Hreinlætið

Stundum er talað um að borða „hreint“ þegar ferðast er á hollustuvagninum í mataræði.  Þá er átt við að neyta matar í eins náttúrulegu ástandi og hægt er.
Þessi nálgun á mat, eldun og undirbúning er ekki megrunarkúr, átak né nokkuð annað kjaftæði úr skyndilausnarhillunni, þetta er lífsstíll eins og Naglinn þreytist ekki á að nudda inn í pöpulinn.

Eina máltíð í einu færumst við nær betri heilsu bæði í skrokk og sinni.

Hvernig á að borða og lifa „hreint“?

1) Borða 5-6 sinnum á dag – þrjár meginmáltíðir og tvær til þrjár millimáltíðir.  Magrir prótíngjafar, ferskir ávextir og grænmeti, flókin kolvetni og góða fitan eru uppistaðan í hreinu mataræði.

2) Drekka a.m.k 2 ltr af vatni á dag – meira ef þú ert að æfa af krafti.

3) Doktorsgráða í innihaldslýsingarlestri – hreint fæði inniheldur aðeins 1-2 hráefni.  Langur listi af hráefnum er fabrikkað í öreindir og flokkast ekki sem „hreint“.

4) Forðast unnin og einföld matvæli – hvítt hveiti, sykur, brauð, pasta.  Kjamsaðu í staðinn á flóknum kolvetnum eins og heilu korni, haframjöli, kartöflum o.fl.

 

5) Þekktu óvinina – passa sig á öllu sem er drekkt í sykri, löðrandi í mettaðri fitu og trans fitu, smjörsteikt og djúpsteikt.

6) Diplóma í skammtastærðum – vera meðvituð um hversu mikið af hverju við eigum að borða og halda sig innan þess ramma.  Naglinn mælir alltaf með að vigta matinn þar til skammtastærðirnar síast inn í gráa efnið.

7) Fita er ekki óvinurinn – Fita er ekki það sama og fita. Holla ómettaða fitan er nauðsynleg fyrir góða heilsu og eðlilega líkamsstarfssemi. Smjattaðu á hnetum, möndlum, hnetusmjöri, avocado, olíum, osti og öðrum gúmmulaðisfitugjöfum.

8) Hægt og hljótt – ekki truntast í gegnum máltíðir eins og hellisbúi – lærum að slaka á og njóta hvers bita

9) Aktu og taktu – Tupperware og kælitaska eru vinir í raun.  Tökum með okkur hjemmelavet nesti að heiman í vinnu, skóla, ferðalög svo við séum alltaf með hreint við höndina þegar hungrið sverfir að.

10) Familían – Matur er félagsleg athöfn sem á að deila með fjölskyldu og ástvinum.  Verum fyrirmynd og stuðlum að bættum matarvenjum, heilsu og heilbrigði hjá fjölskyldu og vinum.