Það sem enginn sér

Um hvað snýst lífsstíllinn þinn?
Ertu ein(n) af þeim sem byrjar daginn ofan á vigtinni með kökk í hálsi, klípur í kvið átján sinnum á dag, og grætur yfir spegilmyndinni.
Undirhakan of síð, appelsínuhúðin múffutoppinn mætti selja í næsta bakaríi fyrir slikk.
Kíló, sentimetrar, grömm, fatastærðir, gatið á beltinu.  Endalaus sjálfsákvarðaðir mælikvarðar sem ákvarða lífshamingjuna og niðurrif á mælikvarða yfir að ná þeim ekki.

Ef lýsislekinn er ekki í takt við hækkun bensínverðs er lífshamingjan í tojlettinu, kílóin hypja sig ekki á hraða örbylgjunnar er allt eins gott að hætta þessu heilsukjaftæði og taka aftur upp sjoppulífið.

En hvað með allar dásamlegu breytingarnar sem eru að gerast inni í maskínunni? Þegar Naglinn fær árangurssögur frá sínum skjólstæðingum er slíkur vitnisburður enn gleðilegri en frásagnir af smjörplokki.

“Það er ekki bara mörinn sem lekur, alveg gríðarlegar bætingar í blóðþrýstingi og púls. Var 140/71 í blóðþrýstingi og púls 68 þegar ég byrjaði að breyta lífsstílnum. Er núna 114/63 í blóðþrýstingi og púls er 59.”

“Ég er með PCOS sem eru fjölblöðrueggjastokkar og hef sjaldan egglos Kvensjúkdómalæknirinn minn sagði að ég gæti aukið líkurnar ef ég væri í kjörþyngd. Ég fer í fjarþjálfun og búmm… ári seinna er ég komin í kjörþyngd OG orðin ófrísk.”

“Heildarkólesteról minnkað í 4,4, úr 7,2 LDL úr 4.2 í 3,0 og læknirinn hefur minnkað blóðfitulækkandi lyfið úr 80mg í 10mg á innan við ári og þakkar það lífsstílsbreytingunum.”

“Ég er orðin miklu sterkari en ég var get t.d.gert armbeygjurnar sem eru í prógramminu sem ég fékk og finnst það ekkert sérstaklega erfitt, gat það ekki áður.”

“Fann hvað það er mikilvægt að vera sterkur í venjulegri líkamlegri vinnu…miðjan er t.d. vel virkjuð við að skakast á eldgamalli dráttarvél hring eftir hring á ójöfnu túni og gott að hafa sterka handleggi þegar ekkert er vökvastýrið á þeirri sömu Massey Ferguson!”

“Ég finn fyrir því að kviðurinn er orðinn sterkari og það er auðveldara að halda á bónuspokunum upp fjórar hæðir”

“Menn í körfuboltanum hafa haft orð á því að það sé “hundleiðinlegt” að dekka mig og ég geti hreyft mig orðið allt of mikið!”

Því miður einblínum við alltof oft á ytri árangur. Það er náttúrulega ekki minnst orði á þessa innri þætti í árangurssögum miðlanna þar sem hraði lýsislekans brýtur hljóðmúrinn.

Þess vegna gleymist þessi ósýnilegi árangur inni í okkur sem skiptir svo miklu meira máli en sentimetrar og grömm.

Að vera hreyfanlegri, með betra þol og úthald þýðir að hjartað er orðið effektífara, sem þýðir betra blóðflæði, lægri blóðþrýstingur, sterkari æðaveggir, og ergó = betri heilsa.

Næst þegar þú skælir yfir að vigtin haggist ekki þá vikuna, hugsaðu þá um þessar varanlegu breytingar á heilsunni sem eru svo miklu mikilvægari ástæða til að haldast í lífsstílnum.

Hefur þú efni á að kasta inn handklæðinu og leggjast aftur í sukkið? Kjúllabringur svo dýrar og kort í ræktina óþarfa pjatt fyrst ég massast ekki í drasl á fyrstu vikunum.

Þú vilt þá kannski frekar eyða þessum peningum í lyfjakostnað síðar?

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s