Hinn alræmdi nammidagur

Margir hafa pervertískan áhuga á fyrirbærinu “nammidegi” og hvort hann sé æskilegur, leyfilegur eða bannaður samkvæmt íslenskum lögum í heilsusamlegum lífsstíl. Nýlega skapaðist einmitt umræða um þennan alræmda dag á blaðsíðum veraldarvefsins.

Naglinn segir að ekki einungis er það leyfilegt fyrir okkur sem valhoppum heilsubrautina 90-95% tímans heldur er nauðsynlegt að fara út af sporinu 5-10% tímans og úða sukki í æðarnar.

Jákvæðu áhrifin af slíkum hliðarsporum eru bæði hugræn og lífeðlisleg.

Þegar við borðum í fitutapshitaeiningum í langan tíma getur skrokkurinn farið í bullandi baklás því hann veit ekki að smjör lekur af hverju götuhorni í klukkbúðum nútímans. Hann undirbýr frekar mögru árin og hægir á brennslunni til að spara orkuna.
Eins tekur hann hormónabúskapinn í allsherjaryfirhalningu og hægir til dæmis á framleiðslu yfirmanns fitutapsmála, Leptín, sem hefur keðjuverkandi áhrif á allar hliðar meltingar og fitubrennslu. Með því að hrúga í okkur hitaeiningum í einni eða fleiri máltíðum sendum við skilaboð til líkamans að það sé óhætt að kýla upp brennsluna og leyfa leptín að vera með í partýinu.

Í nútímasamfélagi leka freistingar af hverju götuhorni. Þar sem þú stendur í Bónus að borga fyrir brokkolíhaus og skyrdollu öskrar Snickers og Kúlusúkk á þig við kassann.
Ef við mættum aldrei kippa einu stykki með okkur koma upp vondar tilfinningar um að við séum svipt einhverju í þessu lífi. Það er þekkt innan sálfræðinnar að það sem er bannað leiðir til þráhyggju hugsana um það og jafnvel leitt til ofátskasta með tilheyrandi niðurrifi og vítahringur skapast.

Boð og bönn eiga heima í munkareglum í Tíbet, ekki í heilsusamlegum lífsstíl Vesturlandabúans enda kemur uppgjöf fljótlega með DHL þegar ekki má leyfa sér eitthvað flauelsmjúkt undir tönn af og til.

Eins og Naglatútta orðar það “leyfi til að svindla einu sinni í viku kemur algerlega í veg fyrir að maður springi á limminu yfir vikuna.”

Smá sukk einu sinni í viku er því appelsínugulur björgunarkútur til að koma í veg fyrir hömlulaust átkast upp úr þurrum þrettánda. Við vitum að við munum fá eitthvað gott um helgina og höldum í okkur þangað til, þó við séum í spreng.

Spurning sem hljómar oft: “Færðu ekki samviskubit ef þú svindlar.” Neheeii, sko aldeilis ekki!!!
Í fyrsta lagi flokkast skipulagt sukk ekki í kategoríuna svindl, heldur frelsi.
Depurð, sjálfsásakanir og samviskubit eru ekki velkomin hér.

Við vinnum fyrir hliðarspori yfir vikuna og eigum að njóta þess að kjamsa og ekki hugsa um karólínur í pizzu eða grömm af súkkulaði. Í því felst frelsið.
En frelsi fylgir ábyrgð. Sjálfsstjórn og meðvitund eru mikilvæg í sukkinu. Alltof margir troða sig út á slíkum dögum eins þakkargjörðarkalkún í Miðvesturríkjunum.


Hömlulaus átveisla er ekki til annars fallin en að færa okkur afturábak um marga reiti og skórinn er hlandblautur þar sem búið er að stroka út 6 daga af dugnaði.
Slíkt getur ýtt undir mannskemmandi leiðréttandi hegðun á borð við ómanneskjulegt magn af æfingum, uppköstum eða svelti.

Hversu stórt hliðarspor er æskilegt fer eftir líkamlegu ástandi hvers og eins. Fitumagn og vöðvamassi líkamans hafa áhrif á hvernig hann bregst við ofeldi nammidagsins.

Þegar hlutfall lýsis í líkamanum er úrvinnsla hitaeininga ólíkleg að enda í smjöri mjög lágt og því hægt að leyfa sér 2-3 máltíðir, jafnvel heilan dag, af majónesu án þess að það smyrjist á stélið. Járnrífingamelir eru betur í stakk búnir en kyrrsetu Jón að vinna úr sukkinu því stærri vöðvar geyma meira af kolvetnum.

Heilir dagar þar sem trýnið er smurt með rjómasósu og Snickers gera lýsisplokk erfiðara ef vigtin er yfir kjörþyngd.
Hátt hlutfall fitu í skrokknum gerir hann verr í stakk búinn í að vinna úr ósómanum og líklegra að því sé umbreytt í fitu. Eins ef vöðvamassi er ekki mikill til að geyma umframorku treður hún sér frekar í fitufrumurnar.

Þeir sem eru að smokra sér niður í kjörþyngd ættu því að halda sig við eina frjálsa máltíð í viku, en ekki heilan dag af sukki.

Höfum í huga:

▪ Nammidagur er einn dagur eða ein máltíð í viku. Kökusneiðar í saumó á þriðjudag, pizza í leshóp á fimmtudag, nammi í bíó með kæró á föstudag eru þrjú hliðarspor og endar ekki nema á einn veg….piss í skó.
▪ Við þurfum að vinna fyrir nammidögum með hollu mataræði og hreyfingu yfir vikuna. Spyrjum okkur sjálf á laugardegi: “Á ég skilið að fara útaf brautinni?” og svörum hreinskilnislega. Við erum hvort eð er ekki að svindla á neinum nema sjálfum okkur með að ljúga.