysisvík eru einmitt raðkúristar og hafa prófað alla kúra undir sólinni.Þeir eru fastir í viðjum þess sem “má” og “má ekki” og geta þulið upp kaloríur og kolvetnagrömm í matvælum eins og FaðirVorið. Í desperasjón að tálga smjer á örbylgjuhraða er hver öreind analýsuð, spáð og spekúlerað í smáatriðaþráhyggju á meðan fjötrar mataræðis vefja sig fastar og fastar um hálsinn.

 

Það er mun vænlegra til langtímaárangurs að eyða púðrinu í að tileinka sér nýtt og betra hegðunarmynstur og leyfa hlutunum að gerast á sínum eðlilega hraða. Þú stjórnar ekki hversu hratt líkaminn ÞINN vinnur, hversu mörg grömm þú missir á nýjasta díetinu úr Kosmó en þú hefur stjórn á hegðuninni, þínum aðgerðum, ákvörðunum og hugarfari.

 

Patience_2 

Gamlar Sloggi nærbuxur

 

Það sem bransinn vill nefnilega ekki að þú vitir er að fitutap er ekki afleiðing af einni gullsleginni magískri breytingu yfir nótt, heldur uppsöfnuð áhrif af margskonar hegðun yfir langan tíma. Kaldur kalkúnn á heima í kjötborðinu í Nóatúni og kann ekki góðri lukku að stýra að gefa nýrri hegðun aðeins nokkrar vikur til að festast í sessi. Nýr lífsstíll er samansafn á hegðunarbreytingum yfir langan tíma. Þegar við framkvæmum rétta hegðun dag eftir dag, viku eftir viku, sér árangurinn um sig sjálfur sem aftur styrkir sjálfstraustið til að halda áfram.

Mæta á æfingar og taka vel á því. Borða hollt og skynsamlega og hóflega skammta. Leyfa sér sveittmeti í hófi en umfram allt njóta ferðarinnar með jákvæðum augum því hegðunarmynstrið er afurð hugarfarsins, Þegar númerin eru það eina sem skiptir máli verður Nonni neikvæði allsráðandi í núðlunni og öll orkan fer í að einblína á öll þessi númer sem þú slefar yfir.

 

Þú getur valið hegðun og hugarfar en þú getur ekki valið hvernig skrokkurinn bregst við aðgerðum þínum. Þegar þú setur allt púður það sem þú getur stjórnað af réttri hegðun af hollu mataræði og reglulegum æfingum yfir langan tíma þá munu breyturnar sem þú stjórnar ekki sjá um sig sjálfar.

 

En svona nálgun er jafn ókynæsandi og gömul Sloggi nærbrók úr Kaupfélaginu á Óspakseyri, og selur engar skræður, átaksnámskeið, pillur eða ofurfæðisduft úr berjarunnum ræktuðum af nunnum í hlíðum Nepal.

Því blákaldur og nístandi sannleikurinn er að árangurinn kemur mun hægar en lagt var upp með í upphafi, því væntingarnar hanga með veðurhananum uppi á húsþaki eftir skrollið á samfélagsmiðlunum. En í staðinn verður hann langvarandi og enginn hlær í bankanum með aurinn þinn í vasanum.