Það er sorglega algengt að fólk sé með fáránlega óraunhæfar væntingar þegar kemur að fitutapi.
Árangurinn á að vera bílhlöss af mör á örfáum vikum. En veruleikinn er nær alltaf annar. Þegar fitutap er tekið með skynsemi verður árangurinn oft hægari en hann verður hins vegar varanlegur þar sem við erum ekki að rústa brennslukerfinu fyrir lífstíð með óhugnanlegum aðferðum sem eiga best heima í japönskum fangelsum.
Við þurfum alltaf að gera ráð fyrir góðum tíma í fitutap því við vitum ekki hvernig líkaminn mun bregðast við fitutapsplaninu.Það getur allt litið fullkomið svart á hvítu – skothelt mataræði – intensíft æfingaplan – góður þjálfari – og metnaður fyrir allan peninginn – en við vitum aldrei hvernig líkaminn bregst við.
Sumt óþolandi fólk missir mör án þess að blikka auga, en við öll hin þurfum yfirleitt að hafa meira fyrir hlutunum.
Það sem gerist of oft er að örvænting tekur stjórnina því óraunhæfar væntingar ráða ríkjum í hausnum á fólki.
Þá er farið út í megrunaraðferðir þar sem sjeikar eru slurkaðir, pillur gleyptar, kroppað eins og horaður rakki í matinn og brennsluæfingum nauðgað. Þyngdin skýst niður á örskotsstundu, en hvað er í þyngd? Vöðvarnir sem við eyddum blóði svita og tárum í að byggja upp, vökvi í vöðvum og innyflum.
Sentimetrarnir munu líklega ekki haggast mikið svo spikið er ennþá á sínum stað.
En það er allt í lagi því talan á skjánum á vigtinni er lykillinn að hamingjunni ekki satt?? Kjaftæði!!
Þú þarft að vinna með líkamanum, ekki á móti honum. Þegar þú ert í samvinnu við skrokkinn mun hann vinna fyrir þig, þegar þú vinnur á móti honum bregst hann illa við.Því lengur sem við gerum rétta hluti fyrir líkamann mun hann skila árangri.
Hversu langan tíma þarf til að skera niður?Það fer eftir í fyrsta lagi eftir markmiðinu, og í öðru lagi hversu langt frá þessu markmiði þú ert. Því meiri fitu sem þú þarft að missa (því hærri sem fituprósentan er) því hraðar geturðu misst fitu en hins vegar þarftu að gefa þér lengri tíma.
Eðlilegt fitutap eru 2-5 cm af nokkrum fitusvæðum á mánuði, stundum meira, stundum minna og ekki alltaf af öllum fitusvæðum. Alltof oft heyrir Naglinn svekkelsi, grát og gnístran tanna yfir slíkum tölum, enda raunhæfar væntingar til fitutaps jafn sjaldséðar og styrking krónunnar.
Eftir því sem fituprósentan er lægri því hægara verður fitutap. Sem þýðir að því grennri sem þú ert, því meiri vinnu þarf fyrir minni árangur. Þessi síðustu kíló krefjast gríðarlegrar þolinmæði og skuldbindingar. Lífið er bara svona ósanngjarnt. En það er einmitt ískaldur sannleikurinn við að ná upp á næsta stig í líkamlegum árangri, og þess vegna eru ekki fleiri sem ná því.
Hinsvegar er ljósið í myrkrinu að því grennri sem þú ert því sýnilegri verður árangurinn þrátt fyrir minni tölulegan árangur. Kílóin haggast ekki endilega þar sem þú heldur í kjötið en lýsið heflast ofan af.
Að auki er vert að minnast á að fitutap er ekki línulegt fyrirbæri – sumar vikur gerist ekkert og grátið í koddann sinn – en sumar vikur lekur lýsið í stríðum straumum. Það er því mikilvægt að gefa sér nægan tíma í að ná markmiðum sínum.