Kotasælusæla

Það spretta tár af hvörmum Naglans þegar fólk dettur í nammipokann af einskærum súrheitum út í hollustuna. Það sorglega er að þessi grey eru í fangelsi eigin ímyndunarafls, þar sem það hímir eins og gína á húsþaki með enn eina ómerkilegu skyrdósina. Einhæfni og þurrelsi í snæðingum bjóða uppgjöfinni upp í dans og súkkulaðið verður líklegt fórnarlamb frústreraðra og hlunnfarinna bragðlauka.

Naglinn er með meirapróf í hollustu-uppskriftagramsi á alheimsvefnum því gagnabanki af gúrmeti er lífsnauðsynlegt til að halda neistanum gangandi og forða frá endurtekinni hrösun ofan í undirheima sukkguðsins.

Einn meðlimur í gagnabankanum er kotasæluís og Naglinn hefur talað um hér.  Þessi gleði er algjör öööönaður, og eins og grauturinn góði, býður berrössuð sæla uppá endalausa möguleika með hinum ýmsu bólfélögum í bragðbætingum og kombinasjónum.

Innihald:

  • 150g kotasæla
  • 100 ml vatn
  • Bragðdropar t.d súkkulaði, berja, karamellu, heslihnetu, vanillu, möndlu, sítrónu, appelsínu…. það sem tungan kallar á þá stundina
  • Krydd t.d sykurlaust kakó, vanilluduft, kanill, negull, kardemomma… aftur eru endalausir möguleikar
  • 1/4 tsk xanthan gum til þykkingar (frá Bob’s Red Mill, fæst í Kosti)

Aðferð:

Gumsa öllu saman í blandara.

Blanda þar til kurlið er farið úr sælunni og hún orðin eins og barnsrass.

Frysta í 2 klst.

Fyrir einn skammt er best að nota lítinn blandara eða Magic Bullet.

 


Eða gera marga skammta í venjulegum blandara og eiga í ísskáp, þannig erum við alltaf tilbúin með gómsæta hollustu á kantinum.

 

Klámfengið með brytjuðum ávöxtum, hrískökum og sykurlausu súkkulaðisírópi og karamellusírópi.

Hér hrærði Naglinn kotasælu saman við Stevia vanilla créme dropa og vanilluduft.

Matur bragðast einfaldlega betur úr bleikri skál.

Annar möguleiki er að hita hnetusmjör í örra með sykurlausu Torani sírópi og slurka yfir ísinn….JÁ TAKK!!

Eða með hökkuðum pistasíum, eða kanilmöndlum, eða ristuðum pekanhnetum…. verð að hætta áður en lyklaborðið eyðileggst af slefi.

Hverjir ætla að grenja ofan í skyrdós í dag?

One thought on “Kotasælusæla

  1. Pingback: iHerb… ILoveyou | ragganagli

Comments are closed